Haraldur Benediktsson alþingismaður:
Mjög víða er skortur á farsímasambandi á vegum landsins. Margir vegkaflar eru ýmist alveg án eða með takmarkað farsímaþjónustu. Sú staða er ólíðandi til lengdar þar sem vegfarendur og viðbragðsaðilar treysta í sífellt meiri mæli á farsímasamband. Vissulega hafa markaðsaðilar byggt upp farsíma- og farnetskerfi á liðnum árum með eða án stuðnings frá ríkinu, sem ná til stærsta hluta vegakerfisins. Sú uppbygging og þjónusta er í raun aðdáunarverð á svo strjálbýlu, fjöllóttu og vogskornu landi. Við upplifum flest sem erum á ferðinni hve kerfið er götótt. Það er auðvitað óviðunandi. Einu viðbrögðin sem ég tel boðleg, sé fullreynt að ná betri árangri hratt og vel í gegnum regluverkið, er að stjórnvöld láti sig málið varða með beinum og skipulögðum hætti um land allt.
Í nýlegu samráðsskjali Fjarskiptastofu er að finna metnaðarfullar hugmyndir að uppbyggingu á slitlausu farneti gagnvart helstu stofnvegum og öðrum tilteknum vegum um landið. Einn valkostur fyrir stofnunina væri að gera þá uppbyggingu að skilyrði í tengslum við langtímaúthlutun á tíðniheimildum til farsímafyrirtækjanna sem fram fer á næstu misserum. Eins vel og það hljómar, þá tel ég það ekki ásættanlegan framkvæmdatíma í slíkri uppbyggingu og ekki síður hvað eigi að gera til að bæta úr þjónustuleysi á öðrum „mikilvægum“ vegum á landsbyggðinni svo sem fjölmörgum tengivegum. Þar verður pólitíkin að láta sig varða, hve hratt og hve mikil útbreiðsla er ásættanleg.
Stjórnvöld og markaðsaðilar geta vel unnið saman að því að koma farsíma- og farnetssambandi á vegum landsins í betra horf til framtíðar. En er ekki að verða fullreynt að með núverandi aðferð mun þetta ekki nást? Ein leið væri að fela Fjarskiptasjóði að greina viðfangsefnið í samvinnu við aðra hagsmunaaðila og fjármagna a.m.k. hluta uppbyggingar gagnvart vegum sem eigin markaðsáform fjarskiptafyrirtækjanna og úrræði Fjarskiptastofu munu ekki ná til. Þannig væri hægt að ná utan um allt verkefnið.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á liðnum árum stuðlað farsællega að ljósleiðaravæðingu og jarðstrengjavæðingu alls dreifbýlis. Sú uppbygging er komin vel á veg og mun nýtast víða til að tengja nýja farsímaaðstöðu gagnvart vegum við veiturafmagn og fjarskiptakerfi hagkvæmar en ella. Þörf er á landsátaki í farsíma- og farnetþjónustu gagnvart vegakerfi landsins. Hæglega má nálgast það verkefni frá nokkrum hliðum samtímis í mismunandi samspili fyrirtækja og opinberra aðila ef viljinn er fyrir hendi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. september 2021.