Kjartan Magnússon, frambjóðandi í 4. sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður:
Nýr herkastali Hjálpræðishersins var vígður við hátíðlega athöfn í Sogamýri sl. sunnudag. Við vígsluna kom fram að samtökin munu áfram byggja á þeim hugsjónum, sem hafa verið leiðarljós þeirra í meira en öld. Með nýja húsnæðinu ætla þau enn að efla starf sitt í þágu bágstaddra Reykvíkinga.
126 ár eru nú liðin síðan Hjálpræðisherinn hóf starfsemi sína í miðbæ Reykjavíkur, sem var þá ört vaxandi bær. Árið 1895 voru Íslendingar líklega fátækasta þjóð Vestur-Evrópu. Áratugina á undan hafði fjöldi fólks flosnað upp úr sveitum landsins vegna harðinda og fátæktar. Margir fluttu til Reykjavíkur en áttu þar vart til hnífs og skeiðar. Mikil þörf var því fyrir fátækrahjálp í bænum en lítið fór fyrir henni því þetta var löngu áður en opinberri velferðarþjónustu var komið á.
Frumkvöðull í hjálparstarfi
Það var við þessar aðstæður sem Hjálpræðisherinn hóf umfangsmikið hjálparstarf í Reykjavík og boðaði auk þess fagnaðarerindið. Heimilislaust fólk fékk mat og húsaskjól auk margvíslegrar annarrar þjónustu. Lengi vel var hjálparstarf Hersins mun umfangsmeira en sú þjónusta, sem bæjarfélagið veitti ógæfumönnum og öðru bágstöddu fólki.
Ég var ekki hár í loftinu þegar ég fór að venja komur mínar í miðbæinn. Ógæfumenn voru þá fleiri og meira áberandi en nú. Margir þeirra áttu ekki neitt en hjá Hernum gátu þeir alltaf fengið fæði, húsaskjól og sáluhjálp. Stundum sá maður fólk frá Hernum hjálpa þessum mönnum á fætur þar sem þeir lágu ofurölvi og ósjálfbjarga og styðja þá í kastalann þar sem beið heitur matur og hlýtt rúm.
Ógerningur væri að telja upp í stuttri blaðagrein öll þau góðverk, sem Herinn hefur unnið í þágu Reykvíkinga í rúma öld. En þau verk hafa verið fjölbreytileg og ekki einskorðast við Herkastalann og næsta nágrenni hans eins og sumir halda e.t.v. Ljóst er að við Reykvíkingar stöndum í mikilli þakkarskuld við Hjálpræðisherinn.
Flutningur í Sogamýri
Fyrir nokkrum árum ákvað Hjálpræðisherinn að selja kastalann við Kirkjustræti og byggja nýtt hús undir starfsemina. Gamla húsið var komið til ára sinna og hentaði ekki lengur eins og gefur að skilja. Sótt var um lóð hjá borginni og fékk Herinn úthlutað lóð í Sogamýri við hlið lóðar, sem skömmu áður hafði verið úthlutað undir moskubyggingu.
Þegar moskulóðinni var úthlutað til Félags múslima ákvað borgarráð að fella niður öll gjöld vegna hennar.
Köld kveðja til Hjálpræðishersins
Við úthlutun lóðarinnar til Hjálpræðishersins brá hins vegar svo við að borgin ákvað að rukka lóðagjöld, sem nema um 55 milljónum króna. Lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað til að Hjálpræðisherinn fengi sams konar fyrirgreiðslu og lóðarhafinn við hliðina enda um trúfélag að ræða í báðum tilvikum. Tillögur þessar voru ýmist felldar eða þeim vísað frá að tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, með atkvæðum Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna.
Ótrúleg mismunun
Þessi afstaða vinstri meirihlutans til Hjálpræðishersins er auðvitað ótrúleg þegar haft er í huga starfsemi samtakanna í þágu bágstaddra Reykvíkinga undanfarin 126 ár. Það starf er auðvitað ekki hægt að meta til fjár en með slíkri niðurfellingu lóðargjalda hefði borgin a.m.k. getað sýnt samtökunum táknrænan þakklætisvott.
Vonandi sér meirihluti borgarstjórnar að sér og endurgreiðir lóðagjöldin, nú þegar húsið hefur verið tekið í notkun. Þannig yrði loks leiðrétt mismunun gagnvart þessu trúfélagi og þeim hjálparsamtökum, sem Reykvíkingar standa í mestri þakkarskuld við. Ekki þyrfti að óttast að hinu endurgreidda fé yrði varið í vitleysu. Því yrði öllu varið í þágu bágstaddra.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. september 2021.