Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Einn helsti mælikvarðinn á lífsgæði hér á landi er aðgengi okkar að öflugu heilbrigðiskerfi. Við vitum þó öll að það er ýmislegt sem hægt er að gera betur til að bæta aðstöðu starfsfólks í kerfinu og gera þjónustuna enn betri en hún er í dag. Frekari útgjöld verða þó ekki til þess að leysa allan vanda, ekki fremur en þau hafa gert til þessa, heldur þurfum við að huga betur að því hvernig við nýtum fjármagnið. Auk þess þurfum við að finna nýjar leiðir til að bæta kerfið.
Matthías Leifsson, framkvæmdastjóri Leviosa, bendir á það í nýlegri blaðagrein að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn verja stórum hluta af vinnutíma sínum fyrir framan tölvuskjái. Ástæðan er sú að þeim ber að halda sjúkraskrá um sjúklinga, útbúa lyfseðla og rannsóknarbeiðnir, vinna úr niðurstöðum og skrá sjúkdómsgreiningar.
„Hvernig væri að búa strax til meiri tíma fyrir starfandi lækna til að sinna sjúklingum í stað þess að búa til fleiri lækna sem koma til starfa eftir áratug?“ spyr Matthías. Hann gagnrýnir núverandi kerfi sem varð til í gömlu tækniumhverfi og hvetur til þess að nýjar leiðir verði farnar á grundvelli nútímatækni til að stytta þennan mikla skjátíma og gefa læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki meiri tíma með sjúklingum. Þetta eru góðar ábendingar.
Í greiningu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey kemur fram að starfsfólki Landspítalans muni fjölga um 45% og rekstrarkostnaður aukast um 90% ef rekstur verður áfram með óbreyttu sniði til ársins 2040. Það stafar m.a. af væntum breytingum þar sem íbúum landsins fjölgar og þeir lifa lengur en fyrri kynslóðir. Á hinn bóginn sýnir greining McKinsey að ef brugðist verður við með nýsköpun og stafrænum lausnum, nýjum ferlum og hagræðingu muni aukin þjónusta leiða til 3% fjölgunar starfsfólks og um 30% hækkunar heildarkostnaðar.
Nýsköpun eykur gæði með hagkvæmum hætti. Það er ástæðan fyrir þeirri ákvörðun minni að kasta Fléttunni til nýsköpunarfyrirtækja, til að komast upp veggi heilbrigðiskerfisins. Fléttan veitir styrki til að auðvelda heilbrigðisstofnunum að innleiða nýjar lausnir; lausnir sem bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni. Öflugt rannsókna- og nýsköpunarumhverfi á sviði heilbrigðistækni og þjónustu er brýn aðgerð til að bregðast við þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir.
Áhuginn á Fléttunni lét ekki á sér standa, 59 umsóknir bárust þar sem 23 heilbrigðisstofnanir um allt land taka þátt. Vegna mikils áhuga verður 60 milljónum varið árlega næstu þrjú ár í Fléttuna. Ef vel tekst til getur hér verið á ferðinni mikilvægur liður í því að draga úr þeim gífurlega kostnaðarauka sem fylgja mun aukinni vinnuaflsþörf heilbrigðiskerfisins á næstu árum.
Hér er því til mikils að vinna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. desember 2022.