Frelsið á í vök að verjast
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Í upp­hafi Covid-far­ald­urs­ins var ég ekki í hópi þeirra sem voru há­vær­ir í op­in­berri gagn­rýni á stjórn­völd vegna þeirra tak­mark­ana á borg­ara­leg­um rétt­ind­um sem gripið var til í bar­átt­unni við veiru sem lækna­vís­ind­in höfðu litla þekk­ingu á. Ég tók stöðu með heil­brigðis­yf­ir­völd­um og hélt því m.a. fram 18. mars á síðasta ári að fum­laus og skipu­lögð viðbrögð kæmu okk­ur í gegn­um hætt­una. Verk­efnið væri að hægja á út­breiðslu og „tryggja eins og hægt er að heil­brigðis­kerfið ráði við að veita nauðsyn­lega – oft lífs­nauðsyn­lega þjón­ustu“ og vernda „þá sem eru viðkvæm­ast­ir og í mestri hættu“. Í varn­ar­bar­átt­unni yrðu stjórn­völd, með skýr­um og ótví­ræðum hætti, „að standa þétt við bakið á öfl­ugu starfs­fólki heil­brigðis­kerf­is­ins, fjár­hags­lega sem and­lega“. Stjórn­mála­menn ættu ekki að troða sér upp á sviðið en ein­beita sér að efna­hags­leg­um aðgerðum til að lág­marka skaðann fyr­ir ís­lensk fyr­ir­tæki og heim­ili.

Sem sagt: Ég taldi það rétt­læt­an­legt og nauðsyn­legt, þegar óþekkt­ur ógn­vald­ur herj­ar á þjóð, að stjórn­völd grípi til ráðstaf­ana til að verja líf og heilsu al­menn­ings, jafn­vel þótt frelsi ein­stak­linga sé skert tíma­bundið. Þessi afstaða er byggð á sann­fær­ingu um að ein af grunn­skyld­um rík­is­valds­ins sé að bregðast við þegar sam­fé­lag­inu er ógnað, enda sé farið eft­ir meg­in­regl­um rétt­ar­rík­is­ins og stjórn­ar­skrár.

Svig­rúm ekki nýtt

Í mörgu hef­ur okk­ur Íslend­ing­um tek­ist vel upp í bar­átt­unni við veiruna. Hægt og bít­andi hef­ur þekk­ing­in og skiln­ing­ur­inn á ógn­inni auk­ist. Með hörðum sótt­varnaaðgerðum var myndað svig­rúm til að und­ir­búa helstu stofn­an­ir sam­fé­lags­ins til að taka þátt í vörn­inni og ekki síst styrkja innviði heil­brigðis­kerfs­ins til að tak­ast á við vá­gest­inn. Með því yrði hægt að skipu­leggja bar­átt­una án þess að ganga með frek­leg­um hætti á borg­ara­leg rétt­indi. Skýr­ar vís­bend­ing­ar eru um að svig­rúmið hafi ekki verið nýtt.

Rúm­lega tutt­ugu mánuðir eru frá því að óvissu­stigi var lýst yfir vegna kór­ónu­veirunn­ar hér á landi. Á þess­um mánuðum hef­ur, líkt og í flest­um frjáls­um sam­fé­lög­um Vest­ur­landa, mynd­ast eitrað and­rúms­loft ótt­ans. Líkt og ég benti á í grein fyr­ir réttu ári (og sótti í smiðju Sumpti­ons lá­v­arðar og fyrr­ver­andi dóm­ara við hæsta­rétt Bret­lands) er ótt­inn öfl­ug­asta verk­færi þeirra sem virða frelsi borg­ar­anna lít­ils. „For­ræðis­hyggj­an nær­ist á ótta. Í skugga ótt­ans sé þess kraf­ist að stjórn­völd grípi til aðgerða, sem sum­ar geta verið gagn­leg­ar en aðrar skaðleg­ar í viðleitni allra til að verja líf og heilsu.“

