Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
„Við erum að klára tvö ár af tímabili þar sem við tókum ákveðin borgaraleg réttindi að láni og við ætlum að skila þeim aftur og það er alveg allt í lagi að spyrja hvenær sá tími er kominn.“
Þessi orð bera ekki með sér að sú er lét þau falla sé með öfgafullar skoðanir heldur þvert á móti. Ég er sannfærður um að ummælin endurspegli ágætlega hugsun yfirgnæfandi meiri hluta íslensku þjóðarinnar. Engu að síður virðast þau hafa komið illa við einhverja og einn þekktasti læknir landsins sá sig knúinn til að skrifa langt mál á vefmiðil til að veitast harkalega að þeim sem leyfði sér að segja það upphátt sem flestir hugsa (ég vona það að minnsta kosti).
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur vanið sig á að koma hreint til dyranna. Eftir ríkisstjórnarfund síðasta föstudag, þar sem ákveðið var að herða samkomutakmarkanir enn frekar, svaraði Þórdís Kolbrún fréttamanni Ríkisútvarpsins með eftirfarandi hætti:
„Ég skil vel verkefni heilbrigðisráðherra sem er erfitt og mikil ábyrgð sem því fylgir og þegar hann fær meldingar um að spítalinn ráði ekki við verkefnið þá er mikill ábyrgðarhluti að bregðast við því þannig að ég reyni hvað ég get til að hafa skilning á því en bið líka um skilning á því að það er eðlilegt að spyrja spurninga. Við erum að klára tvö ár af tímabili þar sem við tókum ákveðin borgaraleg réttindi að láni og við ætlum að skila þeim aftur og það er alveg allt í lagi að spyrja hvenær sá tími er kominn.“
Stjórnmálakonur gagnrýndar
Ummælin fóru illa í Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlækni á Landspítalanum, sem fann sig enn og aftur knúinn til að gagnrýna þær stjórnmálakonur sem telja nauðsynlegt að leita svara við áleitnum spurningum. Í pistli á Vísi segir Tómas að við þær aðstæður „sem nú ríkja á Landspítala eru orð utanríkisráðherra... illa ígrunduð og tímasetningin óheppileg“. Hann segist geta fullvissað ráðherrann um að tíminn til að skila aftur borgaralegum réttindum sé ekki kominn. Hann svarar hins vegar í engu hvenær eða við hvaða aðstæður slíkt sé tímabært.
Látum vera að Tómas Guðbjartsson líti fram hjá því að spár um innlagnir vegna Covid hafa ekki gengið eftir – innlagnir eru töluvert færri en spár sem sagðar voru byggðar á bjartsýni. Og látum það einnig vera að læknirinn gerir ekkert með að ómíkron-afbrigðið, sem nú hefur tekið yfir í smitum, er vægara og svipar fremur til hefðbundinnar flensu en hættulegrar farsóttar. En það er ábyrgðarhluti að beita penna til að kynda undir hræðslu samferðafólks í stað þess að auka tiltrú og traust á gott heilbrigðiskerfi. Því miður hafa of margir læknar sem ég hef mætur á fallið í þessa gryfju með svipuðum hætti og fjölmiðlungar.
En hversu illa ígrunduð voru ummæli utanríkisráðherra og hversu óheppileg var tímasetningin? Ja, stjórnmálamenn (og raunar læknar einnig) hafa að minnsta kosti oft verið óheppnari með tímasetningar. Nokkrum dögum áður var greint frá því að Carolina Darias, heilbrigðisráðherra Spánar, hefði lýst því yfir að þörf væri á nýjum viðmiðunum við skimanir í ljósi bólusetningar og að ómíkron-afbrigðið sé vægara en fyrri afbrigði. Ráðherrann vill að Covid verði nú skilgreint með sama hætti og alvarleg flensa en ekki hættulegur faraldur. Heilbrigðiskerfið takist á við verkefnið út frá þeim forsendum.
