Haraldur Benediktsson alþingismaður og frambjóðandi í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og Magnús Magnússon frambjóðandi í 7. sæti í Norðvesturkjördæmi:
Með samstilltu átaki tókst okkur Íslendingum að stórefla og bæta fjarskipti í sveitum landsins. Rannsókn sem gerð var fyrir fjarskiptasjóð dró fram hversu mikla þýðingu það verkefni hefur haft fyrir lífsgæði, tekjumöguleika og byggðafestu í dreifbýli um land allt.
Næsta skref sem, reyndar er löngu tímabært að farið verði í, er að endurbæta vegina í dreifbýlinu. Fátt eflir betur og stækkar atvinnu- og þjónustusvæði dreifðra byggða en góðir vegir. Sveitarfélög hafa sameinast og stækkað. Góðir áfangar hafa náðst í vegabótum, en það má gera betur. Fyrir fólkið, íbúana, skipta greiðar samgöngur höfuðmáli. Frá mörgum heimilum í sveitum er sótt atvinna og börnum er ekið til skóla og er oft um langan og stundum vondan veg að fara. Stórum hluta af skóladeginum getur í sumum tilvikum verið varið í bíl. Á flestum bæjum er atvinnustarfsemi, búskapur, ferðaþjónusta, sem þarf að reiða sig á góða vegi.
Fátt skiptir meira máli til að sækja enn frekar fram um eflingu sveitarfélaga og samfélaga en betri samgöngur og góðir vegir. Líklega má segja að viðhorf fólks til frekari sameiningar sveitarfélaga snúist um úrbætur á vegum – að það sé til einhvers að efla byggðina með raunverulegum aðgerðum sem bæta búsetuskilyrði.
Fjármagn til endurbóta á tengivegum hefur aukist verulega á kjörtímabilinu sem nú er að renna sitt skeið. Það hefur þokast af stað – og með því aukist bjartsýni um úrbætur. Ein af áherslum Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar er um framkvæmdir við tengivegi.
En það er langt í land að nauðsynlegar lagfæringar tengivega séu í sjónmáli fyrir mörg byggðarlög. Til þess þarf nýja hugsun. Ekki síst til að fólk, við íbúarnir, öðlumst trú á að eitthvað muni gerast.
Tvöföldun fjármagns til tengivega var baráttumál okkar margra á kjörtímabilinu. Við höfum lagt allt kapp á að sú aukning verði til lengri tíma en nú er áætluð.
En við þurfum nýja hugsun
Endurskoða þarf í þessu sambandi flokkun vega. Víða eru tengivegir í raun stofnvegir. Aðrir tengivegir eru í raun ferðavegir, vegir sem eru ferðaþjónustunni mikilvægir. Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem mest hefur bætt afkomu dreifðra byggða undanfarin ár. Við þurfum að endurmeta flokkun vega. Setja tengivegi í tvo flokka: Tengivegir eitt verði þeir umferðarþungu sem eru í raun stofnvegir byggðarinnar. Tengivegir tvö verði umferðarminni vegir, sem eru byggðinni mikilvægir og skólabörn, atvinnusókn og atvinnurekstur sveitanna reiða sig á. Þá vegi mætti kalla samfélagsvegi. Með slíkri flokkun færist sjónarhornið á fáfarnari vegi, þungi umræðu og ákvarðanatöku verður ekki eingöngu um ferðamannavegi og aðra fjölfarna vegi.
Ef við horfum til átaks um tengivegi tvö má enn og aftur ræða um kröfur til þeirra og kostnað við endurbætur. Það ættu ekki allir vegir að þurfa fulla breidd eða aðra þá þætti sem eru kostnaðarsamir. Enda ekki um umferðarþunga vegi að ræða. Tengivegir tvö eru samfélagsvegir, þar sem við endurbætum til lengri tíma vegi sem í dag eru oftar en ekki malarvegir með lágmarks- eða næstum engu viðhaldi.
Samfélagsvegi á að endurbæta í samstarfi við sveitarfélög. Landshlutasamtök sveitarfélaga innan NV-kjördæmis hafa undanfarin ár lagt mikla vinnu og umræðu í samgöngumál. Á þeirra borði liggja greiningar og forgangsröðun. Það er mikilvægt að virkja þeirra þekkingu á nærsamfélögum sínum.
Samfélagsvegi í tengivegaflokki tvö má hugsa sem næsta átak okkar í byggðafestu – rétt eins átak í lagningu ljósleiðara var – sem tókst. Þó ekki með fjármagni sveitarfélaganna eða íbúa heldur með því að skipulagsvald þeirra og þekking á þörfum sé hluti af verkefninu. Það ætti til að mynda ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að sveitarfélög verði á einhvern hátt hluti af átakinu sé það komið á skrið og fjármunir tryggðir til lengri tíma. Þau ættu, mögulega í samstarfi við verktaka sem veljast til framkvæmda, að flýta sem mest framkvæmdum, sé þess kostur.
Um fjármögnun mætti horfa til nokkurra þátta. Gleymum ekki að fyrir dyrum stendur að endurskoða skattlagningu umferðar. Núverandi fjármögnun byggist á eldsneytissköttum en ekki notkun veganna. Nýir orkugjafar í samgöngum hafa ekki að sama skapi lagt til vegagerðar, þann vinkil þarf að endurhugsa. Hvaða form sem verður á endurskoðaðri skattlagningu koma notkunargjöld einnig til skoðunar. Nú er ákveðið að sumar samgönguframkvæmdir verði að hluta fjármagnaðar með slíkum gjöldum.
Núverandi malarvegir þurfa viðhald, heflun og rykbindingu. Einstaka sinnum með ofaníburði. Mætti ekki horfa til að verja því fjármagni til fjármögnunar á endurbótum samfélagsvega þannig að síendurtekinn kostnaður vegna heflunar og rykbindingar verði nýttur á samfélagslega hagkvæmari hátt þannig að við losnum við reglulegt viðhald í stað þess að leggja bundið slitlag?
En hvernig sem við röðum saman slíkri fjármögnun þýðir átakið að horfa verður til verulegra fjárframlaga frá hinu opinbera meðan á átakinu stendur. Hér er sett fram sú hugmynd að leggja til einn milljarð á hvert svæði vegagerðar í landinu sem væri beint til þessa mikilvæga átaks til að efla byggðir um landið. Það er einmitt mikilvægt að við ræðum slíkt átak – á sama tíma og ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa ákveðið að ráðast í samgönguátak þar. Samsvarandi átak fyrir sveitir landsins er því eðlilegt framhald. Allt miðar að því að efla innviði og bæta lífsskilyrði íbúanna. Það sem heitir höfuðborgarsáttmáli er fyrirmyndin að átaki í endurbótum samfélagsvega. Mætti nefna það sveitalínuna. Rétt eins og með höfuðborgarsáttmálann má horfa til þess að losa um eignir ríkisins til að fjármagna átakið.
Átakið er fjárfesting til aukins hagvaxtar. Það er mikilvægt að halda áfram að fjárfesta í betri samgöngum, því rétt eins og ljósleiðaraverkefnið hefur þegar sannað, þá eykst hagsæld í kjölfarið.
Við erum ekki í vafa um að átakið getur skipt sköpun um vilja og viðhorf íbúa til sameiningar sveitarfélaga og eflingar byggðar.
Sveitalínan er málið!
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2021.