Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins:
Í dag veljum við hvernig samfélag við ætlum að byggja næstu fjögur árin.
Allt frá 2013 hefur það verið verkefni mitt á hverjum degi að vinna að aukinni velferð Íslendinga, greiða niður skuldir ríkissjóðs og viðhalda stöðugleikanum sem öllu skiptir fyrir heimilin og fyrirtækin.
Hærri laun, lægri skattar og léttari afborganir
Íslensk heimili finna að við erum á réttri leið. Það er auðveldara að láta mánaðamótin ganga upp. Launin hafa hækkað og skattarnir lækkað. Tugir þúsunda Íslendinga hafa endurfjármagnað húsnæðislánin með lægri vöxtum og léttari afborgunum. Í úttekt GRI sem birt var í vikunni kemur fram að það sé best að eldast á Íslandi, þriðja árið í röð.
Það land er vandfundið þar sem fólk býr við jafn mikinn kaupmátt, jöfnuður er óvíða meiri og tækifærunum fer stöðugt fjölgandi.
Tækifærin í vandamálunum
Okkur gengur vel, en við höfum líka ótal tækifæri til að gera enn betur. Við þurfum að halda áfram að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa. Til að það sé hægt þurfum við hins vegar frjálst og öflugt atvinnulíf.
Kjörin verða ekki bætt með því að hækka skatta, umbylta stjórnarskránni eða skuldsetja komandi kynslóðir fyrir útblásnum loforðum. Árangurinn næst ekki undir forystu fólks sem ávallt sér vandamál í tækifærunum, frekar en tækifæri í vandamálunum. Sjálfstæðisflokkurinn er eina kjölfestan sem kemur í veg fyrir fjölflokka vinstristjórn.
Gerum gott samfélag enn betra
Með Sjálfstæðisflokkinn í forystu munum við halda áfram að lækka skatta, bæta kjörin og byggja umhverfi þar sem fyrirtækin okkar blómstra, geta fjölgað starfsfólki og borgað hærri laun.
Við ætlum að styrkja okkar dýrmæta heilbrigðiskerfi með öflugu samstarfi hins opinbera og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks. Við munum áfram sækja fram af krafti í loftslagsmálum og ætlum að verða fyrst í heiminum til að skipta alfarið úr olíu í rafmagn og aðra innlenda orkugjafa. Markmiðin eru skýr og lausnirnar raunhæfar.
Sígandi lukka, stöðugleiki og ábyrgð. Þar liggur lykillinn að farsælli framtíð. Með bjartsýni og trú á framtíðina að vopni gerum við gott samfélag enn betra.
Greinin birtist á visir.is 25. september 2021.