Að láta verkin tala
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra

Í dag eru tvö ár liðin frá því ég tók við embætti dómsmálaráðherra. Kjörtímabilið var þá hálfnað og ljóst að það þyrfti að bretta upp ermar til að ná markverðum breytingum í anda Sjálfstæðisstefnunnar áður en kjörtímabilinu lyki. Við réðumst meðal annars í stórsókn í stafrænni þróun undirstofnana ráðuneytisins og breyttum lögum þannig að foreldrar gætu samið um að skipta búsetu barna. Hvoru tveggja voru löngu tímabær mál.

Verkefnin hafa sannarlega verið fjölbreytt. Þegar ég tók við embætti ríkti upplausnarástand á meðal æðstu stjórnenda lögreglunnar. Undið var ofan af þeim deilum, lögregluráð stofnað og hlutverk ríkislögreglustjóra skýrt. Fjárfest var í tækjum og búnaði til að lögreglan gæti betur tekist á við æ flóknari glæpi og breytt skipulag innan lögreglunnar hefur verið þýðingarmikið í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Ávallt koma upp mál sem ekki verða séð fyrir. Þess var heldur ekki lengi að bíða að óvæntir atburðir skytu upp kollinum. Heimsfaraldur hefur geisað nær allan minn tíma í ráðuneytinu. Eftir að hátt bólusetningarhlutfall landsmanna gjörbreytti baráttunni við veiruna til hins betra vildi ég vera talsmaður þess að stíga varfærin, en örugg skref inn í það þjóðfélag frelsis og efnahagslegrar velsældar sem við viljum búa við. Önnur atvik, svo sem óveður, snjóflóð, jarðhræringar og eldgos hafa sett mark sitt á störf mín í ráðuneytinu en þó hefur okkur tekist að koma margvíslegum framfaramálum í höfn.

Þannig má nefna ýmsar breytingar á löggjöfinni sem allar miða að því að bæta stöðu brotaþola í breyttum heimi. Gerðar voru mikilvægar breytingar á mansalsákvæði almennra hegningarlaga, breytingar á lögum til þess að tryggja fólki frekari réttarvernd gagnvart stafrænu kynferðisofbeldi og ákvæði um umsáturseinelti var fest í lög. Þyrlufloti Landhelgisgæslunnar var endurnýjaður og nýtt varðskip verður kynnt til sögunnar á næstunni. Skipinu var valið nafnið Freyja og verður gert út með heimahöfn úti á landi. Þegar Freyja bætist í flotann í næsta mánuði má fullyrða að Landhelgisgæslan hafi aldrei verið eins vel tækjum búin til að sinna mikilsverðum verkefnum sínum.

Ég hef tæpt hér á nokkrum málum en sleppt öðrum sem þó væri vert að gera nánari skil, eins og vinnu við styttingu boðunarlista í fangelsin og miklar framkvæmdir sem fyrir dyrum standa á Litla-Hrauni.

Margvísleg verkefni bíða úrlausnar í okkar samfélagi. Undangengin tvö ár hef ég leitast við í mínu starfi að einfalda líf fólks og fyrirtækja, færa löggjöfina inn í nútímann og efla innviði mikilvægra undirstofnana. Stefna Sjálfstæðisflokksins er sú stefna sem skilar okkar hratt og örugglega í átt að einfaldara og betra samfélagi. Við látum verkin tala, hér eftir sem hingað til.

Morgunblaðið, 6.sept. 2021