Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:
Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gagnvart konum og markar hann upphaf sextán daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 10. desember. Í tilefni átaksins eru byggingar víðsvegar um heiminn lýstar upp með appelsínugulum lit að kvöldi 25. nóvember sem er táknræn aðgerð fyrir bjarta framtíð kvenna án ofbeldis.
Samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar verður ein af hverjum þremur konum fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Kynbundið ofbeldi er því eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum og fyrirfinnst á öllum sviðum samfélagsins.
Heimsfaraldur heimilisofbeldis
Heimsfaraldur Covid-19 hefur haft í för með sér verulega aukningu á ofbeldi gegn konum um heim allan. Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin eru dæmi um að tilkynningar um heimilisofbeldi hafi aukist um allt að 80 prósent í sumum löndum.
Sterk staða Íslands á sviði jafnréttismála í alþjóðlegu samhengi er tækifæri til að gegna leiðandi hlutverki á alþjóðavettvangi. Í því samhengi er mikilvægt að styðja við jafnréttisstarf innanlands og að Ísland leggi sitt af mörkum á heimsvísu.
Íslensk stjórnvöld leiða alþjóðlegt aðgerðabandalag um kynbundið ofbeldi í tengslum við átaksverkefni UN Women Kynslóð jafnréttis. Markmið þess er að vinna að heildstæðum lausnum og leiða til umbreytandi aðgerða í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Í skuldbindingum Íslands í verkefninu er lögð áhersla á stefnumótun og lagasetningu sem hefur meðal annars að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi með auknum forvörnum, bættu samráði um aðgerðir gegn ofbeldi og eflingu þjónustu og stuðningsúrræða við bæði þolendur og gerendur. Lögð er áhersla á að ná betur til drengja og karla í forvarnarstarfi og að ráðist verði í aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi og úrbætur í réttarvörslukerfinu sem fylgi eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar í málaflokknum. Að auki hefur Ísland um árabil lagt ríka áherslu á jafnréttismál og samþætt þau stefnumótun í þróunarsamvinnu og allri málafylgju á alþjóðavettvangi. Til að mynda eru íslensk stjórnvöld meðal þeirra ríkja sem veita hvað hæst framlög til UN Women.
Í samstarfi við malavísk stjórnvöld og UN Women studdi Ísland nýverið gerð fyrstu landsáætlunar Malaví um konur, frið og öryggi í samræmi við ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Malavísk stjórnvöld kynntu áætlunina fyrr í þessari viku sem er mikilvægur áfangasigur fyrir hvert ríki. Áður hafði Ísland unnið að sambærilegu verkefni í samstarfi við stjórnvöld í Mósambík.
Mikilvæg alþjóðasamvinna
UNFPA er ein áherslustofnana Íslands í þróunarsamvinnu og gegnir lykilhlutverki þegar kemur að þjónustu við þolendur kynferðisbrota á átakasvæðum. Í síðustu viku var undirritaður rammasamningur við stofnunina sem kveður á um þreföldun á kjarnaframlögum á næsta ári, sem veitir henni sveigjanleika til að bregðast við þar sem neyðin er mest hverju sinni.
Í áratug hefur Ísland stutt við samvinnuverkefni UNFPA og UNICEF um afnám limlestinga á kynfærum kvenna og stúlkna. Þær eru gróf birtingarmynd ofbeldis gegn konum og stúlkum og er umfang þeirra gríðarlegt, en talið er að um 200 milljónir núlifandi kvenna og stúlkna lifi með afleiðingum limlestinga á kynfærum.
Gert er ráð fyrir að baráttan gegn kynbundnu ofbeldi verði eitt af áherslumálum Íslands í formennsku Evrópuráðsins á næsta ári og mun málaflokkurinn áfram skipa stóran sess í starfi Íslands á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.
Ísland mun halda áfram að tala fyrir mannréttindum, frelsi og jafnrétti kynjanna á alþjóðavettvangi og hvetja alþjóðasamfélagið til að standa vörð um fyrri áfangasigra.
Reynslan hefur sýnt að lítil ríki geta haft mikil áhrif.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 25. nóvember 2021.