Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Ég þreytist ekki á að skrifa og tala um það hvað dásamlegt er að búa í Grafarvogi. Hér höfum erum við mikla nálægt við náttúruna og einstakt samheldið samfélag. En hvernig getum við bætt Grafarvog, hvað getum við gert til að auka lífsgæði okkar sem búum hérna? Minn drauma Grafarvogur er með betra aðgengi að okkar náttúruperlum. Svæðið í kringum Gufunesbæ verði opið grænt svæði, lystigarður okkar Grafarvogsbúa með frábærum afþreyingarmöguleikum, þar sem góðar gönguleiðir yrðu innan um trjágróðurinn sem þar vex. Fjölbreytt afþreying og fallegt umhverfi fléttist þar saman. Hægt væri að fara í samstarf við íbúa sem hafa áhuga á ræktun og bjóða upp á reiti sem hægt er að taka í fóstur, einstaklingar gera það í samstarfi við garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar, þar sem þeir fá plöntur. Ég sé fyrir mér rósareit, reit með nytjajurtum þar sem hægt væru að koma og næla sér í graslauk eða myntu, tína rifsber eða fá rabarbara, fallegar lautir þar sem hægt væri að setjast niður með nesti. Svæði þar sem væri hjólbraut, pútt völlur og fleira. Svæði hannað af okkur Grafarvogsbúum með okkar þarfir í huga.
Sjósundsaðstaða og heitur pottur
Síðan sé ég fyrir mér mikla möguleika á svæðinu þar sem ekið er út í Geldinganes. Þar væri gaman að komið fyrir bílaplani sem matarbílar gætu komið sér fyrir og selt sína þjónustu, eins væri aðstaða til þess að grilla. Þar væri einnig góð aðstaða til sjósunds sem auðvelt væri að skella sér í og síðan demba sér í heitan pott á eftir. Líkt því sem hægt er að gera á Akranesi þar sem Guðlaug var opnuð ekki alls fyrir löngu. Þið sem ekki hafið farið og skoðað Guðlaugu á Akranesi, ég hvet ykkur til að gera það. Okkar laug gæti jafnvel heitið Sigurlaug. Ég er ekki í vafa í eina mínútu um að gríðarlegur fjöldi myndi nýta sér þessa aðstöðu. Síðan erum það við sem eigum ferfætlinga og langar til að leyfa þeim að hlaupa um frjálsum, þá er lausaganga hunda leyfð í Geldinganesi þangað er þó ekkert auðvelt að komast. Laga verður aðgengi að Geldinganesi, vegurinn er illfær og ekki er auðvelt að leggja bílum þar. Gaman væri einnig að sjá grenndarskóg Rimaskóla sem staðsettur er í Nónholti innst í Grafarvogi fá meira vægi, enda gríðarlega fallegur reitur. Það má lengi gera umhverfi okkar aðgengilegra og fallegra, það er fátt sem veitir meiri lífsgæði en fallegt og aðgengilegt umhverfi í nálægð við náttúruna.
Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu í nóvember 2021.