Óli Björn Kárason alþingismaður:
Auðvitað er ekkert óeðlilegt að hagsmunasamtök, sem berjast fyrir framgangi mála fyrir hönd félagsmanna, nýti tækifærin í aðdraganda kosninga og krefji stjórnmálaflokka og frambjóðendur um afstöðu þeirra. Oft eru málefnin brýn – réttlætismál sem stundum falla í skuggann af öðrum sem litlu skipta en fanga huga fjölmiðla og stjórnmálamanna í daglegu þrasi þar sem aukaatriði leika aðalhlutverkið.
Skömmu fyrir kosningarnar 2016 hélt ég því fram, hér á þessum stað, að yfirskrift margra funda sem hagsmunasamtök af ýmsu tagi boða til með frambjóðendum gæti verið: „Hvaða ætlar þú að gera fyrir mig – fyrir okkur?“ Fundirnir hefðu margir fremur yfirbragð uppboðsmarkaðar kosningaloforða en funda um stefnumál flokkanna. Frambjóðendum er stillt upp við vegg. Lófaklapp og hvatningu fá aðeins þeir sem mestu lofa. Frambjóðandi sem sparar loforðin og á engar kanínur í hatti sínum, fær kuldalegar móttökur, jafnvel fjandsamlegar. Er nema furða að einhverjir freistist til að bregða sér í gervi töframannsins í leit að einhverju – ef ekki kanínu þá bara einhverju öðru – til að draga upp úr hattinum.
Hugmyndafræði í FG
Kosningabarátta að þessu sinni markast eðlilega af þeim takmörkunum sem settar hafa verið vegna kórónuveirunnar (réttlæting fyrir þeim verður sífellt léttvægari). Fundir eru færri, stundum hreinir fjarfundir. Það var því gott að geta mætt í Fjölbrautaskólann í Garðabæ [FG] á stefnumót við nemendur ásamt fulltrúum allra flokka sem bjóða fram í Suðvesturkjördæmi. Nemendurnir gátu átt samtal við okkur frambjóðendur beint, rökrætt við okkur, spurt og gengið á eftir hreinskiptum svörum.
Það verður að viðurkennast að það kom mér þægilega á óvart að ekki einn einasti nemandi sem ég ræddi við, var upptekinn af eigin hagsmunum. Einn vildi ræða um stjórnarskrá, nokkrir höfðu áhuga á því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn vildi skipuleggja heilbrigðiskerfið, þrjár ungar konur brunnu fyrir orkuskiptum og möguleikum okkar Íslendinga á komandi árum. Enginn hafði áhuga á að ræða sérstaklega um námslán eða húsnæðismál námsmanna.
Ekki einn einasti nemandi krafðist þess að fá að vita hvað Sjálfstæðisflokkurinn „ætli að gera fyrir mig“, en margir vildu vita fyrir hvað Sjálfstæðisflokkurinn stæði, hver væri hugmyndafræði flokksins.
Svar mitt var einfalt: „Við trúum á ykkur, hvert og eitt ykkar. Við viljum tryggja að þið getið notið hæfileika ykkar og dugnaðar. Við lítum á það sem skyldu okkar að ryðja úr vegi hindrunum svo þið getið látið drauma ykkar rætast.“
Unga fólkið í FG var ekki fast í smáatriðum, ekki blint á samfélagið vegna eigin hagsmuna. Það vildi komast að kjarna málsins. Það hefur minni þolinmæði en margir aðrir fyrir stóryrðum eða fögrum loforðum stjórnmálamanna sem lofa öllum gulli og grænum skógum. Kanínur eru ekki heillandi í hugum þessa unga hæfileikaríka fólks.
Hugmyndafræðilegur þorsti
Fátt er meira gefandi en að ræða hugmyndafræði fyrir stjórnmálamann sem byggir hugsjónir sínar á trúnni á manninn, hæfni einstaklingsins til þess að stjórna sér sjálfur og leita að eigin lífshamingju án þess að troða öðrum um tær. Mér finnst ég skynja hugmyndafræðilegan þorsta hjá ungu fólki, ekki aðeins hjá nemendum í FG heldur um allt land. Fyrir stjórnmálaflokk sem hefur átt öfluga hugmyndafræðinga og forystumenn sem meitlað hafa hugsjónirnar frelsis og framtaks, er jarðvegurinn því frjór. Kisturnar eru fullar af verkfærum fyrir frambjóðendur.
Tækifæri talsmanna Sjálfstæðisflokksins til að ræða um hugmyndafræði hafa líklega ekki verið betri í áratugi. Þeir geta talað af sannfæringu fyrir takmörkuðum ríkisafskiptum, lágum sköttum og auknu frelsi einstaklinganna. Allt er þetta ofið saman við áherslu á fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna, öflugt almannatryggingakerfi og gott heilbrigðiskerfi sem þjónar öllum óháð efnahag.
Það er ekki ónýtt fyrir frambjóðendur að eiga samtal við kjósendur og skýra út hvernig Sjálfstæðisflokkurinn byggir á frjálslyndri íhaldsstefnu og róttækri markaðshyggju með áherslu á valddreifingu, frelsi einstaklingsins, opna stjórnsýslu og upplýsingafrelsi. Um leið átta kjósendur sig á því að frambjóðendur flokksins eru ekki allir steyptir í sama mót. Hafa misjafnar skoðanir á einstökum málum, en sameinast í grunnhugsjón um frelsi einstaklingsins og hafa tekið höndum saman undir merkjum stjórnmálaflokks sem myndar farveg fyrir samkeppni hugmynda og skoðana.
Slíkar hugsjónir fara ekki á uppboðsmarkað, hvorki fyrir eða eftir kosningar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. september 2021.