Nýtum tækifærin
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Við búum sem bet­ur fer við góð lífs­kjör hér á landi. Lífs­gæði hér eru með þeim mestu í heimi, ham­ingja þjóðar­inn­ar mæl­ist hátt, sam­fé­lags­innviðir okk­ar eru sterk­ir, jöfnuður er mik­ill, fé­lags­legt ör­yggi er mikið og það sama gild­ir um al­mennt ör­yggi. Kaup­mátt­ur launa hækkaði í fyrra þrátt fyr­ir heims­far­ald­ur og þá hafa ráðstöf­un­ar­tekj­ur auk­ist tölu­vert á und­an­förn­um árum. Við höf­um, í fyrsta skipti í sög­unni og þrátt fyr­ir gíf­ur­legt efna­hags­legt högg af völd­um far­ald­urs­ins, náð þeim ár­angri að halda hag­kerf­inu og vöxt­um í jafn­vægi. Það hef­ur síðan bein og já­kvæð áhrif á fjár­mál heim­ila og fyr­ir­tækja. Það skipt­ir máli.

Við búum í landi þar sem jafn­rétti kynj­anna er með því besta sem ger­ist í heim­in­um, við höf­um aðgengi að fjöl­breyttri mennt­un og at­vinnu­tæki­fær­um, at­vinnuþátt­taka er með því hærra sem ger­ist og okk­ur hef­ur tek­ist að búa til öfl­ugt vel­ferðar­kerfi sem gríp­ur þau sem þurfa á því að halda. Það skipt­ir máli.

Við búum svo vel að hafa aðgang að auðlind­um sem eru til þess fall­in að auka enn frek­ar við hag­sæld hér á landi, hvort sem litið er til sjáv­ar­af­urða sem færa okk­ur út­flutn­ings­verðmæti, ný­sköp­un og tækniþróun, orku­auðlinda sem hjálpa okk­ur að fram­leiða end­ur­nýj­an­lega og um­hverf­i­s­væna orku, nátt­úru sem við njót­um ým­ist sjálf eða með er­lend­um ferðamönn­um sem hingað koma og þannig mætti áfram telja. Það skipt­ir máli.

Við lif­um eft­ir sterk­um gild­um sem hafa fært okk­ur hag­sæld og tæki­færi til að gera enn bet­ur. Með metnaði, hug­mynda­vinnu og léttu viðmóti til al­var­leika lífs­ins hef­ur okk­ur tek­ist að búa til þau lífs­kjör sem hér hafa verið nefnd og þá hag­sæld sem við njót­um. Við vit­um hvernig það er að tak­ast á við erfiðleika, erfiðar aðstæður og áskor­an­ir sem fylgja því að búa hér á Íslandi, hvort sem horft er til nátt­úr­unn­ar eða fé­lags­legra þátta, en alltaf hef­ur okk­ur tek­ist að gera meira og bet­ur. Það skipt­ir máli.

Ísland er svo sann­ar­lega land tæki­fær­anna en ekk­ert af þessu ger­ist af sjálfu sér. Í þess­um raun­veru­leika þarf að hafa skýra sýn á framtíðina, skiln­ing á því hvernig hag­kerfið virk­ar og þekk­ingu á því mik­il­væga hlut­verki sem felst í því að veita þjóðinni for­ystu. Það skipt­ir máli.

Við vilj­um stefna lengra, gera bet­ur í dag en í gær og tryggja hag okk­ar og framtíðarkyn­slóða sem best. Það ger­um við ekki með því að draga upp ranga mynd af stöðu mála eða tala með óá­byrg­um hætti um stjórn­mál eða efna­hags­mál – held­ur með því að sýna ábyrgð og festu og nýta þau tæki­færi sem fyr­ir okk­ur liggja, eins og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn boðar.

Við höf­um tæki­færi til þess að sýna það í verki í kjör­klef­an­um þegar við göng­um til kosn­inga. Við trú­um því að Ísland sé land tæki­fær­anna og und­ir for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins ætl­um að nýta þau tæki­færi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. september 2021.