Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:
Loftslagsmál eru orðin miðlæg í umræðu stjórnmálanna jafnt á Íslandi sem á alþjóðavísu. Hlýnun lofthjúpsins umfram þau mörk sem voru sett í Parísarsamningnum myndi raska vistkerfi jarðar og efnahagi og samfélagi manna. Það er því til mikils vinnandi að halda hlýnun innan við 2 gráður á Celsíus og helst innan við 1,5 gráður.
Ríkisstjórnin hefur kynnt ný og metnaðarfull markmið um minnkun losunar nú á nýju kjörtímabili. Losun á að minnka um 55% fyrir árið 2030 miðað við 2005. Ísland á að vera orðið kolefnishlutlaust árið 2040, sem þýðir að losun verði þá minni en upptaka koldíoxíðs úr andrúmsloftinu. Markmiðin eru studd af yfirgripsmikilli aðgerðaáætlun og stórauknum framlögum til loftslagsmála. Á nýju kjörtímabili er ætlunin að gera enn betur. Það verður ekki létt verk, en ég geng glaður til þess sem nýr ráðherra loftslagsmála.
Loftslagsvandanum hefur verið lýst sem flóknasta viðfangsefni sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Losun gróðurhúsalofttegunda er samofin hagkerfinu og daglegu lífi okkar. Bruni jarðefnaeldsneytis er stærsta einstaka uppspretta losunar á heimsvísu. Kol og olía hafa verið aflgjafi iðnvæðingar og bættra lífskjara, en nú þarf að byggja á orkusparnaði og endurnýjanlegum orkulindum. Það fer því vel á því að sameina loftslags- og orkumál í einu ráðuneyti á Íslandi, eins og mörg önnur ríki hafa gert. Ég tel að þar liggi tækifæri til að ná árangri í loftslagsmálum og jafnframt til uppbyggingar og nýsköpunar.
Norræn fyrirtæki sjá tækifæri í loftslagslausnum
Nú fyrir skömmu ávarpaði ég viðburð þar sem kynnt var ný skýrsla um þátt atvinnulífsins í loftslagsmálum á Norðurlöndunum. Skýrslan var byggð á viðtölum við forstjóra 40 fyrirtækja á Norðurlöndunum, sem mörg eru umsvifamikil á heimsvísu og leiðandi á sínu sviði. Samhljómur var meðal okkar ráðherra Norðurlandanna um að frumkvæði fyrirtækja og góð samvinna stjórnvalda og atvinnulífs væri lykill að árangri.
Forstjórarnir voru sammála um að loftslagsváin væri aðkallandi og að loftslagsbreytingar skiptu fyrirtækin máli — vegna ábyrgðar þeirra, ímyndar og þátttöku í samfélaginu. Nokkrir nefndu sérstaklega að þeir sæju tækifæri í stöðunni. Hvernig má það vera að „tækifæri“ séu tengd við hnattræna ógn? Svarið er að sjálfsögðu að tækifærin liggja ekki í ógninni, heldur í lausnunum sem hún kallar á. Stjórnvöld þurfa að setja kúrsinn og þau hafa ýmis ráð til að bregðast við loftslagsvánni. Ríkisvaldið eitt nær hins vegar takmörkuðum árangri. Við þurfum að virkja þann drifkraft og mannvit sem býr í fyrirtækjum.
Norðurlöndin standa framarlega á mörgum sviðum loftslagsvænnar tækni og lausna. Dæmin eru mörg en t.d. má nefna leiðandi stöðu danskra fyrirtækja í nýtingu vindorku. Norræn fyrirtæki telja sig geta hjálpað stjórnvöldum að ná markmiðum heima fyrir, en einnig hugsa þau flest á heimsvísu: Vandinn er hnattrænn og markaður fyrir loftslagsvænar lausnir er alþjóðlegur. Það er mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að kynna sér sýn fyrirtækja í loftslagsmálum og vinna með þeim.
Ísland getur verið leiðandi í hreinum orkuskiptum
„Ísland — best í heimi!“ var slagorð í vinsælum auglýsingum, sem oft er gripið til þegar menn vilja gera góðlátlegt grín að kappsfullu þjóðarstolti. Ekki ætla ég að halda því fram að Ísland sé best í heimi í loftslagsmálum. Við getum gert betur og lært af öðrum, ekki síst af hinum Norðurlandaþjóðunum. Engu að síður er það staðreynd að á sviði hreinnar orku hafa fáar þjóðir náð jafn langt og Íslendingar. Endurnýjanlegar orkulindir sjá okkur fyrir nær allri raforku og húshitun, sem er einstök staða. Vissulega eigum við gnótt af jarðvarma og vatnsföllum, en við hefðum ekki náð þessum árangri nema fyrir hugvit og elju sérfræðinga, stofnana og fyrirtækja. Það ber að þakka og á því þarf að byggja.
Því má raunar halda fram með rökum að ekkert framlag Íslendinga til lausnar loftslagsvandanum vegi þyngra en nýting hreinnar orku og útflutningur þekkingar á því sviði, auk þátttöku í verkefnum erlendis á sviði jarðhita og á skyldum sviðum. Það er ekki auðvelt að kasta tölu á loftslagsávinninginn af því starfi, en hann er ærinn. Þarna eigum við Íslendingar mikla sérstöðu og mörg sóknarfæri.
Íslenskt atvinnulíf er ekki eftirbátur í norrænu samhengi þegar kemur að loftslagsmálum. Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda sem vinnur að orkuskiptum og grænum lausnum. Ísland hefur að mörgu leyti góða ímynd í loftslagsmálum á heimsvísu, sem getur nýst bæði landinu og atvinnulífinu — en það þarf áfram að vera innistæða fyrir ímyndinni og hún fæst ekki nema með elju og sameiginlegu átaki. Ég hef trú á mætti einkaframtaksins og krafti atvinnulífsins í þessu verkefni eins og mörgum öðrum. Við eigum að setja markið hátt — jafnvel að Ísland verði „best í heimi“ og nái hreinum orkuskiptum til fulls á undan öðrum. Það mun ekki nást með stjórnvaldsfyrirmælum einum. Ég vil efla samtal stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum og er sannfærður um að það sé farsæl leið til að ná okkar metnaðarfullu markmiðum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. janúar 2022.