Starfs­manna­hald ríkis og sveitar­fé­laga til fram­tíðar
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Starfs­manna­hald hins opin­bera hefur vaxið jafnt og þétt og fjölgun opin­berra starfa hefur verið mikil. Sam­kvæmt tölum Hag­stofunnar eru laun­þegar hins opin­bera um þriðjungur af heildar­fjölda launa­fólks í landinu. Þar vegur fjölgun starfs­manna sveitar­fé­laga auð­vitað þungt, ekki síst Reykja­víkur­borgar, stærsta sveitar­fé­lagsins. Borgin hefur fjölgað starfs­fólki um tugi prósenta á undan­förnum árum og í raun langt um­fram borgar­búa. Og í miðju sjálf­skipuðu ráðningar­banni aug­lýsir Reykja­víkur­borg nú eftir svo­kölluðum „verk­efna­stjóra fram­tíðarinnar“.

Á sama tíma og opin­berum starfs­mönnum hefur fjölgað hafa laun þeirra hækkað mun hraðar en laun á al­mennum markaði. Laun og tengdur kostnaður eru um fjórðungur af út­gjöldum ríkisins. Það ætti því ekki að koma á ó­vart að Ís­lendingar leiti í auknum mæli í ný störf hjá hinu opin­bera meðan einka­geirinn mannar ný störf með er­lendu starfs­fólki.

Nú er frum­varp sem ég mælti fyrir, fyrir hönd okkar Sjálf­stæðis­manna, um ein­földun á starfs­manna­haldi ríkisins, í með­förum þingsins. Frum­varpið er löngu tíma­bært, en það miðar aðal­lega að því að fella niður þá skyldu for­stöðu­manns að á­minna starfs­mann með form­legum hætti vegna brots hins síðar­nefnda á starfs­skyldum. Einnig þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem leiða af starfi hans. Breytingarnar eru nauð­syn­legar til að gera sí­aukið starfs­manna­hald ríkisins skil­virkara.

Ég hef reglu­lega tekið starfs­manna­mál hins opin­bera upp á þinginu og sendi ný­lega fyrir­spurn til fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra um fjölda stöðu­gilda hjá ríkinu. Þar óska ég eftir sundur­liðun eftir störfum og lands­hlutum til þess að geta betur áttað okkur á því hvar fjölgunin hefur orðið.

Mikil­vægur liður í starfi okkar al­þingis­manna er eftir­lits­skylda með ríkis­stjórn og stjórn­sýslu ríkisins. Þar er starfs­manna­haldið og þróun þess ekki undan­skilið. Auð­vitað er mikil­vægt að fjár­munir skatt­greið­enda, sem að svo stóru leyti er varið í launa­greiðslur, nýtist sem best og að starf­semi ríkisins sé eins hag­kvæm og skil­virk og mögu­legt er.

At­vinnu­rek­endur á al­mennum markaði bregðast við sam­keppni m.a. með því að draga úr kostnaði við starfs­manna­hald sam­hliða því að bæta þjónustu við við­skipta­vini sína. Þannig gjör­breyta fyrir­tæki reglu­lega skipu­lagi sínu og starfs­háttum. Hið opin­bera mætti gjarnan taka sér það til fyrir­myndar á ýmsum sviðum stjórn­sýslunnar. Þar virðist þróunin þó oft ein­mitt vera öfug.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. febrúar 2023.