Íslandsmeistaramótið í sósíalisma?
'}}

Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Baráttan vegna komandi kosninga er rétt að hefjast og ekki fyllilega komið fram hvaða málefni það verða, sem mesta athygli munu fá af hálfu flokkanna. Sumt er þó farið að skýrast, meðal annars það að allnokkrir flokkar og frambjóðendur á vinstri vængnum virðast telja það vænlegt til árangurs að staðsetja sig sem lengst til vinstri og kenna sig jafnvel við ómengaðan sósíalisma. 

Málflutningur frá miðri síðustu öld

Að hluta til birtist þessi vinstri sveifla í stefnumálum viðkomandi flokka, en þó enn frekar í upphrópunum og orðavali, sem oft á tíðum ber meiri keim af  stjórnmálaumræðu frá miðri síðustu öld heldur en þeim áherslum sem ríkjandi hafa verið í stjórnmálaumræðu á Vesturlöndum síðustu 30 árin eða svo. Málflutningurinn snýst um stéttabaráttu, öreiga og auðkýfinga, ofurríka fámenna yfirstétt sem mergsýgur snauða alþýðuna, andúð á atvinnurekstri í einkaeigu og ofurtrú á ríkislausnum og opinberum rekstri. Birtingarmyndirnar eru mismunandi en undirtónninn sá sami; til að bjarga almenningi úr heljargreipum kapítalismans þarf að umbreyta samfélaginu í anda sósíalískrar hugmyndafræði. Virðist þá litlu skipta, að allar tilraunir til að byggja þjóðskipulag á þeim grunni hafa endað með skelfingu.

Flokkurinn, sem fremstur fer í þessum málflutningi, kennir sig feimnislaust við sósíalisma en fleiri leita á sömu mið. Sérstaklega hefur hraðferð Samfylkingarinnar til vinstri vakið athygli en augljóst er að sá flokkur lítur á Sósíalistaflokkinn sem harðvítugan samkeppnisaðila. Vinstri græn vilja svo auðvitað minna á sig í þessu sambandi og mun það sjálfsagt færast í aukana eftir því sem nær dregur kosningum. Bilið milli Pírata og annarra flokka á vinstri vængnum hefur að mörgu leyti verið að styttast jafnt og þétt á undanförnum árum en forvitnilegt verður að sjá hvort þeir blanda sér nú af fullum krafti í keppnina um það hver sé mesti sósíalistinn.

Að sumu leyti er allt í lagi fyrir okkur, sem nálgumst stjórnmálin úr annarri átt, að íslenskir vinstri menn gefi sig alla í þessa Íslandsmeistarakeppni í sósíalisma. Það er gott fyrir alla að skerpa á hugmyndafræðinni og rifja upp að stjórnmál snúast um mismunandi hugsjónir og val milli ólíkra sjónarmiða og raunverulegra valkosta en ekki bara um tæknilegar útfærslur eða vinsældakeppni einstaklinga. Það að uppvakningar sósíalismans eru komnir á stjá gefur okkur, sem teljum okkur hægra megin á hinu pólitíska litrófi, tilefni til að skerpa á okkar eigin málflutningi og rifja upp á hvaða hugmyndafræðilega grundvelli við stöndum. 

Aukin skautun - allt eða ekkert

Gallinn við vinstri sveiflu vinstri flokkanna er hins vegar einkum aukin harka í umræðunni og það sem stjórnmálafræðingar tala um sem skautun í stjórnmálum, sem felur í sér að bilið milli flokka eykst og getur haft þær afleiðingar að sífellt erfiðara verði að ná sæmilegri samstöðu um málamiðlanir, sem alltaf eru nauðsynlegar í stjórnmálum, ekki síst í fjölflokkakerfi eins og við búum við. Stjórnmálaumræða, sem byggir á ófrávíkjanlegum skilyrðum, úrslitakostum, kröfum um allt eða ekkert og útilokun málamiðlana er ekki gæfuleg þegar kemur að úrlausn raunverulegra viðfangsefna við stjórn landsins eða lagasetningu á Alþingi. Það er nefnilega eitt að hafa skýr stefnumál og hugsjónir og annað að vera svo ósveigjanlegur að engar málamiðlanir komi til greina. Menn mega ekki gleyma því að stjórnmál eru list hins mögulega og til þess að ná árangri getur verið nauðsynlegt að setja ágreining til hliðar, slá af ítrustu kröfum og finna frekar það sem sameinar heldur en það sem sundrar. 

Skökk mynd

En það eru fleiri gallar, sem fylgja stóryrðakapphlaupi vinstri manna um þessar mundir. Þannig er það áhyggjuefni, að sú mynd sem dregin er upp af þjóðfélagi okkar er á margan hátt skökk og í litlum tengslum við raunveruleikann. Málflutningur sumra þeirra háværustu úr röðum vinstri manna er stundum á þá leið, að hér hafi á undanförnum árum verið við lýði óheft nýfrjálshyggja, hreinn kapítalismi, grimmur niðurskurður í opinberri þjónustu, vaxandi ójöfnuður og versnandi lífskjör alls almennings. Ekkert af þessu stenst skoðun. Hvort sem litið er til þróunar hér innanlands eða samanburðar við nágrannalöndin kemur skýrt í ljós að ekkert gefur tilefni til fullyrðinga af þessu tagi. Heildarumsvif hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hafa fremur vaxið en minnkað á undanförnum árum. Ætti sú þróun reyndar að vera meira umhugsunarefni fyrir okkur sem stöndum hægra megin en þá sem tala fyrir sósíalisma.

Þá er til þess að líta, að jöfnuður er meiri hér á landi en víðast hvar í helstu samanburðarlöndum, hvort sem litið er til tekna eða eigna. Lífskjör alls almennings hafa líka farið batnandi og kaupmáttur aukist jafnt og þétt. Tímabundnir erfiðleikar vegna covid 19 virðast ekki breyta þessari heildarmynd.

Samfélag okkar er svo sannarlega ekki fullkomið og margt má bæta, en sú mynd af stöðu mála, sem talsmenn sósíalisma úr ýmsum flokkum hafa haldið á lofti, er víðs fjarri raunveruleikanum. 

Morgunblaðið, 14. ágúst. 2021