Undir álagi
'}}

Eftir Valgerði Sigurðardóttur og Þorvald Tolla Ásgeirsson

Við erum öll að fóta okkur í nýjum raunveruleika heimsfaraldurs sem hefur leikið okkur grátt. Það þarf að huga að mörgu og ríki og sveitarfélög þurfa að bregðast hratt við gagnvart starfsfólki sínu sem staðið hefur í eldlínunni, þar hefur ríkið staðið sig betur en sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Það eru margar starfsstéttir sem hafa verið undir miklu álagi síðan Covid-heimsfaraldurinn skaut upp kollinum. Margt af því fólki sem vinnur á vegum sveitarfélaga hefur lagt á sig meiri vinnu en áður en heimsfaraldurinn skall á, fólk sem ekki hefur fengið neinar sérstakar álagsgreiðslur fyrir sín störf, þar geta sveitarfélög gert miklu betur. Nú þegar hefur t.d. borist erindi um álagsgreiðslur til sjúkraflutningafólks SHS til Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins þeirri beiðni var vísað til heilbrigðisráðuneytis.

Álagsgreiðslur

Tekjur Reykjavíkurborgar drógust ekki saman vegna Covid árið 2020, ólíkt öðrum sveitarfélögum sem misstu stóran hluta af sínum tekjustofni. Því hefur Reykjavíkurborg tækifæri til þess að gera betur fyrir það starfsfólk sem hefur unnið undir miklu álagi síðan að heimsfaraldurinn braust út. Þetta getum við gert án þess að skerða grunnþjónustu einfaldlega með því að falla frá verkefnum sem eru fyrirhuguð og flokkast ekki undir grunnþjónustu. Líkt og endurgerð á Grófarhúsinu, sú endurgerð á að kosta 4,5 milljarða og á að lífga upp á hús sem er í fullkomnu lagi. Einnig væri hægt að auka verulega einskiptistekjur sem hafa verið að dragast saman með því að auka framboð lóða. Þannig væri auðveldlega hægt að afla meiri tekna fyrir borgina og láta hluta þeirra fara í álagsgreiðslur. Ríkið varði milljarði í álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks árið 2020, þetta hafa sveitarfélög ekki leikið eftir fyrir sitt fólk sem hefur verið undir miklu álagi. Reykjavíkurborg getur auðveldlega tekið af skarið og greint það hvaða starfsstéttir hafa verið undir meira álagi eftir að heimsfaraldurinn skall á og greitt þeim sem verið hafa undir miklu álagi sérstaka álagsgreiðslu.

Áframhaldandi heimsfaraldur

Við vitum ekki mikið um framhaldið annan en að á heimsfaraldrinum verður framhald og því er viðbúið að ákveðnar starfsstéttir munu áfram búa við aukið álag. Fjárfestum í fólkinu okkar, þeim sem hafa lagt mikið á sig til þess að líf okkar allra raskist sem minnst, þeim sem hafa unnið undir miklu álagi í yfir eitt og hálft ár og munu því miður verða að vinna undir miklu álagi enn þá.

Höfundar eru borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður félags sjálfstæðismanna í Grafarvogi.

Morgunblaðið, 12. ágúst. 2021