Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Það hefur blasað við öllum að eldri borgurum fjölgi verulega á komandi áratugum. Lýðfræðilegu breytingarnar eru hins vegar líklega meiri en margir átta sig á. Margt kemur þar til. Fjölmennir árgangar eru að ljúka starfsævinni og lífaldur hefur lengst. En vegna þess að fæðingartíðni hefur lækkað á síðustu áratugum verða lýðfræðilegu breytingarnar meiri og geta valdið miklu ójafnvægi – jafnt efnahagslega sem félagslega.
Á liðnu ári voru liðlega 45 þúsund Íslendingar 67 ára og eldri eða um 12,4% landsmanna. Árið 2040 verður hlutfallið komið yfir 18%. Miðað við mannfjöldaspá Hagstofunnar verða eldri borgarar fleiri en þeir sem eru undir tvítugu árið 2056. Eftir tæp 40 ár verða yfir 100 þúsund Íslendingar 67 ára og eldri eða 22,6% þjóðarinnar. Níu árum síðar – 2069 – er því spáð að eldri borgarar verði yfir 109 þúsund sem þýðir að óbreyttu að nær fjórir af hverjum tíu verða 67 ára eða eldri. Þeim sem eru á vinnualdri (20-67 ára) fækkar hlutfallslega á komandi áratugum. Nú er hlutfallið tæplega 63% eða verður komið niður í rúmlega 54% árið 2069. Hluti þessa fólks er ekki á vinnumarkaði – er í námi eða getur ekki tekið þátt í vinnumarkaðnum vegna fötlunar, veikinda eða annarra aðstæðna. Á móti kemur að æ fleiri eldri borgarar taka virkan þátt í vinnumarkaðinum að fullu eða öllu leyti í nokkur ár eftir að 67 ára aldri er náð. En það breytir ekki myndinni nema að litlu leyti: Þeim fækkar hlutfallslega sem eru á vinnumarkaði á móti þeim sem eru utan hans. Að óbreyttu verður innan við einn starfandi á móti hverjum einum sem er ekki á vinnumarkaði.
Fjölgun eldri borgara felur í sér margar áskoranir sem við sem þjóð erum á margan hátt vel í stakk búin til að takast á við. Öldrun þjóðar kallar ekki aðeins á aukin útgjöld til heilbrigðisþjónustu heldur uppstokkun þjónustunnar með stóraukinni áherslu á lýðheilsu. Lýðfræðileg breyting á aldurssamsetningu beinir kastljósinu á hversu mikilvægt það er að standa tryggan vörð um sterk lífeyriskerfi en um leið ýta enn frekar undir lífeyrissparnað og eignamyndun launafólks sem nú er í blóma lífsins.
Fjandsamleg barnafólki?
Eftir síðari heimsstyrjöldina var fæðingartíðni hér á landi há og var hæst á árunum 1955 til 1960 þegar hún var yfir fjögur börn á hverja konu. Eins og sést á meðfylgjandi mynd lækkaði fæðingartíðnin en var um og yfir þrjú börn fram yfir 1970. Árið 1985 fór frjósemin undir tvo í fyrsta skipti og sagan endurtók sig ári síðar. Á fimm ára tímabili frá 1999 var fæðingartíðnin rétt undir tveimur að undanskildu aldamótaárinu þegar hún skreið rétt yfir tvo. En svo fór barneignum að fjölga lítillega á ný. En frá 2013 til 2020 eða í átta ár í röð hefur fæðingartíðnin verið undir tveimur. Árið 2018 var frjósemin 1,707 börn á ævi hverrar konu og hefur hún aldrei verið lægri frá því að mælingar hófust árið 1853.
Með öðrum orðum: Aldurssamsetning þjóðarinnar verður stöðugt óhagstæðari á komandi áratugum. Aðeins aukin fæðingartíðni og/eða fjölgun nýbúa getur snúið þeirri þróun við.
