Út­lendinga­lög­gjöf, færum okkur nær ná­granna­þjóðunum
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:

Í umræðum á Alþingi um breytingar á útlendingalögum hefur m.a. verið tekist á um samræmi við norræna og aðra evrópska löggjöf. Skiptar skoðanir virðast vera um hvort breytingarnar feli í sér að við séum að færast nær lagaumgjörð og framkvæmd þeirra landa sem við berum okkur gjarnan saman við.

Íslensk lög og lagaumhverfi varðandi útlendinga hafa sannarlega ekki verið samin í tómarúmi. Eins og svo mörg önnur íslensk lög eru þau byggð á norrænni löggjöf og undir evrópskum áhrifum, m.a. vegna aðildar okkar að EES-samningnum og að Schengen-samstarfinu. Síðustu heildarlög um útlendinga, frá 2002, voru þannig samin með hliðsjón af norrænni löggjöf og „að verulegu leyti stuðst við norsku útlendingalögin“, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laganna. Sömu sögu er að segja um núgildandi lög frá 2017. Í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga, voru norskir sérfræðingar í útlendingalöggjöf til ráðgjafar við smíði frumvarpsins og reynt var að taka tillit til þess sem hafði reynst Norðmönnum vel og til hins sem leitt hafði til vandræða. Þannig var á fjölmörgum stöðum í greinargerð vísað til norsku útlendingalaganna. Þá var sömuleiðis tekið mið af þróun í öðrum Evrópuríkjum og helstu tilskipunum sem í gildi voru í málaflokknum. Að þessu sögðu eru lögin auðvitað íslensk og aðlöguð að þörfum íslensks samfélags. Hér hafa sem sé einnig gilt reglur og framkvæmd sem er frábrugðin framkvæmd nágrannaríkja okkar – séríslenskar reglur og framkvæmd.

Frá gildistöku núgildandi útlendingalaga hefur margt breyst, ekki síst í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Mikilvægt er að löggjöfin og framkvæmdin sé aðlöguð að þróun alþjóðasamfélagsins og þar hafa norrænar vinaþjóðir verið fyrri til. Eins og áður lítum við til reynslu þeirra og regluverks í þeim efnum.

Eitt af því sem við þingmenn höfum tekist á um, er minnkuð félagsleg þjónusta við umsækjendur sem fengið hafa endanlega synjun við umsókn um alþjóðlega vernd. Það er mjög svo óeðlileg krafa, hvað þá niðurstaða, að fólk geti ferðast hingað og fengið húsnæði, framfærslu og önnur félagsleg réttindi til langs tíma eftir að hafa verið synjað um alþjóðlega vernd á tveimur stjórnsýslustigum.

Það er jafnvel svo að fólk getur tafið eigin brottvísun þegar ákvörðun um hana liggur fyrir, mánuðum og jafnvel árum saman án þess að það hafi nokkur áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðis eða framfærslu frá íslenska ríkinu. Getur verið að einhverjum finnist það eðlilegt? Ég tel að fólk almennt telji svo ekki vera. Að réttara sé að verja fjármunum ríkisins til annarra sem þeirra þurfa.

Þetta er enda framkvæmd sem er ólík því sem gerist í löndunum í kringum okkur. Þó svo að framkvæmd við veitingu þjónustu og brottfall hennar við þessar aðstæður sé mismunandi, er almenna reglan sú að þjónustustig minnkar eða hverfur þegar einstaklingur fær synjun á umsókn um alþjóðlega vernd. Þá skiptir það sömuleiðis máli í flestum ríkjum hversu samvinnufúsir einstaklingar eru við framkvæmd ákvörðunar um synjun og brottvísun frá landinu. Framangreint á við um Svíþjóð, Noreg, Danmörku og þetta á við um um Finnland. Af hverju ekki hér?

Við getum verið sammála eða ósammála um hvort breytingarnar sem lagðar eru til á útlendingalöggjöfinni séu til bóta. En þær eru í það minnsta tilraun til þess að færa verndarkerfið okkar nær því sem gerist í löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Til þess að horfa m.a. til norrænnar reynslu og löggjafar – læra af því sem þar hefur reynst vel og illa, eins og við gerum svo gjarnan. Að mínu mati hafa þeir andstæðingar frumvarpsins sem fjallað hafa málefnalega um það, alls ekki fært sannfærandi rök fyrir því að Ísland skuli, ein þjóða, skera sig úr hinni norrænu fjölskyldu í þessum málum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. janúar 2023.