Frelsið verður fórn­ar­lamb

Og eins og oft­ast verður frelsið fyrsta fórn­ar­lamb ótt­ans og um leið hverf­ur umb­urðarlyndi gagn­vart ólík­um skoðunum. Gagn­rýn­in umræða um aðgerðir stjórn­valda á erfitt upp­drátt­ar. Leik­ir sem lærðir veigra sér við að spyrna við fót­um og spyrja al­var­legra en nauðsyn­legra spurn­inga þar sem óskað er eft­ir rök­stuðningi fyr­ir hvers vegna frelsi ein­stak­linga er tak­markað og hvort of langt sé gengið. Þeim er mætt af full­kom­inni hörku og á stund­um með sví­v­irðing­um. Þar ganga því miður lækn­ar, sem fá út­rás fyr­ir hé­góma í sviðsljósi fjöl­miðla, hart fram. Til að magna ótta al­menn­ings er grafið skipu­lega und­an trausti á heil­brigðis­kerfið, sem þrátt fyr­ir allt er eitt það besta í heimi, þar sem framúrsk­ar­andi starfs­fólk vinn­ur af­rek á hverj­um degi, sem hvorki fjöl­miðlar né sam­fé­lags­miðlar hafa áhuga á.

Flest erum við fús til að færa fórn­ir og sætta okk­ur við að búa við skert at­hafna­frelsi í ákveðinn tíma til að vinna bug á hættu­legri veiru. Við vilj­um sýna ár­vekni og ábyrgð gagn­vart sam­ferðafólki, ekki vegna þess að stjórn­völd þvingi okk­ur til þess held­ur vegna borg­ara­legr­ar skyldu sem fylg­ir því að búa í frjálsu sam­fé­lagi.

Illa staðið und­ir kröf­um

Það versta sem frjáls ein­stak­ling­ur ger­ir er að hlýða at­huga­semda­laust og án gagn­rýni fyr­ir­mæl­um stjórn­valda sem með ein­um eða öðrum hætti tak­marka borga­leg rétt­indi, jafn­vel þótt fyr­ir­mæl­in séu til að verja al­manna­heill. Án aðhalds og gagn­rýni verður til rík­is­stjórn reglu­gerða og til­skip­ana.

Við skul­um viður­kenna nauðsyn þess að stjórn­völd geti gripið til aðgerða í sótt­vörn­um til að verja al­menn­ing á hættu­tím­um. Um leið verðum við að gera ákveðnar kröf­ur til stjórn­valda og heil­brigðis­yf­ir­valda: Að þau viðmið sem stuðst er við séu skýr, öll­um ljós og taki mið af breytt­um aðstæðum (s.s. bólu­setn­ingu) og betri þekk­ingu. Að gætt sé sam­kvæmni í yf­ir­lýs­ing­um og upp­lýs­ing­um. Að yf­ir­völd heil­brigðismála nýti svig­rúm til að auka viðnámsþrótt mik­il­væg­ustu stofn­ana. Að hægt sé treysta því að aldrei sé gengið lengra en þörf er á – að meðal­hófið ráði alltaf för, að stjórn­völd virði grunn­rétt­indi borg­ar­anna og starfi inn­an þeirra vald­marka sem þeim eru mörkuð. Að ekki sé kynt und­ir ótta til að rétt­læta skerðingu á borg­ara­leg­um rétt­ind­um. Að mál­efna­leg­um at­huga­semd­um og gagn­rýni sé ekki mætt af hroka þeirra sem telja sig umboðsmenn valds­ins og þekk­ing­ar­inn­ar. Að spurn­ing­um sé svarað.

Stjórn­völd hafa því miður upp­fyllt þess­ar kröf­ur illa á síðustu tutt­ugu mánuðum. Lík­leg­ast er ekki við aðra að sak­ast en okk­ur sjálf, sem hlýðum til­skip­un­um gagn­rýn­is­laust. Og þess vegna á frelsið í vök að verj­ast. Að vera frjáls borg­ari verður aðeins óljós minn­ing.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. nóvember 2021.