Yfir­völd vita betur
'}}

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Byggja á háhýsi í Mjóddinni, þessu hafa íbúar mótmælt, ekki hefur verið komið til móts við óskir íbúa um að lækka hæð húsa í nýju aðalskipulagi.

Ákall hefur verið frá íbúum í Úlfarsársdal og Grafarholti um það að leyfa byggingu matvöruverslunar á reit Bauhaus. Því hefur verið synjað.

Óskað hefur verið eftir því að á lóð við Borgarholtsskóla verði ekki byggt hjúkrunarheimili, heldur fái skólinn að nýta lóðina til þess að stækka. Ekki hefur verið orðið við því.

Foreldrar barna í Fossvogsskóla hafa gengið í gegnum mikið stapp við borgaryfirvöld á kjörtímabilinu, það gekk svo langt að þeir voru kallaðir móðursjúkir. Nú hefur komið í ljós að lítið annað en steypuskel mun standa eftir af byggingum skólans þegar farið verður í endurbætur og jafnvel gæti svo farið að rífa þurfi eina af byggingum skólans. Skólinn var það illa farinn af myglu, það var nú öll móðursýkin.

Borgarbúar söfnuðu miklum fjölda undirskrifta og mótmæltu kröftuglega lokun grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi. Ekki var hlustað og skólanum lokað.

Safnað var miklum fjölda undirskrifta og þess krafist að ekki yrði byggt í Elliðaárdal. Ekki var hlustað og byggt verður í dalnum.

Kynntar hafa verið róttækar breytingar í Bústaða- og Háleitishverfi sem eru að mælast mjög illa fyrir hjá íbúum.

Málin eru því miður mun fleiri. Borgarbúar eru duglegir að láta okkur kjörna fulltrúa vita hvað þeir vilja. Vandinn er að meirihlutinn hlustar ekki á raddir íbúa.

Mitt forgangsmál er ef ég væri í meirihluta núna að hlusta á það sem íbúar Reykjavíkur vilja. Þeirra vilji er skýr, þau þekkja sitt nærumhverfi best og eru sérfræðingar í því.

Hvers vegna hefur t.d ekki verið hætt við endurgerð á Grófarhúsið sem á að kosta 4,5 milljarða og peningarnir frekar nýttir í það að byggja upp íþróttahús í Laugardal. Þar er aðstöðuleysið mikið og gríðarleg þörf á því að byggja upp frekari aðstöðu.

Greinin birtst í Fréttablaðinu 21. október 2021.