Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Á þeim tæpu tveimur árum sem kórónuveirufaraldurinn hefur geisað hér á landi hafa stjórnvöld gripið til margs konar sóttvarnaráðstafana með það fyrir augum að stemma stigu við veirunni og lágmarka þann skaða sem hún óhjákvæmilega hefur í för með sér.
Þær aðstæður sem uppi hafa verið síðastliðin tvö ár hafa kallað á skjót viðbrögð stjórnvalda og hafa þau af brýnni nauðsyn gripið til aðgerða sem óhjákvæmilega skerða réttindi borgaranna að einhverju leyti, mismikið þó. Flestar þessar aðgerðir hafa óneitanlega verið áhrifaríkar og gert það að verkum að Ísland hefur komið mjög vel út úr kórónuveirufaraldrinum samanborið við önnur lönd. Stjórnvöld, stofnanir og samfélagið hafa staðist þessa árás. En ekki án kostnaðar. Mikil samstaða ríkti í íslensku samfélagi á fyrstu mánuðunum en óhætt er að segja að eftir því sem liðið hefur á hafi samstaðan minnkað enda ljóst að þær ráðstafanir sem beitt hefur verið bitna mishart á fólki og fyrirtækjum.
Það er því eðlilegt að þjóðkjörnir fulltrúar komi í meira mæli að umræðu og ákvörðunum er varða sóttvarnir þegar um langtímatakmarkanir er að ræða. Það er með öllu óeðlilegt að til lengri tíma sé með reglugerðum hægt að skerða mannréttindi og frelsi fólks án þess að lýðræðislega kjörið þing fái tækifæri til að fjalla um þær skerðingar.
Í Noregi eru fyrirhugaðar sóttvarnaráðstafanir lagðar fyrir þingið og nægir að þriðjungur þingmanna leggist gegn sóttvarnareglum til að koma í veg fyrir gildistöku þeirra. Í Danmörku eru sóttvarnaráðstafanir lagðar fyrir þingnefnd og þarf meirihluti nefndarinnar að samþykkja tillögur ráðherra um aðgerðir svo þær taki gildi. Í Bretlandi er sá háttur hafður á að kórónuveirulög landsins eru ávallt sett tímabundið og endurskoðuð af þinginu reglulega.
Ég hef ítrekað kallað eftir aðkomu þingsins, bæði í umræðu um sóttvarnalögin á sínum tíma og svo í umræðum við heilbrigðisráðherra, bæði fyrrverandi og núverandi, í þinginu. En nú hef ég ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins lagt fram frumvarp sem tryggir þessa aðkomu. Samkvæmt frumvarpinu yrði ráðherra að kynna fyrirhugaðar sóttvarnareglur fyrir velferðarnefnd áður en þær taka gildi, en auk þess þyrfti ráðherra að senda Alþingi skýrslu svo fljótt sem auðið yrði með rökstuðningi öðlist þær reglur gildi.
Þrátt fyrir að sóttvarnaaðgerðir þurfi vissulega ávallt að vera byggðar á læknisfræðilegu mati og slík sjónarmið vegi óneitanlega þungt þá eru engu að síður önnur atriði sem huga þarf að þegar reglur sem fela í sér miklar langtímafrelsisskerðingar eru settar. Slíkar skerðingar hafa óhjákvæmilega í för með sér margvíslegar félags- og efnahagslegar afleiðingar sem nauðsynlegt er að líta til þegar ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir eru teknar. Breytt fyrirkomulag gefur þingmönnum tækifæri til að koma að umræðu um málið við ákvarðanatöku og ráðherra tækifæri til að tryggja pólitískan stuðning við fyrirhugaðar aðgerðir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2022.