Kjartan Magnússon, frambjóðandi í 4. sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður:
Í alþingiskosningunum 25. september velur þjóðin fulltrúa til að stjórna sameiginlegum málum sínum næstu fjögur ár. Strax eftir kosningar hefjast þingmenn handa við að mynda ríkisstjórn. Mikilvægt er að slík stjórn hafi styrk til að takast á við erfið viðfangsefni og sé nægilega traust til að tryggja stöðugleika í stjórnmálum og efnahagsmálum.
Íslensk stjórnmál þróast nú með þeim hætti að flokkum og framboðum fjölgar. Aldrei áður hafa jafnmargir flokkar tilkynnt framboð í aðdraganda alþingiskosninga. Nýjustu skoðanakannanir sýna að níu flokkar gætu fengið fulltrúa kjörna í kosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærstur flokka með í kringum 24% fylgi en flestir hinna mælast með 5-14% fylgi. Út frá því er eðlilegt að spurt sé hvort skeið smáflokkakraðaks sé runnið upp í íslenskum stjórnmálum.
Smáflokkar og smákóngar
Ljóst er að slíkt kraðak smáflokka mun ekki auðvelda myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum, hvað þá traustrar stjórnar, sem tæki á viðfangsefnum næstu ára af festu og ábyrgð. Með eintómum smáflokkum á Alþingi (og smákóngum sem þurfa að fá metnaði sínum fullnægt) verður hvorki hægt að mynda trausta né vel starfhæfa ríkisstjórn. Upplausn kæmi í stað ábyrgðar.
Sjálfstæðisflokkurinn nýtur langmests fylgis stjórnmálaflokka samkvæmt áðurnefndum könnunum og verður því áfram kjölfestan í íslenskum stjórnmálum. Flokkinn vantar þó fleiri atkvæði ef tryggja á að hann geti komið að myndun þriggja flokka ríkisstjórnar og enn meira afl til að geta myndað tveggja flokka stjórn, sem væri æskilegast.
Útilokunarstefna Pírata og Samfylkingar
Ekki væri hægt að mynda þriggja flokka ríkisstjórn ef niðurstaða kosninga verður á þessa leið. Jafnvel yrði einungis hægt að mynda fjögurra flokka stjórn með aðild Sjálfstæðisflokksins. Í þessum dæmum eru ekki teknar með í reikninginn nýlegar yfirlýsingar forystumanna Pírata og Samfylkingar, sem telja þessa flokka yfir það hafna að vinna með sumum öðrum flokkum í ríkisstjórn. Slík útilokunarstefna mun gera stjórnarmyndun að loknum kosningum enn torveldari en ella.
Mikilvæg verkefni fram undan
Núverandi ríkisstjórn hefur unnið að mörgum mikilvægum verkefnum með farsælum hætti. Eftir kosningar þurfa Íslendingar áfram sterka stjórn, sem getur unnið samhent að mikilvægum málum eins og endurreisn atvinnulífsins, bættum lífskjörum, aðhaldi í ríkisfjármálum og umbótum í opinberri þjónustu, ekki síst í heilbrigðisþjónustunni.
Skýrir valkostir kjósenda
Valkostir kjósenda eru skýrir. Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum eykur líkur á að hægt verði að mynda trausta meirihlutastjórn tveggja eða þriggja flokka að loknum kosningum. Í slíku stjórnarsamstarfi mun Sjálfstæðisflokkurinn beita sér fyrir áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum og sókn í atvinnumálum. Þannig leggjum við frekari grundvöll að aukinni verðmætasköpun, bættum lífskjörum og öflugu velferðarkerfi.
Atkvæði greitt öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum myndi auka líkurnar á myndun fimm eða sex flokka vinstristjórnar þar sem hver höndin væri upp á móti annarri. Reynslan sýnir að auknar álögur á almenning eru oft hið eina sem góð sátt næst um hjá slíkum ríkisstjórnum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2021.