Óli Björn Kárason alþingismaður:
Skoðanakannanir geta verið ágæt vísbending um fylgi stjórnmálaflokka. Á grunni þeirra er hægt að teikna upp mynd af þeim möguleikum sem fyrir hendi eru við myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum. Allt með þeim fyrirvörum að skoðanakannanir eru ekki niðurstaða kosninga.
Fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins síðasta laugardag – viku fyrir kosningar – var afgerandi: „Vinstri sveifla þegar vika er eftir“. Að baki fyrirsögninni var skoðanakönnun MMR og á grunni hennar og tveggja síðustu kannana upplýsti Morgunblaðið í upphafi vikunnar að enginn möguleiki væri á myndun ríkisstjórnar þriggja flokka, hvað þá tveggja. Tölfræðilega eru sjö 4-flokka ríkisstjórnir mögulegar og átta 5-flokka stjórnir, flestar yrðu á veikum grunni en margar eru pólitískt útilokaðar.
En þótt tölfræði hugsanlegra ríkisstjórna sé fremur í ætt við samkvæmisleik í aðdraganda kosninga en raunveruleika stjórnmálanna, gefur hún ágæta vísbendingu um þá valkosti sem kjósendur standa frammi fyrir: Fjölflokka vinstri stjórn eða ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn sem kjölfestu.
Rússíbanareið
Að þessu leyti er valið skýrt á kjördag. Sjálfstæðisflokkur eða fimm flokka vinstri stjórn, eins konar útfærsla á meirihluta borgarstjórnar í Reykjavík, með þátttöku Framsóknarflokksins sem hefur áður rutt braut fyrir vinstri stjórn.
Sá málefnabræðingur sem gera verður til að byggja undir fjölflokka vinstri stjórn getur ekki orðið annað en leiðarvísir að efnahagslegri og pólitískri óvissuferð. Rússíbanareið fyrir fólk og fyrirtæki. Í viðtali við Dagmál á mbl.is fyrir skömmu varaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, réttilega við því „að slík stjórn muni missa tökin á efnahagsmálunum, því viðvörunarmerkin eru þegar komin, t.d. frá Seðlabankanum, um að menn verði að stilla opinberu fjármálin við stöðuna í hagkerfinu“.
Þekktir „áfangastaðir“
En til að gæta allrar sanngirni þá býður vinstri stjórn ekki upp á fullkomna óvissuferð. Við vitum hvað er í vændum, við vitum hvert verður stefnt. Óvissan er fyrst og fremst um hversu alvarlegar afleiðingarnar verða. Hversu hár reikningurinn verður á endanum fyrir fólk og fyrirtæki í formi verri lífskjara og afkomu.
Með hliðsjón af sögunni og stefnumálum þeirra flokka sem gætu tekið höndum saman í fimm flokka vinstri ríkisstjórn, þekkjum við nokkra fyrirfram ákveðna „áfangastaði“ í óvissuferðinni:
Skattar á fólk hækka.
Ráðstöfunartekjur launafólks lækka.
Skattar á fyrirtækin hækka.
Ríkisútgjöld stóraukast.
Fjárfesting dregst saman.
Verðbólga eykst og vextir hækka.
Efnahagslegur óstöðugleiki.
Pólitískur glundroði.
Það er undir kjósendum komið hvort farið verður í óvissuferð vinstri flokkanna eða byggt áfram á stöðugleika, lægri sköttum og frjóum jarðvegi fyrir öflugt atvinnulíf með nýjum landvinningum í nýsköpun og framþróun. Vilji kjósendur fremur fyrri kostinn skiptir í raun litlu hvaða flokk þeir kjósa næsta laugardag. Standi hugur kjósenda hins vegar til þess að tryggja stöðugleika og byggja upp bætt lífskjör fyrir alla er Sjálfstæðisflokkurinn eina kjölfestan sem er í boði.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. september 2021.