Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:
Fyrir hálfum mánuði var undirritað Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Það er skilgreint sem uppfærð og endurbætt útgáfa þess Aðalskipulags sem staðfest var fyrir rúmum sjö árum. Í inngangi þess segir m.a.: „Ný meginmarkmið, stakar breytingar og aðrar viðbætur sem sett eru fram í Aðalskipulagi 2040, miða þannig allar að því að herða á framfylgd þeirrar stefnu sem mörkuð var í fyrra aðalskipulagi.“ Enn fremur segir: „Með tillögunum er sýnt fram á að þau landsvæði sem við höfum tekið frá undir íbúðabyggð, atvinnusvæði og samgöngumannvirki í aðalskipulagi undanfarna áratugi, geta dugað okkur til ársins 2040 og sennilega mun lengur.“
Grá en ekki græn framtíð
Stefnan er því skýr: Borgin á að vera borg og ekkert annað. Hún á að vera að öllu leyti manngerð, þar sem ekkert má minna á ósnortna náttúru. Hún á að verða steinsteypugrá fyrir járnum, með íbúðahverfum meðfram helstu samgönguæðum, enn þrengri byggð, enn hærri byggingum, mjög skertum gróðri í einstaka blómapottum, færri sólarstundum, lengri skuggum og sífellt skertari opnum svæðum. Auk þess er viðbúið að gengið verði með enn meiri hörku á útivistarrými, opin svæði og ýmsar náttúruperlur innan núverandi byggðasvæða, svo sem Laugardalinn, Elliðaárdalinn og ósnortar fjörur, með landfyllingum.
Þetta er athyglisverð þráhyggja þegar haft er í huga að þéttingaráformin hafa yfirleitt farið illa af stað og lofa ekki góðu. Skipulagsyfirvöld standa nú í stappi og illdeilum við borgarbúa í flestum þeim grónu hverfum þar sem byggðaþétting er á döfinni á allra næstu misserum. Sú tíð er því senn á enda að borgarstjóri geti prédikað sleitulaust um sína góðu baráttu fyrir lýðheilsu og lífsgæðum borgarbúa. Hann er þvert á móti á góðri leið með að verða helsti andstæðingur lýðheilsu og lífgæða Reykvíkinga með þeirri ofþéttingarstefnu sem nú hefur enn verið hert á.
Illa þokkuð þétting
Nýlega voru skipulagsyfirvöld gerð afturreka með áform um fjölda blokka meðfram Bústaðavegi og skorti þar ekkert á málefnanlega og faglega gagnrýni íbúanna. Íbúar við Háaleitis- og Miklubraut eru einnig andvígir þéttingaráformum sem kveða á um a.m.k. 27 blokkir á þeim slóðum, þótt skipulagsyfirvöld þráist þar enn við, í trássi við meirihluta íbúanna, samkvæmt skoðanakönnun. Á fundi með íbúum Bústaða- og Fossvogshverfis lét borgarstjóri hafa eftir sér þá fáheyrðu athugasemd að blokkirnar meðfram Bústaðavegi yrðu fyrirtaks-mön fyrir hávaða- og loftmengun. Hætt er við að lítið fari fyrir lýðheilsu og lífsgæðum þeirra sem búa eiga í slíkum mengunarvörnum.
Bannað að opna glugga
Samþykkt hefur verið 4.000 manna byggð í framhaldi af Skerjafirði, án þess að Skerfirðingar fengju nokkuð um það að segja. Nýja byggðin verður inni á núverandi flugvallarsvæði þar sem jarðvegur er afar olíumengaður. Enn er allt í óvissu um hvort, eða þá hvernig, hægt verði að hreinsa þann jarðveg eins og lög gera ráð fyrir. Þessi byggð mun liggja svo nærri flugbraut að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur telur að íbúðir næst flugbraut nái ekki lágmarksskilyrðum hljóðvistar og verði því að vera án opnanlegra glugga. Því skilyrði verði þá að þinglýsa á þær fasteignir. Hér er enn verið að stuðla að ofþéttingu byggðar í andstöðu við lýðheilsu og lífsgæði.
Gagnrýni fræðimanna
Ýmsir fræðimenn á sviði byggingarlistar, skipulagsfræða, verkfræði og fleiri fræðigreina sem koma að skipulagi umhverfismótunar hafa skilað inn athugasemdum, ábendingum og gagnrýni á þetta aðalskipulag. Þar er yfirleitt teflt fram mikilvægi lýðheilsu og lífsgæða, gegn þeirri ofþéttingu sem hér ögrar þeim gildum. Yfirvöld eru m.a. eindregið hvött til að endurskoða þéttingaráformin. Bent er á að hverfi með of miklum þéttleika einkennist oft, samkvæmt erlendum rannsóknum, af meiri félagslegri einangrun, loftmengun og hávaða. Gagnrýnd er sú meginstefna að skipuleggja íbúðabyggð þétt við helstu umferðaræðar sem vafalaust muni raska mjög svefnfriði íbúanna. Gagnrýnd er leyfileg mikil hækkun íbúðahúsa sem dregur mjög úr sólarljósi inn í íbúðir og nærumhverfi þeirra og gagnrýnd er aðför að gróðri og opnum útivistarsvæðum, svo eitthvað sé nefnt.
Í stað þess að læra af mistökum sínum og hlusta á góðra manna ráð, herða borgaryfirvöld tökin. Það er háttur þeirra sem engu hafa gleymt – og ekkert lært.
Morgunblaðið 27. janúar 2022.