Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum fyrir helgi að grípa til sérstakra aðgerða til að mæta vanda fyrirtækja í veitingaþjónustu, sem hafa orðið fyrir miklum búsifjum í yfirstandandi bylgju heimsfaraldursins. Fyrir Alþingi verður lagt frumvarp sem heimilar fyrirtækjum í tilteknum flokkum veitingaþjónustu, sem hafa orðið að sæta takmörkunum á opnunartíma, að fresta staðgreiðslu skatta og greiðslu tryggingagjalds. Auk þess verður umsóknarfrestur vegna almennra viðspyrnustyrkja fyrir nóvember 2021 framlengdur. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
„Við mörkuðum þá stefnu strax í upphafi að styðja við þá sem verða fyrir verulegu tjóni vegna faraldursins og sóttvarnartakmarkana. Þeirri stefnu munum við áfram fylgja eins lengi og þarf. Fyrirhugaðar stuðningsaðgerðir miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Í fréttinni segir jafnframt að unnið sé að frumvarpi um sérstakan veitingastyrk sem sömu fyrirtækjum stendur til boða vegna minni tekna frá desember 2021 út mars 2022 og framlengingu lokunarstyrkja í ljósi hertra takmarkana. Auk þess verður horft til þess hvar þörf er fyrir stuðning á öðrum sviðum vegna takmarkana næstu vikur.