Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Ef einhver mál eiga það til að mæta afgangi í pólitískri umræðu eru það vafalítið frelsismálin. Þetta eru mál sem gjarnan eru sögð skipta litlu máli og mæta iðulega aðdróttunum um að þau sólundi dýrmætum tíma Alþingis þegar aðkallandi mál bíða. Það er auðvitað sjónarmið sem hverjum er frjálst að hafa skoðun á; hvað það er sem er mikilvægast sem Alþingi sýslar við hverju sinni. Þó má hafa í huga að annars vegar er Alþingi þannig uppbyggt að því er beinlínis ætlað að takast á við mörg og mismerkileg mál í einu og hins vegar að ef við tökum frelsið sem gefið og látum það alltaf mæta afgangi er hætt við að það kvarnist af því smám saman þar til ekkert er eftir.
Þingið stígur stærri frelsisskref
Á umliðnu þingári var gleðilegt að ekki voru einungis fleiri frelsismál á dagskrá en yfirleitt áður heldur tóku þau undantekningarlaust breytingum í meiri frelsisátt í meðförum þingsins á málinu.
Stærsta frelsismál ársins er án efa lög um sveigjanlegri umgjörð á leigubílamarkaði sem var samþykkt á lokadegi þingsins fyrir jól. Málinu hefur verið brigslað um að vera eingöngu viðbrögð við evrópsku boðvaldi en ráðamenn þeir sem lögðu það fram hafa sagt það rangt. Það er enda augljóst öllum sem vilja sjá að breytingar á leigubílamarkaði voru nauðsynlegar, notendur þjónustunnar vita að þar blasti við neyðarástand. Frumvarpið sem innviðaráðherra lagði fram á vorþingi var því fagnaðarefni og ekki síst þær breytingar sem voru unnar á þinginu í frelsisátt, allt frá starfsstöðvum til gjaldmæla sem sporna við aðgangshindrunum á markaðnum. Þessi atriði draga úr niðurnjörvun á tækifærum og starfsaðstæðum þeirra sem starfa við að veita þjónustuna. Það er þó ekki þar með sagt að frelsinu fylgi ekki takmarkanir enda eru í nýju lögunum stífar kröfur varðandi það hverjir geta starfað við leigubílaþjónustu í þágu öryggis notenda.
Tilveruréttur alls litrófsins
Frelsismálin eiga það oft sameiginlegt að vera málsvarar ýmissa lasta og oft ógna lýðheilsu. Það er nú samt þannig að það er ýmislegt undir sólinni sem er kannski ekki í öllu ljósi æskilegt en verður þó að fá sinn tilverurétt eins og hinir ólíku litir litrófsins.
Þar má fyrst nefna brugghúsmálið sem bar upphaflega með sér að lítil bjórbrugghús mættu selja vörur sínar á framleiðslustað. Þingið steig stærra frelsisskref og víkkaði heimildina til allra framleiðenda áfengis, líka líkjöra og sterks áfengis. Það var frábært skref í átt að meira frelsi í áfengislöggjöfinni, sérstaklega þar sem netverslunarfrumvarpið sem undirrituð lagði fram um jafnræði í netsölu áfengis fékk ekki framgöngu á árinu og liggur nú hjá ríkisstjórn.
Önnur mál sem réttmætt er að ígrunda vel en takmarka frelsi fólks eru hugmyndir um að banna bragðefni tóbaks. Á vorþingi lagði heilbrigðisráðherra fram frumvarp sem bannaði nikótínpúða með nammi- og ávaxtabragði, sem fékk vægast sagt hörð viðbrögð á þinginu um að þarna væri of langt seilst í að hefta valfrelsi fullorðins fólks í löglegri neysluvöru og var í kjölfarið breytt í meðförum þingsins. Rétt fyrir jólafrí kom svo annað mál frá heilbrigðisráðherra sem innleiðingarmál EES um bann á mentolbragði í tóbaki. Undirrituð gerði að umtalsefni við fyrstu umræðu að rök við slíku banni væru vægast sagt rýr og hæpið að setja bláan Capri í sama flokk og t.a.m. jarðarberjasígarettur sem væru vissulega eitthvað sem þyrfti að passa vel gagnvart börnum. Þetta verður vonandi tekið til endurskoðunar í meðförum nefndar.
Sjálfsákvörðunarréttur fólks í tæknifrjóvgunum
Mál sem stendur mér nærri um að afmá úreltar og óþarfar reglur sem tálma tækifærum fólks í erfiðum og sárum kringumstæðum í tæknifrjóvgunum fékk að komast í meðferð velferðarnefndar og er þar í vinnslu. Málið sýndi strax mikinn frelsisvilja þingheims þar sem fulltrúar allra flokka á þingi voru með mér á málinu og verður vonandi til þess að það verði samþykkt svo að sambúðarslit eða andlát maka eða nokkuð annað en vilji fólks ákveði hverjir geti sótt sér aðstoð tæknifrjóvgana.
Treystum fólki
Í sífelldum málamiðlunum lýðræðissamfélagsins er frelsisröddin nauðsynlegur þátttakandi og kom að miklu gagni við að hnika málum í frelsisátt á þingárinu.
Þetta skiptir nefnilega máli; að fólk sé almennt frjálst til athafna en boð og bönn komi til þegar þörf krefur. Það er mun æskilegra en að líf fólks sé takmarkað inn í ramma sem yfirvöldum þykir henta á hverjum tíma. Ég óska landsmönnum þess að þeir njóti gleðilegra hátíða – á hvern þann hátt sem þeir kjósa.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. desember 2022.