Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Nú liggur fyrir að tíu stjórnmálaflokkar og -framboð hafa lagt fram lista í öllum kjördæmum landsins. Þessi fjöldi er í sjálfu sér ekkert einsdæmi. Undanfarin ár hefur flokkum, sem eiga raunhæfa möguleika á þingsætum, fjölgað og eru á því ýmsar skýringar, sem ekki verður farið nánar út í hér. Í dag eiga átta flokkar fulltrúa á Alþingi og ef eitthvað er að marka skoðanakannanir gæti þessi fjöldi haldist og jafnvel einn bæst við.
Að sumu leyti flækir þetta stöðuna á hinum pólitíska vettvangi. Allar umræður í aðdraganda kosninga verða ómarkvissari en ella þegar fulltrúar tíu flokka keppa um athyglina, hver um sig talar út frá sínum forsendum og lítill tími gefst til rökræðna eða dýpri umræðna um einstök málefni eða tillögur. Þetta sést vel á sameiginlegum framboðsfundum, umræðuþáttum í ljósvakamiðlum og á öðrum þeim vettvangi, þar sem flokkum og framboðum gefst kostur á að kynna sig.
Fleiri flokkar – flóknari vígstaða
Þessi fjöldi flokka hefur líka að sjálfsögðu áhrif á þingi eins og reynsla undanfarinna ára sýnir. Stjórnarmyndanir verða flóknari en oft var hér áður fyrr og geta kallað á fleiri málamiðlanir. Þessi staða leggur líka þá ábyrgð á herðar forystumönnum í stjórnmálum að vera tilbúnir til að leggja til hliðar ýtrustu kröfur og vera færir um að vinna með öðrum að brýnum sameiginlegum verkefnum, jafnvel þótt þeir eigi sér ólíkan bakgrunn og nálgist málin út frá ólíkum hugmyndafræðilegum grundvelli. Stjórnmál eru list hins mögulega og þeir sem vilja hafa raunveruleg áhrif verða að taka ákvarðanir sínar út frá raunhæfu mati á aðstæðum en ekki óskhyggju. Þeir sem nálgast málin með því að setja öðrum úrslitakosti, gera kröfur um allt eða ekkert og útiloka samstarfsmöguleika fyrirfram eiga á hættu að dæma sig úr leik.
Sumir telja að þessi flokkafjöldi í kosningunum og óhjákvæmilegar málamiðlanir við stjórnarmyndun geri valkosti kjósenda óskýra. Í slíkum fullyrðingum er vissulega ákveðið sannleikskorn, sérstaklega ef staðan hér er borin saman við lönd sem búa við rótgróið tveggja flokka kerfi eða fastmótaða blokkamyndun til hægri og vinstri eins og algengt er annars staðar á Norðurlöndum. Sá veruleiki, sem við horfumst í augu við, leiðir til þess að flokkar verða að vera tilbúnir til að vinna þvert yfir hinar hefðbundnu pólitísku línur, eins og reynsla undanfarinna ára sýnir. Og reynslan sýnir líka að það er hægt og getur skilað góðum árangri fyrir land og þjóð.
Styrkleiki flokkanna skiptir máli
En geta þá kjósendur með engu móti áttað sig á því á hverju er von eftir kosningar? Skiptir þá engu máli hvernig kjósendur haga vali sínu því útkoman verður alltaf einhver samsuða? Þessu neita auðvitað allir flokkar og frambjóðendur og hafa raunverulega mikið til síns máls. Styrkleiki flokka að kosningum loknum og skipting þingsæta skiptir auðvitað höfuðmáli um það hvernig ríkisstjórn verður hægt að mynda og hverjar verða áherslur stjórnarmeirihlutans á næsta kjörtímabili. Það skiptir máli hvaða einstaklingar veljast til þingsetu og hversu sterk staða einstakra flokka og forystumanna þeirra er þegar úrslit kosninga liggja fyrir.
Sterkur Sjálfstæðisflokkur eða vinstristjórn
Að þessu leyti eru valkostir kjósenda býsna skýrir í þessum kosningum. Og þetta eru í sjálfu sér ekki óvæntir eða nýstárlegir valkostir. Þeir eru í grundvallaratriðum þeir sömu og í mörgum undanförnum kosningum. Eins og sakir standa virðist tveggja flokka ríkisstjórn ekki raunhæfur möguleiki en eins og stundum áður geta kjósendur valið milli þriggja flokka ríkisstjórnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er kjölfestan og hins vegar fjögurra til sex flokka vinstristjórnar. Sumir flokkar á vinstri vængnum stefna opinskátt að síðari kostinum. Aðrir, sem staðsetja sig á miðjunni, halda þeim möguleika opnum að taka þátt í slíkri stjórnarmyndun þótt þeir gæti sín á því núna að brosa til skiptis til hægri og vinstri.
Þetta þýðir að þeir kjósendur sem raunverulega vilja að hér verði mynduð fjögurra til sex flokka vinstristjórn eiga vissulega kost á því að velja á milli ýmissa flokka. Þeir kjósendur, sem á hinn bóginn kæra sig ekki um þá niðurstöðu, eiga hins vegar bara einn raunhæfan valkost. Að því leyti gæti hin pólitíska staða varla verið skýrari.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. september 2021.