Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Stundum er líkt og kjörnir fulltrúar geti ekki farið af stað í breytingar nema þær séu stórkostlegar og yfirtrompi allt sem þegar hefur verið gert. Þangað til er einfaldlega sem minnst gert. Við íslendingar erum best í heimi í svo ótrúlega mörgu og setjum markið alltaf hátt, það á oft líka við um hugmyndir sem kjörnir fulltrúar fá þegar kemur að breytingum. Sumir bera okkur gjarnan saman við borgir og lönd sem hafa margfaldan þann íbúafjölda sem hér er. Í stað þess að hampa okkar sérstöðu þá vilja þessir aðilar að við verðum eins og allar aðrar borgir. Við sem smáþjóð eigum ekki að vera með minnimáttarkennd yfir því hvað önnur lönd hafa afrekað. Við megum ekki gleyma því að okkar sérstaða er líka eftirsóknarverð.
Græn svæði eru væn svæði
Það eru lífsgæði að búa í borg og hafa aðgengi að fallegum grænum svæðum, hvort sem þau eru nánast ósnert eða mannanna verk. Við verðum að gæta að þeim líffræðilega fjölbreytileika sem er í Reykjavík. Það er okkar að afhenda borgina komandi kynslóðum svo þær geti notið þeirra forréttinda að búa í höfuðborg sem státar af fallegum grænum svæðum sem eru aðgengileg fyrir alla. Lífsgæði okkar eru ekki mæld í því hversu þétt við byggjum. Við verðum að vanda alla þéttingu og huga jafnframt að því hvort að innviðir þoli þéttinguna. Ef þeir gera það ekki þá ættum við að staldra við og vinna frekar nýtt byggingaland en gæta þess þó að hafa nálægð við náttúruna og græn svæði. Þétting byggðar er viðkvæm og þegar verið er að skipuleggja þéttingu í grónum hverfum verðum við að stíga varlega til jarðar til þess að skerða ekki lífskjör þeirra sem búa í hverfunum með of mikilli þéttingu. Það eru litlu hlutirnir sem geta skipt okkur miklu máli, hlutir sem skipta miklu máli t.d. fyrir umhverfið. Líkt og að auka götuþrif, þó svo margir þættir spili inn í t.d. svifryksmengun þá eru götuþrif ákveðin forvörn, einfalt og auðvelt mál sem bætir loftgæði borgarbúa.
Gerum betur í sorphirðu
Því miður hefur Reykjavíkurborg dregist aftur úr öðrum sveitarfélögum þegar kemur að sorphirðu, þar verðum við að gera mun betur. Ef sveitarfélagið Múlaþing þar sem íbúafjöldi er rúmlega fimm þúsund getur afhent öllum íbúum í þéttbýli þrjár tunnur; eina gráa fyrir almennan úrgang, aðra græna fyrir flokkaðan úrgang og eina brúna fyrir lífrænan úrgang þá er ótrúlegt að höfuðborg Íslands geti það ekki. Þessu þarf að bæta úr strax. Fjöldi sveitarfélaga er að standa sig mun betur og því auðvelt að leita ráða og hrinda þessu í framkvæmd. Því miður virðist öll orka og miklir fjármunir á þessu kjörtímabili hafa farið í nýja gas og jarðgerðarstöð, Gaja sem átti að vera stórkostleg breyting, en breyttist í sorgarsögu sem flestir þekkja orðið þar sem fjármunum hefur verið illa varið í verkefni sem átti að leysa vanda en gerði það ekki.
Gerum betur, það er auðvelt og þarf ekki að kosta okkur mikið ef við horfum bæði á lítil og stór verkefni, hlustum á íbúa Reykjavíkur því hér á okkur öllum að líða vel.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. janúar 2022.