Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Það er umhugsunarefni hve efnahagsmál hafa fengið litla athygli í kosningabaráttunni. Auðvitað hefur þar áhrif að okkur hefur gengið vel að glíma við efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins.
Efnahagslífið varð fyrir miklu höggi en áhrifin voru milduð eins og kostur var og búið svo um hnútana að viðspyrna næðist aftur sem fyrst. Allt bendir til að það sé að takast. Þvert á ýmsar spár hefur kaupmáttur aukist, atvinnuleysi minnkað hratt og hagvöxtur hefur tekið við sér. Jákvæð þróun sést því víða og góðar forsendur fyrir batnandi hag bæði heimila og fyrirtækja.
Jákvæð merki en viðkvæm staða
Staðan er hins vegar viðkvæm. Ríkissjóður kemur mjög skuldsettur út úr kreppunni. Sú staða þýðir að við verðum að nálgast efnahagsmálin af sérstakri varfærni.
Margir gera ráð fyrir að við munum „vaxa út úr vandanum“. Það er gott svo langt sem það nær. Forsenda þess að efnahagslífið nái sér á strik, að unnt verði að greiða niður skuldir og bæta þjónustu hins opinbera, er auðvitað kröftugur hagvöxtur, aukin verðmætasköpun og aukning útflutningstekna. Ef þetta er ekki í lagi er auðvitað tómt mál að tala um að „vaxa út úr vandanum“ og öll stóru og dýru kosningaloforðin verða innistæðulaus.
Árangurinn er nefnilega ekki sjálfgefinn. Atvinnulífið er sem betur fer öflugt þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Það mun hins vegar ekki standa undir áframhaldandi lífskjarabata nema réttu skilyrðin séu fyrir hendi. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn lagt áherslu á að draga úr skattheimtu og reglubyrði til að auka svigrúm atvinnulífsins. Af sömu ástæðu höfum við lagt áherslu á ábyrga ríkisfjármálastefnu því hún ræður miklu um hinar efnahagslegu forsendur. Þá höfum við líka lagt áherslu á stöðugleika við stjórn landsins enda sýnir reynslan að pólitískur óróleiki hjálpar engum, hvorki á efnahagssviðinu né á öðrum sviðum þjóðlífsins.
Skuldsetning og skattahækkanir leysa engan vanda
Um leið hljótum við að vara við hugmyndum um stórfellda aukningu ríkisútgjalda. Það að keyra upp útgjöldin með óábyrgri skuldsetningu getur ekki endað nema á einn veg. Við vörum jafnframt við hugmyndum um skattahækkanir á fólk og fyrirtæki, sem alltaf eru til þess fallnar að draga úr slagkrafti efnahagslífsins. Við höfnum líka hugmyndum um að stjórnmálamenn og embættismenn séu best til þess fallnir að ákveða í smáatriðum hvernig fyrirtækin eigi að haga starfsemi sinni, áherslum og fjárfestingum, umfram það að fylgja lögum og almennum leikreglum.
Sjálfstæðisflokkur eða vinstri glundroði
Á þessu sviði er skýr munur á hugmyndum Sjálfstæðisflokksins og vinstri flokkanna. Munurinn er líka skýr þegar kemur að viðhorfinu til pólitísks og stjórnarfarslegs stöðugleika. Það skiptir miklu í sambandi við hugmyndir manna um stjórnarmyndun að kosningum loknum. Eins og kosningabaráttan hefur þróast blasir við að í þeim efnum eru bara tveir raunverulegir kostir í boði; annars vegar þriggja flokka ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er kjölfestan og hins vegar fjögurra til sex flokka vinstri stjórn. Ég læt lesendum eftir að meta hvort slíkt stjórnarmynstur sé líklegt til að stuðla að pólitískum og efnhagslegum stöðugleika.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2021.