Barn á ferð í skammdeginu
'}}

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Þegar svartasta skammdegið er að skella á er það áhyggjuefni að víða í hverfum borgarinnar, ekki síst í Grafarvogi, er umferðaröryggi barna verulega ábótavant. Víða vantar sérmerktar og upplýstar gangbrautir á gönguleiðum barna til og frá skóla- og frístundastarfi. Í því sambandi má m.a. nefna að í Hamrahverfi, liggja leiðir fjölda barna í hverfinu yfir mikla umferðargötu, Lokinhamra, en þar eru hvorki upplýstar gangbrautir né gangbrautarljós. Foreldrar barna í Hamrahverfi hafa marg ítrekað bent á að þarna sé úrbóta þörf.

Við Spöngina þar sem gangandi vegfarendur þurfa að þvera fjölfarna umferðargötu til að komast í bókasafnið, tónlistarskóla og aðra þá þjónustu sem þar er til staðar er nýjasta dæmið um að búið er að setja niður þrengingar og hraðahindranir. En lögbundnum gangbrautarskyldum er þar sleppt, sem kveða á um að gangbrautin sé sérmerkt, upplýst, að ökumönnum beri að stöðva og að gangandi vegfarendur hafi forgang. Þetta er allt látið undir höfuð leggjast, þrátt fyrir ábendingar umferðaröryggishóps Grafarvogs frá árinu 2014.

Við sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur erum stöðugt að setja fram tillögur til úrbóta, m.a.  að gangbrautir verði lagfærðar og merkingar þeirra samræmdar, í því skyni að auka umferðaröryggi barna og unglinga. Borgaryfirvöld ættu ekki að hvetja börn og unglinga til að ganga og hjóla í skóla og frístundir á meðan þessi sömu borgaryfirvöld draga lappirnar í þeirri viðleitni að tryggja umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.

Tillaga okkar sjálfstæðismanna um tilraunaverkefni með snjallgangbrautir var að vísu samþykkt og hefur einni slíkri gangbraut verið  komið fyrir við Fjallkonuveg við Foldaskóla. Það er skref í rétta átt. En að sjálfsögðu ættu slíkar gangbrautir að vera við alla skóla til að tryggja umferðaröryggi barna sem best. Þessi gangbrautarljós skynja gangandi vegfarendur en skynjarinn fylgist með vegfarandanum, lýsir hann vel upp og lætur græna ljósið loga þar til hann er kominn yfir. En það er ekki nóg að einni slíkri gangbraut sé komið fyrir í hverju hverfi borgarinnar. Þeim þarf að fjölga sem fyrst og koma þeim fyrir við alla skóla og allar göngu- og hjólaleiðir barna. Umferðaröryggi barna á ætíð að vera forgangsverkefni allra sveitafélaga.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu í nóvember 2021.