Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Starfsmannahald hins opinbera hefur vaxið jafnt og þétt og fjölgun opinberra starfa hefur verið mikil. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru launþegar hins opinbera um þriðjungur af heildarfjölda launafólks í landinu. Þar vegur fjölgun starfsmanna sveitarfélaga auðvitað þungt, ekki síst Reykjavíkurborgar, stærsta sveitarfélagsins. Borgin hefur fjölgað starfsfólki um tugi prósenta á undanförnum árum og í raun langt umfram borgarbúa. Og í miðju sjálfskipuðu ráðningarbanni auglýsir Reykjavíkurborg nú eftir svokölluðum „verkefnastjóra framtíðarinnar“.
Á sama tíma og opinberum starfsmönnum hefur fjölgað hafa laun þeirra hækkað mun hraðar en laun á almennum markaði. Laun og tengdur kostnaður eru um fjórðungur af útgjöldum ríkisins. Það ætti því ekki að koma á óvart að Íslendingar leiti í auknum mæli í ný störf hjá hinu opinbera meðan einkageirinn mannar ný störf með erlendu starfsfólki.
Nú er frumvarp sem ég mælti fyrir, fyrir hönd okkar Sjálfstæðismanna, um einföldun á starfsmannahaldi ríkisins, í meðförum þingsins. Frumvarpið er löngu tímabært, en það miðar aðallega að því að fella niður þá skyldu forstöðumanns að áminna starfsmann með formlegum hætti vegna brots hins síðarnefnda á starfsskyldum. Einnig þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem leiða af starfi hans. Breytingarnar eru nauðsynlegar til að gera síaukið starfsmannahald ríkisins skilvirkara.
Ég hef reglulega tekið starfsmannamál hins opinbera upp á þinginu og sendi nýlega fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra um fjölda stöðugilda hjá ríkinu. Þar óska ég eftir sundurliðun eftir störfum og landshlutum til þess að geta betur áttað okkur á því hvar fjölgunin hefur orðið.
Mikilvægur liður í starfi okkar alþingismanna er eftirlitsskylda með ríkisstjórn og stjórnsýslu ríkisins. Þar er starfsmannahaldið og þróun þess ekki undanskilið. Auðvitað er mikilvægt að fjármunir skattgreiðenda, sem að svo stóru leyti er varið í launagreiðslur, nýtist sem best og að starfsemi ríkisins sé eins hagkvæm og skilvirk og mögulegt er.
Atvinnurekendur á almennum markaði bregðast við samkeppni m.a. með því að draga úr kostnaði við starfsmannahald samhliða því að bæta þjónustu við viðskiptavini sína. Þannig gjörbreyta fyrirtæki reglulega skipulagi sínu og starfsháttum. Hið opinbera mætti gjarnan taka sér það til fyrirmyndar á ýmsum sviðum stjórnsýslunnar. Þar virðist þróunin þó oft einmitt vera öfug.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. febrúar 2023.