Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Um árabil hefur skiptistöðin í Mjódd verið vísvitandi vanrækt af borgaryfirvöldum. Skiptistöðin er önnur fjölfarnasta umferðarmiðstöð landins en um fjórar milljónir farþega fara árlega um hana. Vanræksla svo mikilvægrar stöðvar, beinist ekki bara að henni heldur strætókerfinu í heild.
Miðpunktur skiptistöðvarinnar er upphitaður biðsalur þar sem farþegar geta hlýjað sér í skjóli fyrir veðri og vindum. Umhirðu og eftirliti með salnum, sem og salernisþrifum, er stórlega ábótavant. Salurinn er kuldalegur og húsbúnaður fátæklegur. Samt er betra að bíða eftir strætó í salnum heldur en úti í kulda og trekki.
Biðsal lokað á annatíma
Klukkan 18 á kvöldin er biðsalnum lokað og farþegum vísað út. Skilgreindur annatími Strætó er frá kl. 16-19. Þessi lokun bitnar á fjölmörgum farþegum, sem gert er að híma í myrkri, kulda og trekki fyrir utan upphitaða stöðina á kvöldin.
Dettur einhverjum í hug að viðskiptavinir annarra fólksflutningafyrirtækja þyrftu að una slíkri framkomu? Að farþegum yrði t.d. vísað út úr BSÍ, Leifsstöð eða flugstöðinni í Reykjavík og þeim gert að bíða úti í kuldanum?
Sjálfsagðar umbótatillögur
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt til að gerðar verði eftirfarandi umbætur í skiptistöðinni í Mjódd.
1. Kvöldopnun. Biðstöðin verði opin farþegum á kvöldin á meðan strætisvagnar ganga.
2. Gæsla með biðsalnum verði aukin og salernisþrifum komið í lag.
3. Sætum í biðsal verði fjölgað og þau löguð sem fyrir eru. Biðsalurinn verði gerður hlýlegri, t.d. með uppsetningu listaverka.
Ofangreind atriði eru svo sjálfsögð þjónusta að varla ætti að þurfa flytja um þau sérstaka tillögu, hvað þá að berjast fyrir þeim árum saman.
Tillagan var lögð fram á síðasta borgarstjórnarfundi, 3. janúar. Í október sl. hafði samhljóða tillaga verið flutt í umhverfis- og skipulagsráði en frestað af meirihlutanum. Þrátt fyrir að tillagan væri útskýrð og rædd í þaula á borgarstjórnarfundinum, treystu borgarfulltrúar meirihlutans sér ekki til að samþykkja hana heldur vísuðu henni til borgarráðs.
Sama tillaga felld 2017
Rekja má tillöguflutninginn til 2016 og 2017 þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til kvöldopnun skiptistöðvarinnar auk fleiri úrbóta. Þá eins og nú, færðust fulltrúar vinstri meirihlutans lengi undan því að taka tillöguna til afgreiðslu. Það tókst þó í júní 2017 og var tillagan þá felld með atkvæðum Samfylkingarinnar og fylgiflokka hennar.
Núverandi meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vill ekki samþykkja svo einfalda tillögu þrátt fyrir að málið hafi verið til skoðunar með einum eða öðrum hætti í borgarkerfinu síðan í janúar 2016 eða í sex ár! Slíkt er ótvíræður vitnisburður um arfaslaka verkstjórn og metnaðarleysi í málefnum almenningssamgangna.
Farþegar verða því áfram að notast við úr sér gengin húsgögn eða bíða úti í kulda og myrkri á meðan málið hrakhraufast um borgarkerfið án niðurstöðu. Meirihlutinn gæti jafnvel skipað stýrihóp til að yfirfara þjónustuhandbók skiptistöðva?
Varla er sparnaði um að kenna því undir lok nýliðins árs voru keypt ný hönnunar-húsgögn í skrifstofur borgarfulltrúa þrátt fyrir að þau húsgögn, sem fyrir voru, væru í góðu lagi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. janúar 2023