Ætla Íslendingar að hætta að eignast börn?
'}}

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Það hef­ur blasað við öll­um að eldri borg­ur­um fjölgi veru­lega á kom­andi ára­tug­um. Lýðfræðilegu breyt­ing­arn­ar eru hins veg­ar lík­lega meiri en marg­ir átta sig á. Margt kem­ur þar til. Fjöl­menn­ir ár­gang­ar eru að ljúka starfsæv­inni og líf­ald­ur hef­ur lengst. En vegna þess að fæðing­artíðni hef­ur lækkað á síðustu ára­tug­um verða lýðfræðilegu breyt­ing­arn­ar meiri og geta valdið miklu ójafn­vægi – jafnt efna­hags­lega sem fé­lags­lega.

Á liðnu ári voru liðlega 45 þúsund Íslend­ing­ar 67 ára og eldri eða um 12,4% lands­manna. Árið 2040 verður hlut­fallið komið yfir 18%. Miðað við mann­fjölda­spá Hag­stof­unn­ar verða eldri borg­ar­ar fleiri en þeir sem eru und­ir tví­tugu árið 2056. Eft­ir tæp 40 ár verða yfir 100 þúsund Íslend­ing­ar 67 ára og eldri eða 22,6% þjóðar­inn­ar. Níu árum síðar – 2069 – er því spáð að eldri borg­ar­ar verði yfir 109 þúsund sem þýðir að óbreyttu að nær fjór­ir af hverj­um tíu verða 67 ára eða eldri. Þeim sem eru á vinnualdri (20-67 ára) fækk­ar hlut­falls­lega á kom­andi ára­tug­um. Nú er hlut­fallið tæp­lega 63% eða verður komið niður í rúm­lega 54% árið 2069. Hluti þessa fólks er ekki á vinnu­markaði – er í námi eða get­ur ekki tekið þátt í vinnu­markaðnum vegna fötl­un­ar, veik­inda eða annarra aðstæðna. Á móti kem­ur að æ fleiri eldri borg­ar­ar taka virk­an þátt í vinnu­markaðinum að fullu eða öllu leyti í nokk­ur ár eft­ir að 67 ára aldri er náð. En það breyt­ir ekki mynd­inni nema að litlu leyti: Þeim fækk­ar hlut­falls­lega sem eru á vinnu­markaði á móti þeim sem eru utan hans. Að óbreyttu verður inn­an við einn starf­andi á móti hverj­um ein­um sem er ekki á vinnu­markaði.

Fjölg­un eldri borg­ara fel­ur í sér marg­ar áskor­an­ir sem við sem þjóð erum á marg­an hátt vel í stakk búin til að tak­ast á við. Öldrun þjóðar kall­ar ekki aðeins á auk­in út­gjöld til heil­brigðisþjón­ustu held­ur upp­stokk­un þjón­ust­unn­ar með stór­auk­inni áherslu á lýðheilsu. Lýðfræðileg breyt­ing á ald­urs­sam­setn­ingu bein­ir kast­ljós­inu á hversu mik­il­vægt það er að standa trygg­an vörð um sterk líf­eyri­s­kerfi en um leið ýta enn frek­ar und­ir líf­eyr­is­sparnað og eigna­mynd­un launa­fólks sem nú er í blóma lífs­ins.

Fjand­sam­leg barna­fólki?

Eft­ir síðari heims­styrj­öld­ina var fæðing­artíðni hér á landi há og var hæst á ár­un­um 1955 til 1960 þegar hún var yfir fjög­ur börn á hverja konu. Eins og sést á meðfylgj­andi mynd lækkaði fæðing­artíðnin en var um og yfir þrjú börn fram yfir 1970. Árið 1985 fór frjó­sem­in und­ir tvo í fyrsta skipti og sag­an end­ur­tók sig ári síðar. Á fimm ára tíma­bili frá 1999 var fæðing­artíðnin rétt und­ir tveim­ur að und­an­skildu alda­móta­ár­inu þegar hún skreið rétt yfir tvo. En svo fór barneign­um að fjölga lít­il­lega á ný. En frá 2013 til 2020 eða í átta ár í röð hef­ur fæðing­artíðnin verið und­ir tveim­ur. Árið 2018 var frjó­sem­in 1,707 börn á ævi hverr­ar konu og hef­ur hún aldrei verið lægri frá því að mæl­ing­ar hóf­ust árið 1853.

Með öðrum orðum: Ald­urs­sam­setn­ing þjóðar­inn­ar verður stöðugt óhag­stæðari á kom­andi ára­tug­um. Aðeins auk­in fæðing­artíðni og/​eða fjölg­un ný­búa get­ur snúið þeirri þróun við.

En um leið og við sem þjóð tök­umst á við áskor­an­ir kom­andi ára­tuga kom­umst við ekki hjá því að velta því fyr­ir okk­ur hvers vegna ungt fólk er hætt að eign­ast börn. Við verðum að spyrja okk­ur erfiðara spurn­inga: Erum við sem þjóð fjand­sam­leg barna­fólki? Er at­vinnu­lífið nei­kvætt út í barneign­ir starfs­manna? Fórna for­eldr­ar (og þá fyrst og síðast kon­an) fram­gangi í starfi með barneign­um? Eru þær fjár­hags­legu byrðar sem barna­fólk þarf að bera svo þung­ar að lít­il skyn­semi er í þeirri ákvörðun að eign­ast barn? Er skipu­lag og sam­spil vinnu­markaðar, leik- og grunn­skóla svo brenglað að ungt fólk treyst­ir sér ekki í barneign­ir?

