Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Stafræn umbreyting stendur nú yfir hjá Reykjavíkurborg og ekki er vanþörf á. Víða má gera mun betur í borgarkerfinu þegar kemur að því að umbreyta því stafræna umhverfi sem borgin rekur. Þegar hefur verið ákveðið að verja 10 milljörðum í þessa stafrænu umbreytingu. Stór upphæð af peningum borgarbúa. Það sem ég hef spurt mig er: Hvað fáum við fyrir þessa 10 milljarða? Hvar verður byrjað? Hvernig var þessi tala, 10 milljarðar, ákveðin? Fór fram ítarleg þarfagreining og notendarannsóknir á öllum kerfum borgarinnar? Allt spurningar sem ég hef ekki fengið svör við úr borgarkerfinu.
Eitt af þeim verkefnum sem hefur verið ráðist í er nýtt kerfi þar sem sótt er um fjárhagsaðstoð. Vissulega var þörf á því að endurnýja kerfið þar sem ekki var hægt að sækja um fjárhagsaðstoð rafrænt. Því var full þörf á því að gera ferlið rafrænt til þæginda fyrir umsækjendur og til þess að starfsfólk væri ekki að slá handvirkt inn í kerfi borgarinnar upplýsingar sem komu inn á blaði.
Nýtt fjárhagsumsóknarkerfi hefur nú verið tekið í notkun og því verið hampað víða sem byltingarkenndu. Þar sem kostnaður við kerfið var yfir 100 milljónir lék mér forvitni á að vita hvernig virkni kerfisins er. Því hefur nú verið svarað. Fyrir þessar 100 milljónir var gert form sem býr til pdf-skjal sem sendist sjálfvirkt á netfang og þar tekur starfsmaður við og slær inn upplýsingar úr pdf-skjalinu í önnur kerfi borgarinnar. Eini munurinn í ferlinu er að upplýsingar koma núna í pdf-skjali en ekki á útprentaðri umsókn.
Ef fyrsta skrefið í þeirri vinnu að koma fjárhagsumsóknarferlinu á stafrænt form kostaði okkur yfir 100 milljónir, hvað mun þá kerfið kosta okkur þegar það verður með þeim hætti að starfsmenn þurfa ekki að slá inn allar upplýsingar?
Það er undarlegt að hér virðist hafa verið lagt af stað í risastóran leiðangur án þess að vita nákvæmlega hver útkoman verður, ekki er vitað hverju þessir 10 milljarðar eiga að skila öðru en umbreytingu. Ef við fáum pdf-skjal fyrir 100 milljónir þá munu þessir 10 milljarðar ekki koma okkur langt.
Morgunblaðið 6. janúar 2022.