Heil­brigðis­vanda­málið fíkni­sjúk­dómar
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Um þessar mundir er fjárlagafrumvarp ársins 2022 til umræðu á Alþingi. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, sendu inn umsögn um frumvarpið þar sem þau lýstu yfir miklum áhyggjum af framlögum til sín. Að mati samtakanna er fólki með fíknisjúkdóma ekki tryggð nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, en stór hluti rekstrar SÁÁ er greiddur með söfnunarfé. Vegna takmarkana sem ríkið hefur beitt til að vernda líf og heilsu fólks gagnvart Covid-19 hefur SÁÁ ekki getað treyst á fjáraflanir. Það leiddi til þess að 455 færri innlagnir en ella urðu á árinu 2020 . Þeir sjúklingar urðu margir hverjir af lífsbjargandi meðferð.

Í umsögn SÁÁ kemur fram að um 600 manns bíði eftir því að komast í meðferð á sjúkrahúsið Vog. Á meðan sjúklingarnir bíði, versni vandinn og fjölskyldur þeirra líði kvalir. Biðin valdi ótímabærum dauðsföllum og þjáningum. Samtökin lýsa yfir sérstökum áhyggjum af fjárskorti til meðferða við ópíóíðafíkn, en vandinn vegna misnotkunar ópíóíða er vaxandi og dauðsföllum vegna ofskömmtunar fer fjölgandi.

Það er því ánægjulegt að meirihluti fjárlaganefndar hafi komið til móts við athugasemdir SÁÁ með tillögu um 120 m.kr. viðbótarframlag. Sömuleiðis gerir meirihlutinn tillögu um 48 m.kr. framlag til reksturs Hlaðgerðarkots og um 30 m. kr. framlag til að vinna gegn fíknisjúkdómum sem lagt er til að heilbrigðisráðuneytið nýti til samningagerðar við frjáls félagasamtök sem hafa að markmiði að vinna gegn fíknisjúkdómum.

En betur má ef duga skal. Það hefur orðið mikilvæg viðhorfsbreyting í samfélaginu í þá átt að fíknisjúkdómar eigi að vera meðhöndlaðir sem slíkir innan heilbrigðiskerfisins. Það þekkjum við aðstandendur fíkniefnaneytenda af eigin raun, en við vitum að forvarnir og meðhöndlun fíknisjúkdóma er besta leiðin til að draga úr vandanum. Ef ætlunin er að hjálpa fíkniefnaneytendum þá eigum við að gera einmitt það. Það á að vera algjört forgangsmál að efla og auka skilvirkar forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði.

Greinin birtist á visir.is 22. desember 2021.

Close menu