Sama dag og Tómas taldi ástæðu til að skamma ráðherra fyrir að spyrja spurninga skrifar Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum og fyrrverandi yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítala, pistil á fésbókarsíðu sína um hertar sóttvarnaaðgerðir: „Þær takmarkanir sem lagðar eru á munu ólíklega skila tilætluðum árangri, enda er faraldurinn mestur meðal barna, unglinga og ungra fullorðinna í menntaskóla og háskóla. Og líklega mun útbreiddari en við höldum.“
Ragnar Freyr bendir á að með ómíkron-afbrigðinu hafi allt gjörbreyst og Covid sé gjörólíkur „sjúkdómur þeim sem við þekktum bara fyrir nokkrum vikum“. Mun fleiri smitast, en mun færri leggjast inn á sjúkrahús og sárafáir enda á gjörgæslu. Innlagnartíðni vegna ómíkron á Íslandi sé lægri en í Danmörku og margfalt lægri en af delta-afbrigði veirunnar. „Og þetta er ekki bara tilfinning, þetta er stutt af rannsóknum,“ skrifar Ragnar Freyr. Er nema von að Ragnar Freyr spyrji: „Ættu viðbrögð okkar að breytast?“ Kannski finnst einhverjum slík spurning óviðeigandi og ótímabær!
Í ljósi breyttra aðstæðna eru mörg lönd farin að huga að breyttum viðbrögðum og reglum; endurskoða vinnubrögð um skimanir, sóttkví, einangrun, almennar takmarkanir, persónulegar sóttvarnir og skipulag heilbrigðisþjónustu. Ragnar Freyr telur tímabært að við Íslendingar gerum það sama. Að „þessu sinni erum við á leið út af sporinu“ en mikilvægt sé „að við komum okkur á rétta braut fyrr en seinna“.
Áminning um borgaraleg réttindi
Í mörgu hefur okkur Íslendingum tekist vel upp í baráttunni við skæða veiru. Þar hefur víðtæk bólusetning þjóðarinnar skipt miklu og traust heilbrigðisþjónusta sem þrátt fyrir gríðarlegt álag hefur staðist þunga ágjöf – þökk sé þrautseigju og hæfileikaríku starfsfólki. Styrkleiki heilbrigðiskerfisins hefur komið vel í ljós við erfiðar aðstæður en um leið höfum við náð að átta okkur betur á ýmsum veikleikum. Skipulag Landspítalans er veikburða og þar eru brotalamir, fjármögnunarlíkan spítalans er úr sér gengið en unnið er að því að innleiða að fullu DRG-kerfi, sem á að gjörbreyta stöðunni. Hlutverk spítalans hefur verið illa skilgreint og hann tekið að sér alltof mörg verkefni sem aðrir geta sinnt með skilvirkari og betri hætti. Það hefur illa tekist að samþætta starfsemi allra aðila á sviði heilbrigðisþjónustu – sjálfstætt starfandi og opinberra. Verst er þó hve neikvætt andrúmsloft hefur oft fengið að myndast í kringum starfsemi Landspítalans og það hefur orðið til þess að það mikla og góða starf sem þar er unnið á hverjum degi vekur litla eða enga athygli.
Það er mikilvægt að áhrifamiklir og reyndir læknar, hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk taki þátt í opinberri umræðu um skipulag heilbrigðiskerfisins og þá ekki síður um það hvernig best sé að standa að rekstri mikilvægustu stofnunar okkar – Landspítalans. Alveg með sama hætti og mikilvægt er að til verði hreinskiptin, gagnrýnin og opin umræða um aðgerðir stjórnvalda í sóttvarnaaðgerðum. Þegar stjórnvöld telja nauðsynlegt að skerða borgaraleg réttindi er það skylda allra að spyrja spurninga – spyrna við fótum. Sú skylda hvílir þyngra á stjórnmálamönnum en öðrum, en undan henni geta hvorki fjölmiðlar né læknar vikið sér.
Eitt er víst. Umræða skilar engu ef spurningar eru ekki leyfðar en skætingur og hræðsluáróður eru vopn þeirra sem af einhverjum ástæðum vilja ekki að almenningur sé minntur á nauðsyn þess að endurheimta borgaraleg réttindi. Slík áminning verður aldrei illa ígrunduð eða ótímabær.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2022.