Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Sterkt ákall hefur verið um að kenna geðrækt í grunnskólum. Börn og ungmenni hafa verið að kalla eftir því ásamt meðal annars Geðhjálp. Það er mikilvægt að við hlustum á börn, ungmenni og fagfólk þegar er kallað eftir breytingum á menntakerfinu. Hvers vegna við höfum ekki brugðist við þessu ákalli finnst mér óskiljanlegt. Líkt og Geðhjálp hefur bent á „Það er ein besta fjárfesting hvers samfélags að kenna börnum frá unga aldri um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi“.
Árið 2017 var samþykkt að Reykjavíkurborg í samstarfi við heilsugæsluna myndi efla geðfræðslu fyrir nemendur á mið- og unglingastigi í grunnskólum Reykjavíkurborgar frá og með haustinu 2019. Því miður hefur þessi tillaga ekki komið til framkvæmda, sem eru vonbrigði
Börn og ungmenni eru í dag að glíma við hafsjó af tilfinningum þar sem kvíði og streita birtist í aukinni tíðni sjálfskaða. Einkenni depurðar og þunglyndis hafa aukist og koma meðal annars fram í auknum fjarvistum og brottfalli úr skóla. Einnig hefur hegðunarvandi barna og ungmenna aukist. Niðurstöður rannsókna á heilsu og líðan íslenskra barna benda til hærri tíðni geðrænna vandamála íslenskra barna en barna annars staðar í Evrópu. Þessu ættum við að bregðast við með því að kenna geðrækt í grunnskólum.
Geðfræðsla er mikilvæg forvörn og stuðlar að bættri líðan barna og ungmenna. Fræðsla um hvað geðrænar áskoranir eru og hvaða bjargráð eru til í samfélaginu hefur sýnt að fordómar minnka. Kennsla í samskiptum og sjálfseflingu eru mikilvægir þættir til þess að styrkja sjálfsmynd barna og ungmenna, bæta hegðun minnka árekstra og einelti.
Því leggjum við fram tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg taki af skarið fyrst sveitarfélaga og kenni geðrækt í grunnskólum.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 23. nóvember 2021.