En um leið og við sem þjóð tökumst á við áskoranir komandi áratuga komumst við ekki hjá því að velta því fyrir okkur hvers vegna ungt fólk er hætt að eignast börn. Við verðum að spyrja okkur erfiðara spurninga: Erum við sem þjóð fjandsamleg barnafólki? Er atvinnulífið neikvætt út í barneignir starfsmanna? Fórna foreldrar (og þá fyrst og síðast konan) framgangi í starfi með barneignum? Eru þær fjárhagslegu byrðar sem barnafólk þarf að bera svo þungar að lítil skynsemi er í þeirri ákvörðun að eignast barn? Er skipulag og samspil vinnumarkaðar, leik- og grunnskóla svo brenglað að ungt fólk treystir sér ekki í barneignir?
Þetta eru allt spurningar sem við þurfum að leita svara við. Og spurningarnar eru fleiri og þeim þurfa margar aðrar þjóðir einnig að svara. Lækkandi fæðingartíðni hefur fylgt vaxandi velmegun þjóða. Að þessu leyti sker Ísland sig ekki úr, þótt þróunin hafi að nokkru verið hægari hér á landi en í nágrannalöndunum. Vísbendingar eru hins vegar um að aðrir þættir en efnahagslegir kunni að verða ráðandi í framtíðinni þegar kemur að lýðfræðilegri þróun þjóða.
Engar barneignir vegna kvíða
Í síðasta mánuði var kynnt í læknatímaritinu Lancet niðurstaða viðamikillar rannsóknar meðal tíu þúsund ungmenna á aldrinum 16 til 25 ára í tíu löndum um loftslagskvíða og áhrif loftslagsbreytinga á líf ungs fólks. Niðurstöðurnar eru sláandi.
Nærri sex af hverjum tíu ungmennum hafa miklar eða mjög miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum. Svipaður fjöldi er ósáttur við aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum og telja sig svikna af eldri kynslóðum og stjórnvöldum. Þrír fjórðu taka undir fullyrðingu um að „framtíðin sé ógnvekjandi“. Um helmingur er þess fullviss að tækifæri ungmenna verði færri og verri í framtíðinni en foreldrar þeirra fengu að njóta. Nær einn af hverjum tveimur segist glíma við loftslagskvíða sem hafi áhrif á daglegt líf viðkomandi. Fjórir af hverjum tíu eru hikandi við að eignast börn vegna yfirvofandi loftslagshamfara.
Þessar niðurstöður eru í takt við það sem kom fram í greiningaskýrslu sérfræðinga sem Morgan Stanley-fjárfestingarbankinn sendi viðskiptavinum sínum í sumar. Að vaxandi tilhneiging til að eignast ekki börn vegna ótta við loftslagsbreytingar sé að hafa meiri og hraðari neikvæð áhrif á þróun fæðingartíðni en nokkrir aðrir áhrifaþættir á síðustu áratugum.
Ef til vill á það ekki að koma á óvart að ungt fólk skuli í ríkara mæli en áður vera afhuga barneignum. Varla er hægt að komast undan daglegum hörmungarfréttum af áhrifum loftslagsbreytinga. Auðvitað eigum við hvert og eitt að taka umhverfis- og loftslagsmál alvarlega, en fjölmiðlar, stjórnvöld og vísindamenn hafa á síðustu árum skapað menningu örvæntingar hjá almenningi, ekki síst þeim sem yngri eru. Afleiðingin er vaxandi kvíði og bölsýni á framtíðina.
Madeleine Kearns, blaðakona og rithöfundur, bendir á í nýlegri grein í The Spectator að ótti við framtíðina og barneignir sé að mestu ástæðulaus. Líklegt sé að börn sem fæðast í dag eigi lengra og betra líf fyrir höndum en þau sem á undan komu. Þau fái betri menntun, njóti betri heilsu og þeirra bíði betri og fjölbreyttari störf en fyrri kynslóðir áttu kost á. Kearns segir nauðsynlegt að beita skynsemi til að takast á við loftslagsbreytingar.
Sú hugsun að barneignir íþyngi jörðinni byggist á þeirri trú að mannkynið sé vandamálið og framtíðin sé of hættuleg fyrir nýjar kynslóðir. Að mannskepnan hætti að fjölga sér er raunveruleg ógn og nöturleg framtíðarsýn. Varla ætlar mannkynið að takast á við loftslagsbreytingar með því að útrýma sjálfu sér!
Vonandi þurfum við Íslendingar ekki að takast á við hræðslu um framtíðina, þegar við leysum verkefni næstu áratuga með því að snúa óhagstæðri þróun lýðfræðinnar við.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. október 2021.