Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Nú er orðið ljóst að samgöngusáttmálinn var aldrei raunhæfur og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru í meiri ógöngum en nokkru sinni fyrr með lengri og tíðari biðröðum fólksbíla og almenningsvagna á stofnbrautum, hækkandi tímaskatti á vegfarendur og atvinnulíf, sífellt lengri töfum lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs og sífellt meiri ógn við almannavarnir ef stórslys eða náttúruvá ber að höndum.
Samgöngusáttmálinn
Hinn 26. september 2019 skrifuðu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, samgönguráðherra, borgarstjóri og bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu undir samgöngusáttmála. Hann kveður á um 120 þúsund milljóna króna framkvæmdir við samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu á 15 árum. Um 50 þúsund milljónum var ætlað að verja í borgarlínu, álíka upphæð í stofnbrautir og afganginum í göngu- og hjólastíga, göngubrýr, undirgöng, stafræna umferðarstýringu og „sértækar öryggisaðgerðir“.
Ríkinu var ætlað að greiða 45 þúsund milljónir af kostnaðinum, borg og bæjarfélögum 15 þúsund milljónir, en helming upphæðarinnar eiga vegfarendur að greiða með vegatollum. Félaginu Betri samgöngur er ætlað að sjá um hnökralausar framkvæmdir þeirra verkefna sem sáttmálinn kveður á um.
Uppfærður kostnaður
Nú, tæpum þremur og hálfu ári síðar, hafa engar framkvæmdir séð dagsins ljós. Betri samgöngur hafa hins vegar uppfært kostnaðinn sem hefur hækkað um 50%, farið úr 120 þúsund milljónum í 180 þúsund milljónir. Kostnaðurinn hefur með öðrum orðum hækkað um 1.500 milljónir á mánuði, eða um 50 milljónir á dag, frá því skrifað var undir sáttmálann, án þess að nokkuð hafi verið gert. Ekkert bendir til þess að kostnaður haldi ekki áfram að aukast með sama hraða, dag frá degi.
Vanefndir á sáttmálanum
Borgaryfirvöld hafa vanefnt samgöngusáttmálann með því að hefja ekki framkvæmdir sem þau eiga nú að hafa lokið við, s.s. við gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar og tengingu Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut. Þá bólar ekkert á stafrænni umferðarljósastýringu sem borgin átti að koma á fót án tafar.
Borgarstjóri hefur heldur ekki séð ástæðu til að greina borgarstjórn frá þessari gífurlegu kostnaðarhækkun, né gera grein fyrir vanefndum sáttmálans.
Með hliðsjón af þröngum fjárhag ríkis og borgar væri það óðs manns æði að fara nú í vegferð sem hækkar um 50 milljónir á dag. Ríkið hefur nýverið þurft að afgreiða tvenn Covid-fjárlög og fjárhags- og skuldastaða borgarinnar er með alvarlegasta móti með tilheyrandi ráðningabanni og sívaxandi vanefndum á grunnþjónustu við borgarbúa.
Athafnir eða endalaust orðagjálfur?
Við þessar aðstæður legg ég til að við endurskoðum samgöngusáttmálann frá grunni og leggjum niður hina nýju ríkisstofnun, Betri samgöngur. Látum Vegagerðina sjá um framkvæmdir eins og hún hefur gert með sóma í áratugi.
Koma þarf á neyðarhópi Vegagerðar, ráðuneytis og sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu til að forgangsraða mest aðkallandi úrlausnum með hliðsjón af helstu flöskustútum umferðarflæðis og fjárhagslega arðbærum framkvæmdum þar sem Sundabraut verður einnig tekin inn í heildarmyndina.
Stórbætum almenningssamgöngur með fjölgun vagna og betra og einfaldara kerfi. Það væri hægt að kaupa býsna marga vagna fyrir einungis brot af fyrirhuguðum kostnaði af fyrsta áfanga borgarlínu af sex. Byggjum almenningssamgöngur á reynslunni og því sem við höfum í dag, og bætum það stöðugt, m.a. með sérakreinum þar sem því verður við komið.
Förum tafarlaust í hinar kostnaðarminni framkvæmdir sem skila miklum árangri. Komum strax á stafrænni umferðarljósastýringu og setjum undirgöng í stað tveggja gangbrauta yfir Miklubraut sem nú stöðva mörg þúsund ökutæki á sólarhring.
Stofnbrautir eru flutningsleiðir almenningsvagna og viðbragðsaðila, ekkert síður en einkabíla. Þær eru því grunnur samgöngukerfisins. En þær hafa verið á ís síðastliðin 12 ár. Það er því kominn tími til að þíða það ástand með vaxandi vorleysingum.
En umfram allt: Hættum að láta okkur dreyma. Vöknum og komum okkur að verki!
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2023.