Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Nú þegar tekið er að skyggja aftur þá verður maður svo vel var við það í ljósaskiptunum hversu mikilvægt það er að hafa góða götulýsingu. Árið 2015 var tímalengd götulýsingar stytt í Reykjavík. Þegar lýsingin var stytt var það gert í sparnaðarskini, nú er hins vegar búið að LED-væða töluvert magn af ljósastaurum. Það breytir mjög miklu og dregur verulega úr kostnaði vegna lýsingar. Því má auðveldlega samhliða áframhaldandi aukinni LED-væðingu lengja tíma götulýsingar kvölds og morgna. Kostnaður við það að lengja aftur tíma götulýsingar verður því ekki jafn mikill og áður. Vegna þessa óverulega kostnaðar væri því auðvelt að lengja þann tíma sem kveikt er á lýsingu.
Góð götulýsing er öryggisatriði bæði fyrir gangangi, hjólandi og þá sem akandi eru og því er ekkert til fyrirstöðu að samþykkja tillögu sjálfstæðismanna sem lögð var til í janúar árið 2019 í skipulags- og samgönguráði að auka lýsingu kvölds og morgna. Þeirri tillögu hefur því miður ekki verið svarað og væri góður bragur á því að taka hana til afgreiðslu núna og auka við lýsinguna hjá okkur hér í Reykjavík og auka þar með öryggi okkar allra sem eru á ferðinni í ljósaskiptunum.
Morgunblaðið, 7. október 2021.