Óli Björn Kárason alþingismaður:
Hægt er að lesa margt út úr niðurstöðum kosninganna síðastliðinn laugardag og fer sjálfsagt töluvert eftir þeim gleraugum sem viðkomandi er með. En sumt blasir við og þarf engin gleraugu.
Síðasti laugardagur var ekki dagur stjórnarandstöðunnar. Ekki einn einasti stjórnarandstöðuflokkur náði að komast yfir 10% fylgi og gamaldags hugmyndafræði sósíalista var hafnað. Eftir stendur stjórnarandstaða sem sundurlaust safn smáflokka.
Flokkur í molum
Samfylkingin er í molum og draumurinn um að verða leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum er aðeins gömul minning, litlu yngri en draumurinn um að flokkurinn yrði sameiningarafl vinstriflokkanna.
Úrslitin staðfesta að Samfylkingin er smáflokkur, töluvert minni en Alþýðuflokkurinn var á sínum tíma. Á árunum 1963 til 1995 (síðasta árið sem Alþýðuflokkurinn bauð fram áður en hann rann inn í Samfylkinguna) var flokkurinn að meðaltali með um 14,3% atkvæða. Fékk mest 22% árið 1978 í glæsilegum kosningasigri en minnst 9% árið 1974.
Í síðustu fimm alþingiskosningum hefur Samfylkingin aldrei náð meðalfylgi Alþýðuflokksins fyrir utan vorið 2009, nokkrum mánuðum eftir fall bankanna. Það sama ár fengu Vinstri-grænir sína bestu kosningu eða 22%.
Augljóst er að Samfylkingin hefur ekki aðeins glatað stórum hluta fylgismanna gamla Alþýðuflokksins heldur einnig þess hluta Alþýðubandalagsins sem skipaði sér undir fána Samfylkingarinnar í upphafi. Dómurinn yfir Samfylkingunni er óvenjuharður, ekki síst þegar haft er í huga að flokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu í átta ár. Flest bendir til að eyðimerkurgangan haldi áfram í fjögur ár hið minnsta.
„Stjórnarandstaðan skíttapaði“
Í umræðum á samfélagsmiðlum er Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, skýr: „Stjórnarandstaðan skíttapaði einfaldlega kosningabaráttunni. Samfylkingin var afvelta eftir vetur innanflokksátaka þar sem vænsta fólki var rutt úr sætum og gersamlega tilefnislaus varaformannsslagur saxaði á limina hans Björns míns.“
Eftir átta ár í stjórnarandstöðu ríða Píratar ekki feitum hesti frá kosningunum. Kannski ekki við öðru að búast þegar helstu baráttumálin eru „ný stjórnarskrá“, borgaralaun sem skulu fjármögnuð með lántökum og veðsetningu komandi kynslóða, og stórkostleg útgjaldaloforð með skattahækkunum sem voru vitlaust reiknaðar og svo leiðréttar með því að „hóta“ enn frekari hækkun skatta.
Viðreisn er líkt og Samfylkingin að festast sem smáflokkur og þrátt fyrir að hafa bætt lítillega við sig er fylgið töluvert frá því sem það var þegar flokkurinn bauð fyrst fram. Baráttumál flokksins eiga lítið upp á pallborðið hjá kjósendum, hvorki tenging við evru eða aðild að Evrópusambandinu.
Sigurvegari
Vinstri-grænir geta verið þokkalega sáttir við sinn hlut – eru lítillega undir meðalfylgi frá upphafi eftir að hafa veitt ríkisstjórn forystu í fjögur ár. Ríkisstjórn sem reyndi verulega á þolrif flokksmanna með sama hætti og hún reyndi á margan sjálfstæðismanninn. Raunar er útkoman enn betri en virðist við fyrstu sýn, því í upphafi síðasta kjörtímabils sögðu tveir þingmenn VG skilið við flokkinn – fyrst óformlega með því að styðja ekki ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og síðar formlega með því að ganga til liðs við aðra flokka – Pírata og Samfylkinguna. Hvorugur flokkurinn naut þess í kosningum – þvert á móti.
Framsóknarflokkurinn styrkti stöðu sína verulega í kosningunum og hefur verið krýndur sigurvegari kosninganna. Fyrir fjórum árum fékk flokkurinn sína verstu útreið í yfir 100 ára sögu eða 10,7% atkvæða. Þá var glímt við fyrrverandi formann flokksins sem horfði hins vegar upp á hreint hrun síðasta laugardag. Eftir fjögur ár í stjórnarandstöðu missti Miðflokkurinn helming atkvæða sinna.
Á margan hátt rak Framsóknarflokkurinn forvitnilega og góða kosningabaráttu sem skilaði árangri. Þar var engin hugmyndafræði. Pólitísk stefnumál voru í aukahlutverki en fremur höfðað til fólks sem hefur ekkert á móti Framsókn án þess að hafa mikla sannfæringu. Með sama hætti var kosningabarátta Flokks fólksins árangursrík og oft á tíðum snjöll. Óháð því hvaða flokkar standa að baki nýrri ríkisstjórn er augljóst að þeir komast illa hjá því að horfa til þess árangurs sem Inga Sæland og samstarfsfólk hennar náðu.
Því er ekki að neita að sá er þetta skrifar gerði sér vonir um að Sjálfstæðisflokknum tækist að styrkja stöðu sína í kosningunum. Það kann að vera að slíkar vonir hafi verið óraunsæjar eftir átta ár í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn er leiðandi afl í stjórnmálum hér eftir sem hingað til og án hans verður aðeins fjölflokka glundroðastjórn mynduð.
Skýrt umboð
Með hliðsjón af úrslitum kosninganna væri fráleitt annað en að forystumenn stjórnarflokkanna létu reyna á það hvort ekki séu forsendur til að halda samstarfinu áfram. En það verður langt í frá einfalt. Þrátt fyrir allt er hugmyndafræðilegur ágreiningur verulegur, allt frá skipulagi heilbrigðiskerfisins til orkunýtingar og orkuöflunar, frá sköttum til ríkisrekstrar, frá þjóðgörðum til skipulagsmála, frá refsingum og þvingunum í loftslagsmálum til jákvæðra hvata og nýtingar tækifæra í orkuskiptum. Forystumenn stjórnarflokkanna þurfa að leiða ágreining í þessum málum og fleirum „í jörð“ ef ákveðið verður að endurnýja samstarfið. Niðurstöður kosninganna verða illa túlkaðar með öðrum hætti en þeim að til þess hafi formenn stjórnarflokkanna skýrt umboð meirihluta kjósenda.
Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn geta hins vegar horft fram hjá þeirri staðreynd að sameiginlega eiga þeir kost á að mynda þriggja flokka stjórn með fleirum en Vinstri-grænum; annaðhvort með Flokki fólksins eða Viðreisn. Og raunar einnig með Miðflokki en slík stjórn yrði með minnsta mögulega meirihluta. Sé litið til málefna er það einfaldara fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að mynda ríkisstjórn með Viðreisn eða Miðflokki en að halda góðu samstarfi við Vinstri-græna áfram. En svo getur Framsókn alltaf snúið sér til vinstri og tekið höndum saman við flokka sem eru „afvelta“ eftir kosningarnar.
Morgunblaðið, 29. sept. 2021