Leggur fram frumvarp um frjálsa netverslun með áfengi
'}}

Hildur Sverrisdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram frumvarp sem heimila mun frjálsa netverslun með áfengi á Íslandi.

Gildandi áfengislöggjöf heimilar í dag að Íslendingar geti keypt áfengi á netinu í gegnum erlend fyrirtæki en tryggir ekki að Íslendingar geti keypt áfengi á netinu af íslenskum fyrirtækjum. Frumvarpinu er ætlað að rétta þennan halla gagnvart íslenskum fyrirtækjum og tryggja jafnræði þegar kemur að sölu áfengis á netinu. Ekki er verið að auka framboð með þessari breytingu, einungis er verið að heimila íslenskum fyrirtækjum að selja áfengi á internetinu til jafns við þau erlendu.

„Ég vil með þessu frumvarpi jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar og undirstrika að lögmæti innlendra netverslun með áfengi. Þetta er einnig sjálfsagt skref í frelsisátt þegar kemur að verslun með áfengi, sem er lögleg neysluvara þó hún sé vissulega takmörkunum háð. Ég vona að löggjafanum beri gæfa til að aflétta þessum takmörkunum á atvinnufrelsi hér á landi,“ segir Hildur Sverrisdóttir.

Dæmi eru um að innlendir framleiðendur áfengis selji vörur sínar til erlendra vefverslana. Vörurnar eru svo seldar áfram til íslenskra neytenda í gegnum erlendu netverslunina. Þannig hefur varan verið flutt frá Íslandi í þeim eina tilgangi að senda hana aftur til landsins, með tilheyrandi kostnaði og losun gróðurhúsalofttegunda. Ljóst er að þetta fyrirkomulag felur í sér ójafnræði fyrir bæði íslenska áfengis-framleiðendur og innlenda verslun.

Frumvarpið er einnig landsbyggðarmál og tryggir jafnræði þeim til handa sem ekki geta eltst við útibúastefnu Vínbúðarinnar. Það snýst einnig um sjálfbærni hverfa í þéttbýli og er réttindamál fyrir öll þau sem eiga ekki heimangengt í verslanir almennt, t.d. vegna veikinda eða fötlunar og þurfa að reiða sig á netverslun.

Lagt er til í frumvarpinu að sömu almennu skilyrði verði sett fyrir netverslunarsöluleyfi og fyrir öðrum leyfum sem fjallað er um í áfengislögum. Verði frumvarpið að lögum munu einstaklingar og lögaðilar því almennt geta fengið slíkt leyfi hafi þeir náð tilskildum aldri og tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína. Þá munu sýslumenn annast leyfisveitingu en lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld munu annast eftirlit. Dómsmálaráðherra mun með reglugerð geta kveðið nánar á um slíka leyfisveitingu og eftirlit með leyfishöfum.

Í frumvarpinu eru einnig gerðar strangari kröfur til sönnunar þess að viðtakandi vörunnar hafi náð 20 ára aldri og geta brot á því skilyrði leitt til leyfissviptingar og/eða bakað þeim aðila refsiábyrgð sem stendur að sölu og/eða afhendingu vörunnar.

Frumvarpinu hefur verið dreift á Alþingi og má nálgast hér: https://www.althingi.is/altext/152/s/0474.html