Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:
Viðreisn, Samfylking, Píratar og Vinstri græn gerðu með sér meirihlutasáttmála um stjórn borgarinnar fyrir kjörtímabilið 2018-2022. Þar segir m.a. að brúa eigi bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Sú brúarsmíð hefur farið í handaskolum eins og best sést á biðlistum mörg hundruð barna sem ekki fá inni á leikskólum borgarinnar. Þannig hefur staðan verið á kjörtímabilinu og þannig er hún enn, þegar því er að ljúka. Markmiðið var skýrt: Að tryggja öllum börnum frá 12 mánaða aldri leikskólavist á þessu kjörtímabili. Enn er langt í land að þetta markmið náist og þegar börn fá loks leikskólavist, oft eftir langa bið, er alls ekki tryggt að þau fái inni á leikskóla síns eigin hverfis. Sú algenga staðreynd rímar illa við það slagorð borgaryfirvalda, að borgarbúar eigi að hafa aðgengi að allri nærþjónustu í sínu hverfi.
Frosið Mælaborð
Þá segir í sama sáttmála að auka eigi enn frekar gagnsæi í stjórnsýslunni og því verði sem fyrst lokið með m.a. Mælaborði Reykjavíkur, enda verði þar að finna helstu tölulegar upplýsingar um þjónustu borgarinnar við borgarbúa. En Mælaborðið hefur því miður verið frosið nánast allt kjörtímabilið og þar því litlar upplýsingar að fá. Þar er t.d. hvergi að finna upplýsingar um biðlista eftir leikskólavist, né þá heldur hvernig þeir styttast eða lengjast eftir atvikum, frá degi til dags, þannig að foreldrar geti fylgst með nákvæmlega hvar börnin þeirra eru í röðinni. Slíkar upplýsingar hljóta samt að vera afar þýðingarmiklar fyrir foreldra, því þær eru mikilvægar vísbendingar um það hvort foreldrar þurfi þá sjálf að grípa til mjög tímabundinna, eða langvarandi ráðstafana. Það gagnast foreldrum lítið, að slíkur listi sé lagður fram, einungis tvisar til þrisvar á ári, í skóla- og frístundaráði, til upplýsingar fyrir kjörna fulltrúa.
Mikilvægar upplýsingar
Leikskólavist barna lýtur að mikilvægri grunnþjónustu við borgarbúa. Það er því sjálfsögð krafa að upplýsingar um slíka þjónustu séu ítarlegar, aðgengilegar og oft uppfærðar.
Til að auka gagnsæi og gera stjórnsýsluna skilvirkari að þessu leyti lagði ég til í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur, þann 9. febrúar sl., að upplýsingar um laus leikskólarými og stöðu biðlistans verði settar í Mælaborðið á vef Reykjavíkurborgar og hann þá gerður nothæfur fyrir borgarbúa. Þar komi fram aðgengilegar, sundurgreindar og auðskiljanlegar upplýsingar eftir leikskólum og hverfum, um stöðu biðlista og laus leikskólarými. Ennfremur að þessar upplýsingar verði uppfærðar um leið og breytingar verða. Markmiðið með tillögunni er að sjálfsögðu að auðvelda foreldrum aðgengi að upplýsingum, og gera stjórnsýsluna gagnsærri og skilvirkari. Slíkt fyrirkomulag myndi spara foreldrum tíma og mikla fyrirhöfn, og draga úr álagi leikskólanna og skóla- og frístundasviðs.
Tillaga mín og örlög hennar
En hvað skyldi hafa orðið um þessa tillögu mína? Jú, afgreiðslu hennar var fyrst frestað. Hún var síðan tekin fyrir, þremur mánuðum síðar og afgreidd með eftirfarandi hætti: „Skóla- og frístundaráð leggur til að tillögunni um upplýsingar um leikskólarými verði vísað til starfshóps um Mælaborð borgarbúa á vegum fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar.“ Við þessa þulu er því að bæta að síðan hefur ekkert heyrst frá tillögunni né starfshópnum. Ekkert hefur því verið gert í málinu.
Það er löngu orðið tímabært að Reykjavíkurborg tileinki sér nútímalegri vinnubrögð sem tryggi skilvirkari, gagnvirkari og persónulegri þjónustu og upplýsingagjöf. Reyndar stendur það til, en því miður með alrangri aðferðarfræði. Borgaryfirvöld hyggjast koma sér upp hugbúnaðarhúsi, ráða til sín 60 hugbúnaðar-og tæknisérfræðinga og leggja tíu þúsund milljónir í verkefnið á næstu þremur árum. Við megum hins vegar aldrei gleyma því að mannlegur vilji er ekki forritunarfyrirbrigði. Heill her af hugbúnaðarfræðingum og milljarðar á milljarða ofan koma aldrei í staðinn fyrir ábyrga afstöðu og góðan vilja. Vilji er kannski ekki allt sem þarf. En hann verður allaf nauðsynleg forsenda allrar góðrar stjórnsýslu.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. október 2021.