Þetta eru allt spurn­ing­ar sem við þurf­um að leita svara við. Og spurn­ing­arn­ar eru fleiri og þeim þurfa marg­ar aðrar þjóðir einnig að svara. Lækk­andi fæðing­artíðni hef­ur fylgt vax­andi vel­meg­un þjóða. Að þessu leyti sker Ísland sig ekki úr, þótt þró­un­in hafi að nokkru verið hæg­ari hér á landi en í ná­granna­lönd­un­um. Vís­bend­ing­ar eru hins veg­ar um að aðrir þætt­ir en efna­hags­leg­ir kunni að verða ráðandi í framtíðinni þegar kem­ur að lýðfræðilegri þróun þjóða.

Eng­ar barneign­ir vegna kvíða

Í síðasta mánuði var kynnt í lækna­tíma­rit­inu Lancet niðurstaða viðamik­ill­ar rann­sókn­ar meðal tíu þúsund ung­menna á aldr­in­um 16 til 25 ára í tíu lönd­um um lofts­lagskvíða og áhrif lofts­lags­breyt­inga á líf ungs fólks. Niður­stöðurn­ar eru slá­andi.

Nærri sex af hverj­um tíu ung­menn­um hafa mikl­ar eða mjög mikl­ar áhyggj­ur af lofts­lags­breyt­ing­um. Svipaður fjöldi er ósátt­ur við aðgerðir stjórn­valda í lofts­lags­mál­um og telja sig svikna af eldri kyn­slóðum og stjórn­völd­um. Þrír fjórðu taka und­ir full­yrðingu um að „framtíðin sé ógn­vekj­andi“. Um helm­ing­ur er þess full­viss að tæki­færi ung­menna verði færri og verri í framtíðinni en for­eldr­ar þeirra fengu að njóta. Nær einn af hverj­um tveim­ur seg­ist glíma við lofts­lagskvíða sem hafi áhrif á dag­legt líf viðkom­andi. Fjór­ir af hverj­um tíu eru hik­andi við að eign­ast börn vegna yf­ir­vof­andi lofts­lags­ham­fara.

Þess­ar niður­stöður eru í takt við það sem kom fram í grein­inga­skýrslu sér­fræðinga sem Morg­an Stanley-fjár­fest­ing­ar­bank­inn sendi viðskipta­vin­um sín­um í sum­ar. Að vax­andi til­hneig­ing til að eign­ast ekki börn vegna ótta við lofts­lags­breyt­ing­ar sé að hafa meiri og hraðari nei­kvæð áhrif á þróun fæðing­artíðni en nokkr­ir aðrir áhrifaþætt­ir á síðustu ára­tug­um.

Ef til vill á það ekki að koma á óvart að ungt fólk skuli í rík­ara mæli en áður vera af­huga barneign­um. Varla er hægt að kom­ast und­an dag­leg­um hörm­ung­ar­frétt­um af áhrif­um lofts­lags­breyt­inga. Auðvitað eig­um við hvert og eitt að taka um­hverf­is- og lofts­lags­mál al­var­lega, en fjöl­miðlar, stjórn­völd og vís­inda­menn hafa á síðustu árum skapað menn­ingu ör­vænt­ing­ar hjá al­menn­ingi, ekki síst þeim sem yngri eru. Af­leiðing­in er vax­andi kvíði og böl­sýni á framtíðina.

Madeleine Ke­arns, blaðakona og rit­höf­und­ur, bend­ir á í ný­legri grein í The Spectator að ótti við framtíðina og barneign­ir sé að mestu ástæðulaus. Lík­legt sé að börn sem fæðast í dag eigi lengra og betra líf fyr­ir hönd­um en þau sem á und­an komu. Þau fái betri mennt­un, njóti betri heilsu og þeirra bíði betri og fjöl­breytt­ari störf en fyrri kyn­slóðir áttu kost á. Ke­arns seg­ir nauðsyn­legt að beita skyn­semi til að tak­ast á við lofts­lags­breyt­ing­ar.

Sú hugs­un að barneign­ir íþyngi jörðinni bygg­ist á þeirri trú að mann­kynið sé vanda­málið og framtíðin sé of hættu­leg fyr­ir nýj­ar kyn­slóðir. Að mann­skepn­an hætti að fjölga sér er raun­veru­leg ógn og nöt­ur­leg framtíðar­sýn. Varla ætl­ar mann­kynið að tak­ast á við lofts­lags­breyt­ing­ar með því að út­rýma sjálfu sér!

Von­andi þurf­um við Íslend­ing­ar ekki að tak­ast á við hræðslu um framtíðina, þegar við leys­um verk­efni næstu ára­tuga með því að snúa óhag­stæðri þróun lýðfræðinn­ar við.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. október 2021.