Jórunn Pála Jónasdóttir borgarfulltrúi:
Leikskólabörn í Reykjavík eru 6.450 talsins og eru ferðir með þau til og frá skóla því ágætt hlutfall af öllum ferðum sem eru farnar í Reykjavík dag hvern. Eflaust kannast margir við að framkvæmd slíkrar ferðar getur verið á við margra daga hálendisferð. Aukaföt í og úr leikskóla, vatnsbrúsar, snýtubréfið í vasann, kúrukanínur og snuð, og ávallt krosslagðir fingur um að risasmáu einræðisherrarnir verði samvinnuþýðir. Með öðrum orðum aðeins öðruvísi veruleiki, sem gildir einnig á ferð um borg og bæ. Hvernig blasa við þessum ferðalöngum loforð um minni útblástur og hvatning til umhverfisvænni fararskjóta?
Er hægt að skilja kerruna eftir?
Svo að þessi litríki hópur eigi raunhæfan séns í að ferðast með umhverfisvænum hætti þarf að vera ákveðin umgjörð til staðar við leikskólana. Gera verður ráð fyrir því að margir foreldrar þurfi að komast áfram til vinnu eftir að hafa komið börnum sínum á leikskólann og þá í öðru hverfi. Úrval af reiðhjólum og sérhönnuðum aftaníkerrum og hlaupakerrum hefur aukist. Hentugast væri að geta skilið slík farartæki eftir í læstri geymslu þar sem þau eru varin fyrir veðri og vindum.
Tillaga um úttekt á aðstöðu á leikskólum
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar hafa þess vegna lagt til að gerð verði úttekt á aðstöðu á leikskólum fyrir þá sem koma þangað hjólandi, gangandi eða með öðrum umhverfisvænum fararmátum, til vinnu eða með börn sem eru nemendur í skólunum. Úttektin snúi að því hvort aðstaða sé til að geyma við leikskólana kerrur sem hengdar eru aftan á hjól, barnakerrur, reiðhjól eða önnur umhverfisvæn farartæki. Ef slíkar geymslur eru til staðar við einhverja leikskóla verði jafnframt kannað hvort þær séu upphitaðar.
Fróðlegt verður að sjá útkomuna sem verður eflaust gagnleg til þess að greina umhverfisvæna möguleika í morgunrútínu foreldra leikskólabarna og annarra sem leggja leið sína þangað daglega.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. október 2021.