Saman á útivelli
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:

Virk þátttaka Íslands í alþjóðasamstarfi er mikilvæg og þar er til mikils að vinna. Við tökum þar þátt í að leysa alþjóðleg úrlausnarefni sem krefjast alþjóðlegrar samvinnu. Og þar getum við látið gott af okkur leiða með því að liðsinna í málum sem við höfum sérþekkingu á. Auk þess nýtist þátttakan til stuðnings íslenskum útflutningi.

Aðild Íslands að EFTA (Fríverslunarsamtökum Evrópu) er vettvangur þar sem mikilvægt er að við leggjum okkar af mörkum. Frá stofnun hafa samtökin gert 29 fríverslunarsamninga við 40 ríki utan ESB. Þingmannanefnd EFTA fundaði í vikunni í Brussel og Genf og sóttu fjórir alþingismenn fundinn. Á fundinum fóru nefndarmenn frá Íslandi, Liechtenstein, Noregi og Sviss yfir starfsemi EFTA og stöðu og þróun fríverslunarsamninga og alþjóðaviðskipta í víðu samhengi.

Áskoranir í alþjóðlegu samstarfi um utanríkisviðskipti eru margvíslegar um þessar mundir og fara síst minnkandi. Þar má nefna afleiðingar innrásar Rússlands í Úkraínu, hækkandi orku- og matvælaverð, alþjóðlega verðbólgu og viðbrögð seðlabanka, sem sé með hækkun stýrivaxta. Að auki hefur heimsfaraldur og aðgerðir vegna hans, einkum í Kína, enn áhrif á aðfangakeðjuna. Þessi viðfangsefni hafa opnað augu Evrópubúa fyrir stöðu frumframleiðslu innan álfunnar, eða öllu heldur skorti á henni, þótt ekki séu allir sammála um hvort eða hvernig bregðast eigi við.

Þegar fulltrúar Íslands taka þátt í alþjóðasamstarfi er markmiðið auðvitað að standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar. Það er því mikilvægt fyrir okkur sem störfum á vettvangi stjórnmálanna, oft á tíðum á öndverðum meiði, að snúa þar bökum saman. Við ættum að skilja innanlandsdeilur og pólitískar þrætur eftir heima fyrir og vinna saman sem eitt lið á útivelli. Það mættu fleiri útverðir í hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd hafa í huga.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. febrúar 2023.