Samgöngur í ógöngum
'}}

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Nú er orðið ljóst að sam­göngusátt­mál­inn var aldrei raun­hæf­ur og sam­göng­ur á höfuðborg­ar­svæðinu eru í meiri ógöng­um en nokkru sinni fyrr með lengri og tíðari biðröðum fólks­bíla og al­menn­ings­vagna á stofn­braut­um, hækk­andi tíma­skatti á veg­far­end­ur og at­vinnu­líf, sí­fellt lengri töf­um lög­reglu, sjúkra­flutn­inga og slökkviliðs og sí­fellt meiri ógn við al­manna­varn­ir ef stór­slys eða nátt­úru­vá ber að hönd­um.

Sam­göngusátt­mál­inn

Hinn 26. sept­em­ber 2019 skrifuðu for­sæt­is­ráðherra, fjár­málaráðherra, sam­gönguráðherra, borg­ar­stjóri og bæj­ar­stjór­ar á höfuðborg­ar­svæðinu und­ir sam­göngusátt­mála. Hann kveður á um 120 þúsund millj­óna króna fram­kvæmd­ir við sam­göngu­bæt­ur á höfuðborg­ar­svæðinu á 15 árum. Um 50 þúsund millj­ón­um var ætlað að verja í borg­ar­línu, álíka upp­hæð í stofn­braut­ir og af­gang­in­um í göngu- og hjóla­stíga, göngu­brýr, und­ir­göng, sta­f­ræna um­ferðar­stýr­ingu og „sér­tæk­ar ör­yggisaðgerðir“.

Rík­inu var ætlað að greiða 45 þúsund millj­ón­ir af kostnaðinum, borg og bæj­ar­fé­lög­um 15 þúsund millj­ón­ir, en helm­ing upp­hæðar­inn­ar eiga veg­far­end­ur að greiða með vegatoll­um. Fé­lag­inu Betri sam­göng­ur er ætlað að sjá um hnökra­laus­ar fram­kvæmd­ir þeirra verk­efna sem sátt­mál­inn kveður á um.

Upp­færður kostnaður

Nú, tæp­um þrem­ur og hálfu ári síðar, hafa eng­ar fram­kvæmd­ir séð dags­ins ljós. Betri sam­göng­ur hafa hins veg­ar upp­fært kostnaðinn sem hef­ur hækkað um 50%, farið úr 120 þúsund millj­ón­um í 180 þúsund millj­ón­ir. Kostnaður­inn hef­ur með öðrum orðum hækkað um 1.500 millj­ón­ir á mánuði, eða um 50 millj­ón­ir á dag, frá því skrifað var und­ir sátt­mál­ann, án þess að nokkuð hafi verið gert. Ekk­ert bend­ir til þess að kostnaður haldi ekki áfram að aukast með sama hraða, dag frá degi.

Vanefnd­ir á sátt­mál­an­um

Borg­ar­yf­ir­völd hafa vanefnt sam­göngusátt­mál­ann með því að hefja ekki fram­kvæmd­ir sem þau eiga nú að hafa lokið við, s.s. við gatna­mót Bú­staðaveg­ar og Reykja­nes­braut­ar og teng­ingu Arn­ar­nes­veg­ar við Breiðholts­braut. Þá ból­ar ekk­ert á sta­f­rænni um­ferðarljós­a­stýr­ingu sem borg­in átti að koma á fót án taf­ar.

Borg­ar­stjóri hef­ur held­ur ekki séð ástæðu til að greina borg­ar­stjórn frá þess­ari gíf­ur­legu kostnaðar­hækk­un, né gera grein fyr­ir vanefnd­um sátt­mál­ans.

Með hliðsjón af þröng­um fjár­hag rík­is og borg­ar væri það óðs manns æði að fara nú í veg­ferð sem hækk­ar um 50 millj­ón­ir á dag. Ríkið hef­ur ný­verið þurft að af­greiða tvenn Covid-fjár­lög og fjár­hags- og skuld­astaða borg­ar­inn­ar er með al­var­leg­asta móti með til­heyr­andi ráðninga­banni og sí­vax­andi vanefnd­um á grunnþjón­ustu við borg­ar­búa.

At­hafn­ir eða enda­laust orðagjálf­ur?

Við þess­ar aðstæður legg ég til að við end­ur­skoðum sam­göngusátt­mál­ann frá grunni og leggj­um niður hina nýju rík­is­stofn­un, Betri sam­göng­ur. Lát­um Vega­gerðina sjá um fram­kvæmd­ir eins og hún hef­ur gert með sóma í ára­tugi.

Koma þarf á neyðar­hópi Vega­gerðar, ráðuneyt­is og sveit­ar­stjórna á höfuðborg­ar­svæðinu til að for­gangsraða mest aðkallandi úr­lausn­um með hliðsjón af helstu flösk­u­stút­um um­ferðarflæðis og fjár­hags­lega arðbær­um fram­kvæmd­um þar sem Sunda­braut verður einnig tek­in inn í heild­ar­mynd­ina.

Stór­bæt­um al­menn­ings­sam­göng­ur með fjölg­un vagna og betra og ein­fald­ara kerfi. Það væri hægt að kaupa býsna marga vagna fyr­ir ein­ung­is brot af fyr­ir­huguðum kostnaði af fyrsta áfanga borg­ar­línu af sex. Byggj­um al­menn­ings­sam­göng­ur á reynsl­unni og því sem við höf­um í dag, og bæt­um það stöðugt, m.a. með sérak­rein­um þar sem því verður við komið.

För­um taf­ar­laust í hinar kostnaðarminni fram­kvæmd­ir sem skila mikl­um ár­angri. Kom­um strax á sta­f­rænni um­ferðarljós­a­stýr­ingu og setj­um und­ir­göng í stað tveggja gang­brauta yfir Miklu­braut sem nú stöðva mörg þúsund öku­tæki á sól­ar­hring.

Stofn­braut­ir eru flutn­ings­leiðir al­menn­ings­vagna og viðbragðsaðila, ekk­ert síður en einka­bíla. Þær eru því grunn­ur sam­göngu­kerf­is­ins. En þær hafa verið á ís síðastliðin 12 ár. Það er því kom­inn tími til að þíða það ástand með vax­andi vor­leys­ing­um.

En um­fram allt: Hætt­um að láta okk­ur dreyma. Vökn­um og kom­um okk­ur að verki!

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2023.