Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Á þessu ári verða útgjöld ríkissjóðs, samkvæmt fjárlögum, vegna heilbrigðismála tæpir 325 milljarðar króna. Þetta er nær 94 milljörðum króna hærri fjárhæð, á föstu verðlagi, en 2017 – árið sem samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri-grænna tók við völdum. Þetta er raunaukning um 40% – hvorki meira né minna. Þrátt fyrir þessa gríðarlegu aukningu er því haldið fram að heilbrigðiskerfið sé fjársvelt.
Í umfjöllun sumra stjórnmálamanna og fjölmiðlunga er jafnvel dregin upp sú mynd að niðurskurðarhnífnum hafi verið beitt óspart á heilbrigðiskerfið á undanförnum árum. Ekkert er fjær sanni. Fremur er hægt að halda því fram að gríðarleg aukning útgjalda ríkisins vegna heilbrigðismála hafi leitt til óhagkvæmari nýtingar fjármuna og um leið hafi stjórnmálamenn og yfirvöld heilbrigðismála komist hjá því að ráðast í nauðsynlegar og skynsamlegar kerfisbreytingar til að tryggja góða og örugga þjónustu við landsmenn.
Það er sama á hvaða mælikvarða útgjöld til heilbrigðismála eru skoðuð. Heildarútgjöld hafa snarhækkað, útgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu og á hvern íbúa hafa hækkað hressilega. Vöxtur útgjalda hefur verið langt umfram vöxt landsframleiðslu á síðustu árum.
Á föstu verðlagi hafa útgjöld á íbúa ekki verið hærri í áratug. Árið 2017 voru þau um 694 þúsund krónur en stefna í að verða um 863 þúsund á þessu ári. Að teknu tilliti til aldurssamsetningar eru útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu há hér á landi. Leiðrétt fyrir aldurssamsetningu er kostnaður við heilbrigðiskerfið sá þriðji hæsti innan OECD. Aðeins Bandaríkin og Noregur eru fyrir ofan. Heilbrigðisútgjöld í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, sem hlutfall af landsframleiðslu, eru töluvert lægri en á Íslandi.
Ratað í ógöngur
Ég hef lengi verið sannfærður um að umræðan um heilbrigðiskerfið og stefnumótun þess hafi ratað í ógöngur vegna gamaldags hugsunarháttar, þvergirðingslegs viðhorfs til einkarekstrar og að því er virðist blindrar trúar á að flest ef ekki öll vandamál sé hægt að leysa með auknum fjármunum. Þess vegna snýst hið pólitíska karp um hversu mikið skuli auka fjárveitingar á hverju ári til heilbrigðismála. Karp sem verður oftar en ekki að yfirboðum eins og kom ágætlega í ljós við afgreiðslu fjárlaga fyrir síðustu jól. Engu er líkara en það sé sjálfstætt markmið að auka útgjöldin þannig að sífellt stærri hluti þjóðarframleiðslunnar renni til heilbrigðisútgjalda. Skipulag kerfisins og hagkvæm nýting fjármuna verða aukaatriði. Hættan er sú að við missum sjónar á hvers vegna við höfum ákveðið að reka sameiginlegt sjúkratryggingakerfi; að auka lífsgæði allra með góðri og öflugri heilbrigðisþjónustu.
Hugsjónin að baki íslenska heilbrigðiskerfinu – um aðgengi allra að góðri og nauðsynlegri þjónustu óháð efnahag – verður merkingarlaus ef fjármunum er sóað í vitlausu skipulagi. Sóun fjármuna og fábreytni í rekstrarformi leiða til lakari þjónustu við okkur öll sem erum sjúkratryggð. Ójöfnuður og misrétti aukast þar sem hinir efnameiri kaupa nauðsynlega þjónustu af innlendum einkaaðilum eða í öðrum löndum, en við hin neyðumst til að bíða vikum og mánuðum saman eftir þjónustu.
Vítahringur Landspítalans
Sameiginlegt sjúkratryggingakerfi þýðir í sinni einföldu mynd að fé fylgi þeim sem þarf á þjónustu að halda. Það er svo hlutverk Sjúkratrygginga Íslands að semja um þjónustuna fyrir okkar hönd óháð rekstrarformi.
Hugmyndafræðin að baki Sjúkratryggingum hefur því miður ekki náð fram að ganga nema að takmörkuðu leyti. Og einmitt þess vegna þarf fólk að bíða þolinmótt í ríkisbiðröðum t.d. eftir liðskiptaaðgerðum. Um leið hefur Landspítalinn ekki fengið að einbeita sér að kjarna- og lykilstarfsemi heldur látinn axla sífellt fleiri verkefni sem væru betur komin utan spítalans. Með þessu er ekki aðeins verið að sóa fjármunum heldur koma í veg fyrir að hæfileikaríkt starfsfólk spítalans geti einbeitt sér að því sem mestu skiptir. Þeir sem þurfa á þjónustu að halda líða fyrir og álag á spítalann „yfir þolmörkum“ verður viðvarandi – krónískt – ástand.
Við getum orðað þetta svona: Gefum Landspítalanum og starfsfólki hans tækifæri til að sinna kjarnastarfsemi og flytjum aðra þjónustu frá spítalanum til þeirra sem eru reiðubúnir til að veita hana með samningum við Sjúkratryggingar. Ef yfirvöld heilbrigðismála eru ekki tilbúin til að stokka upp spilin verður ekki hægt að rjúfa þann vítahring sem starfsemi mikilvægustu heilbrigðisstofnunar okkar er föst í.
Vítahringurinn verður hins vegar ekki slitinn ef pólitískur stuðningur er ekki fyrir hendi. Því miður bendir margt til þess að sá stuðningur sé takmarkaður. Trúin á ríkisvæðingu heilbrigðisþjónustunnar lifir enn sæmilegu lífi innan flestra stjórnmálaflokka og í huga fjölmiðlunga, þrátt fyrir biðlista, stóraukin útgjöld, færri valmöguleika almennings til þjónustu og fábreyttari starfstækifæri vel menntaðra heilbrigðisstarfsmanna. Hægt og bítandi molnar undan sameiginlegu sjúkratryggingakerfi og tvöfalt heilbrigðiskerfi festir rætur. Afleiðingin verður aukið misrétti og aukinn kostnaður samfélagsins. Því verður ekki trúað að það sé vilji ríkisstjórnar, sem hefur beitt sér fyrir gríðarlegri aukningu útgjalda til heilbrigðismála, að láta það verða sína arfleifð.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. janúar 2023.