Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Við upplifum nú raunverulega ógnartíma þegar Rússland hefur enn á ný þverbrotið alþjóðalög og ráðist inn í Úkraínu. Nú sem aldrei fyrr er þörf á algjörri samstöðu lýðræðisríkja. Við verðum að mæta þessum aðgerðum samstíga og af fullum þunga. Það var góð tilfinning á að hlusta á forystumenn allra þingflokka lýsa yfir samstöðu með Úkraínu á Alþingi og yfir afdráttarlausri fordæmingu á aðgerðum Pútíns.
Það er mikilvægt að við þingmenn og stjórnvöld ræðum við þjóðina og höldum þessum sjónarmiðum á lofti. Smáþjóðirnar eiga allt undir því að brot á alþjóðalögum séu ekki liðin. Innrás í fullvalda evrópskt ríki er sameiginlegt viðfangsefni og verkefni okkar Evrópuþjóða. Skilaboðin eru ekki síður þau að við stöndum með Evrópuþjóðum sem hafa hallað sér að Vesturlöndum og að við styðjum við málstað þeirra með öllum tiltækum ráðum. En meir að segja hér á landi heyrast raddir um að fleygja samstöðunni við evrópsk ríki fyrir viðskiptahagsmuni. Það væri algjör afleikur fyrir smáríkið Ísland sem á allt sitt undir því að alþjóðalög séu virt af öðrum þjóðum.
Evrópa hefur sofnað á verðinum og þrátt fyrir ógnartilburði og árásargirni Rússlands undir stjórn Pútíns undanfarin ár hafa forystumenn í Evrópu verið andvaralausir og jafnvel aukið við viðskipta- og hagsmunatengsl við rússnesk stjórnvöld. Atburðarás liðinnar viku opnar vonandi augu þeirra fyrir því hversu hættulegt það er að álfan sé svo háð rússneskri orku og fyrir nauðsyn þess að snúa af þeirri braut. Staðan sýnir líka svart á hvítu mikilvægi þess að við séum í sterkasta varnarbandalagi heims.
Gerðir Pútíns í bland við söguskoðun hans gefa meir en fullt tilefni til að taka hótanir hans alvarlega. Í ár er aftur 1938 í Evrópu. Látum 1939 ekki endurtaka sig.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2022.