Markaðslausnir eða opinbert bákn
'}}

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Engum dettur í hug að iðnbyltingunni og öllum þeim framleiðslu-, samgöngu-, fjármála- og tæknibyltingum sem eru afsprengi hennar hafi verið komið á af ríkisvaldi og sveitarfélögum. Í nær öllum tilfellum ber að rekja þessar byltingar til hugvits og framtaks frjálsra aðila á eigin vegum og til hins sjálfsprottna frjálsa markaðar. Frá upphafi iðnbyltingar hefur svo tækniþróun gengið sífellt hraðar fyrir sig. Þessar tvær staðreyndir koma einkar skýrt fram með tölvubyltingunni og hinni sífellt hraðari hugbúnaðarþróun á hinum ólíklegustu sviðum sem hún hefur haft í för með sér.

Opinberir aðilar mega hins vegar þakka fyrir að geta sómasamlega haldið í við þá þróun, með því að tileinka sér þær framfarir og nýta þannig þá nýju möguleika og margvíslegu hagkvæmni sem þróun í t.d. rafrænni stjórnsýslu hefur upp á að bjóða. Hér á landi fjölgar stöðugt ungum og ört vaxandi hugbúnaðarfyrirtækjum ungs hæfileikafólks sem hefur verið að taka þátt í hverju viðskiptaævintýrinu á fætur öðru.

Sambærilegt verkefni ríkis og borgar

Að framansögðu ætti engum að koma á óvart að nú stendur yfir átak á vegum íslenska ríkisins í þróun á miðlægum tækniinnviðum á sviði upplýsinga og þjónustu. Þetta er gert með hagkvæmum og skilvirkum hætti, en ríkisvaldið hefur hér boðið út allar sínar hugbúnaðarlausnir. Á núgildandi fjárlögum ríkisins vegna Stafræns Íslands og þróunar á miðlægum upplýsingatækniinnviðum er áætlað að verja 1,6 milljörðum á ári til verkefnisins.

En það ætti heldur ekki að koma neinum á óvart að meirihlutinn í borgarstjórn ætlar í sambærilegt verkefni og hefur að sjálfsögðu kosið allt aðra leið. Reykjavíkurborg ætlar að verja rúmum 10 milljörðum á næstu þremur árum í hugbúnaðarþjónustu en án útboðs allra verkþátta. Þess í stað ætlar borgin að ráða til sín a.m.k. 60 sérfræðinga til að vinna verkið innan borgarkerfisins. Enginn veit hvers vegna verkefnið kostar rúma 10 milljarða, en ekki fimm eða 20 milljarða. Enginn veit í hverju verkið er nákvæmlega fólgið, enda vantar hér nákvæma markmiðslýsingu. Enginn veit því hvað vinnst með þessu verkefni þegar upp er staðið, eða hvort, yfirhöfuð, eitthvað vinnst með því, t.d. aukin hagræðing eða betri þjónusta við borgarbúa. En eitt vitum við þó öll: Borgarbúar koma til með að borga þessar tíu þúsund milljónir króna.

Sveitarfélag í harðri samkeppni við einkaframtakið

Það er vel skiljanlegt hvers vegna íslenska ríkið velur útboðsleiðina. Með því er ríkið m.a. að nýta sér þá þekkingu, reynslu, hugkvæmni, en síðast en ekki síst þann mannauð sem nú er fyrir hendi í íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum, en glatast gjarnan við að brjóta upp fyrirtækin og stofna í staðinn deild í opinberu bákni. Ríkið er einnig að tryggja skattgreiðendum sem mestan árangur á sem hagkvæmustum kjörum. Í þriðja lagi býður útboð upp á skýran greinarmun milli þeirra sem vinna verkið og hinna sem greiða fyrir það og eiga að njóta þess. En slíkur greinarmunur er forsenda þess að hægt sé að fylgjast með verkþáttum og meta framlagið á mælanlegan hátt og leggja það fyrir kjósendur og útsvarsgreiðendur.

Af einhverjum ástæðum hafa borgaryfirvöld ákveðið að taka báknið fram yfir markaðslausnir, taka óskýr markmið fram yfir skýr markmið, markvissa áætlun og virkt eftirlit og taka merkingarlaus pólitísk slagorð og síðan afsakanir fram yfir gagnsæ vinnubrögð og mælanlegan árangur. Það er afleit aðferð þegar ráðist er í svo viðamikið, mikilvægt og kostnaðarsamt verkefni.

Þess vegna lögðum við sjálfstæðismenn fram þá tillögu í borgarstjórn að boðnir yrðu út allir verkþættir þessa verkefnis, frá hönnun til þróunar og hugbúnaðargerðar. Innkaupasviði Reykjavíkurborgar hefði þá verið falið að vinna að útboðum og hafa fyrstu útboðsgögn tilbúin 1. desember 2021. Tillaga okkar sjálfstæðismanna gerir ráð fyrir að Reykjavíkurborg noti Stafrænt Ísland og aðferðafræðina að því verkefni sem fyrirmynd.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. október 2021.