Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Ýmsir höfðu væntingar um að staðið yrði við framkvæmdaáætlun í tengslum við samgöngusáttmála sem gerður var 2019. Gert var ráð fyrir að nýjum gatnamótum við Arnarnesveg og Bústaðaveg yrði lokið á árinu 2021. Ekkert bólar á þessum framkvæmdum og er ljóst að hvorug þeirra verður tilbúin á kjörtímabilinu þrátt fyrir skrifleg loforð. Ljósastýringar í borginni hafa verið í lamasessi. Var sérstaklega tekið á því að fara ætti í úrbætur strax árið 2019. Ekkert hefur gerst í þeim efnum.
Frekari þrengingar
Flestir eru sammála um að fara þarf í stórfellt átak í samgöngumálum, en algert stopp hefur ríkt í borginni um úrbætur í meira en áratug. Fáum kom þó í hug að fjárfesta ætti í frekari þrengingum. Á síðustu árum hefur orðið strætóstoppistöð fengið nýja merkingu þegar þær hafa verið færðar inn á akbrautir þannig að öll umferð stöðvast um leið og strætó. Hraðahindranir eru víða og eru sérstakur kostnaðarliður í rekstri bíla og strætisvagna. Nú eru uppi hugmyndir um borgarlínu í miðju vegstæða. Slíkt fyrirkomulag myndi útiloka vinstri beygjur og lengja þar með vegalendir umtalsvert. Fyrir liggur áætlun um að lækka hámarkshraða verulega á mikilvægum brautum sem tengja hverfin saman. Slíkt mun auka enn frekar á umferðarvandann. Þá er búið að kynna þá furðulegu hugmynd að fækka akreinum á lykilakbrautum eins og Suðurlandsbraut til að leggja undir borgarlínu. Samantekið eru þetta allt aðgerðir til að þrengja verulega að umferð í borginni.
Leysum umferðarhnútana
Ekkert bólar á lausnum, eins og endurbótum á hættulegum ljósastýrðum gatnamótum, Sundabraut og betri ljósastýringu. Kransæðastífla verður seint læknuð með því að fækka æðum. Æðavíkkun hentar betur. Hjáveituaðgerðir eru stundum nauðsyn eins og Sundabraut. Tæknilausnir í ljósastýringu og snjallvæðingu gangbrauta eru nútímalausnir sem hafa tafist í Reykjavík. Við eigum að vinna saman að snjöllum lausnum og leysa vandann. Búum ekki til vandamál þegar lausnirnar eru bæði þekktar og hagkvæmar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2021.