Allir vinna
'}}

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Í upphafi heimsfaraldurs veirunnar einsettu stjórnvöld sér að verja fólk og fyrirtæki í landinu eins og framast væri unnt og ákváðu að láta ríkissjóð taka á sig þung högg og byrðar í þeim tilgangi. Enginn sá þá fyrir að ástandið myndi vara í tvö ár, hvað þá lengur.

Ríkisstjórnin lagði fram hverja aðgerðaáætlunina á fætur annarri með ýmsum úrræðum. Þegar nú er litið um öxl blasir ekki annað við en að rétt hafi verið brugðist við og aðgerðirnar skilað árangri. Meðal annars var ákveðið að hækka tímabundið endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði úr 60% í 100%.

Stofnað var til átaksins „Allir vinna“ í kjölfar bankahrunsins 2008 til að stuðla að því að halda mannvirkjageiranum starfandi og hvetja um leið fyrirtæki, sveitarfélög og almenning til að ráðast í framkvæmdir. Þetta skilaði tilætluðum árangri en áhrifin urðu í reynd víðtækari en marga grunaði.

Átakið hvatti vissulega til framkvæmda og skapaði atvinnu en svo jukust líka skattskil í byggingariðnaði. Allir vinna-átakið virkaði með öðrum sem hvati til eðlilegra, samningsbundinna viðskipta og þar með naut ríkissjóður góðs af tryggingagjaldi, launatengdum gjöldum og virðisaukaskatti af seldum vörum sem ella hefðu ekki skilað sér nema að hluta.

Heiti átaksins „Allir vinna“ fékk því enn dýpri merkingu þegar við blasti að það skilaði líka árangri í baráttu við svarta atvinnustarfsemi. Það var bónusvinningur verkefnisins.

Því miður er það jafnan svo að byggingariðnaðurinn finnur mjög fyrir því þegar á móti blæs í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Í versta falli eru höggin þung og fyrirvaralaus eins og gerðist í bankahruninu. Þakkarvert er að niðursveifla vegna Covid-faraldursins bitnar minna á byggingariðnaði en oft áður. Víst má telja að átakinu Allir vinna sé þar meðal annars fyrir að þakka.

Því er ánægjulegt að Alþingi samþykkti núna milli jóla og nýárs að framlengja til loka ágúst 2022 þann hluta Allir vinna-átaksins er varðar 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað við nýbyggingar, viðhald og endurbætur iðnaðarhúsnæðis. Frá og með 1. september miðast endurgreiðslan við 60%.

Gildi átaksins er óbreytt. Það hvetur til framkvæmda og skapar störf á tímum þegar stórar og smáar byggingar þurfa viðhald og áform um mörg stór mannvirki hafa verið slegið út af borðinu, meðal annars hótelbyggingar.

Allir vinna þegar upp er staðið!

Morgunblaðið 8. janúar 2022.

Close menu