Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Þessa dagana höfum við heyrt af dæmum um svívirðilegar og óforsvaranlegar hækkanir leiguverðs. Þó að þau segi ekki alla söguna um markaðinn í heild koma svona dæmi illa við allt heiðvirt fólk.
Í stjórnmálasögu heimsins er þekkt að vilja bregðast við miklum hækkunum leiguverðs með að grípa til aðgerða sem eru vel meintar og hljóma vel, eins og til dæmis leiguþak hvers konar. Það er skiljanlegt að það sama eigi við um forystufólk samfélags okkar nú en slík inngrip hafa þó iðulega gert stöðuna enn verri fyrir þá sem síst skyldi og er ástæða til að varast.
Leiguþak hefur aukið á grunnvandann
Það er ekki mannvonska eða skeytingarleysi að gjalda varhug við slíkum inngripslausnum, heldur hefur reynslan af þeim einfaldlega verið slæm. Leiga undir markaðsverði hefur aukið á grunnvandann með sóun á húsnæði, verra viðhaldi og stöðvun nýbygginga. Leiguþak hefur búið til óeðlilega eftirspurn og dregið úr nauðsynlegu framboði. Verktakar hafa ekki byggt og eigendur ekki leigt húsnæði sem þeir fá ekki raunvirði fyrir til að nefna nokkrar algengar afleiðingar slíkra inngripa. Hagfræðingurinn Henry Hazlitt orðar það beinskeytt að hámarksleiga sé ekki einungis árangurslaus heldur valdi hún æ meiri skaða fyrir alla, og ekki síst fyrir hópinn sem átti upphaflega að hjálpa. Annar hagfræðingur, Assar Lindbeck, orðaði það enn snaggaralegar; að leiguþak sé skilvirkasta leiðin til að eyðileggja borgir, fyrir utan sprengjuárás.
Framboðsvandi sveitarfélaga þrýstir upp leiguverði
Innlendar aðgerðir og aðgerðaleysi síðustu ára hafa haft sín áhrif. Vinstristjórn eftirhrunsáranna tvöfaldaði skatt á leigutekjur sem þrýsti upp leiguverði sem markaðurinn þurfti að jafna sig á þó að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sneri þeirri þróun við með mikilli skattalækkun á leigutekjur. Heimagistingarbóla og framboðsvandi hefur svo þrengt stöðuna og þrýst upp leiguverði eins og gerist jafnan þegar eftirspurn er meiri en framboð.
Í þeirri stöðu er heillavænlegra að ríkisstjórn hugi að heildstæðum og raunverulegum lausnum með það fyrir augum að ýta undir uppbyggingu á fjölbreyttu íbúðarhúsnæði, styðja við kaupendur sem og leigjendur, þá sérstaklega þá sem veikast standa. Ríkisstjórnin hefur nú sýnt á spilin um sín plön um að stórefla húsnæðis- og vaxtabótakerfin sem er vel. Ríkisstjórnin er einnig að stuðla að auknu framboði af nýjum íbúðum á viðráðanlegu verði í samráði við sveitarfélög um allt land ásamt áframhaldandi uppbyggingu almennra íbúða. Þetta eru að aðgerðir sem munu skipta sköpum.
Það er ábyrgðarhluti allra sem starfa í stjórnmálum að tryggja húsnæðisöryggi í formi skilvirks og þar af leiðandi sanngjarns húsnæðismarkaðar. Það er líka ábyrgðarhluti að horfa þar til heildarlausna sem skila raunverulegum árangri en grípa ekki til hljómfagurra skyndilausna sem geta komið verst niður á þeim sem á mestri aðstoð þurfa að halda.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. desember 2022.