Við rífumst og okkur blæðir
'}}

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Ekki var við öðru að bú­ast en að ákvörðun heil­brigðisráðherra með stuðningi rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að grípa aft­ur inn í dag­legt líf og skerða at­hafna­frelsi fólks, vegna óhag­stæðrar þró­un­ar kór­ónu­veirunn­ar, yrði um­deild. Og það hefði sýnt mikla léttúð af hálfu rík­is­stjórn­ar­inn­ar að efna til stutts fund­ar um aðgerðirn­ar. Fjöl­miðlar sneru hins veg­ar öllu haus og töldu það merki um djúp­stæðan ágrein­ing og jafn­vel hugs­an­leg stjórn­arslit að ráðherr­ar skyldu „leyfa“ sér að ræða sam­an í um þrjá klukku­tíma. Kannski réð þar ósk­hyggja – sú sama og virðist ráða för hjá flest­um stjórn­ar­and­stæðing­um og álits­gjöf­um.

Ákvörðun um inn­leiða að nýju fjölda­tak­mark­an­ir, grímu­skyldu, ná­lægðarmörk og tak­mörk­un af­greiðslu­tíma skemmti­staða, er ekki létt­væg. Með henni er ljóst að ekki verður staðið við fyr­ir­heit stjórn­valda um að dag­legt líf inn­an­lands yrði eðli­legt þegar stærsti hluti þjóðar­inn­ar hefði verið bólu­sett­ur. Og það hef­ur ekki aðeins í för með sér efna­hags­leg­an kostnað held­ur ekki síður nei­kvæð fé­lags­leg og sál­ræn áhrif.

Í frjálsu sam­fé­lagi er sér­stak­lega mik­il­vægt að stjórn­völd á hverj­um tíma virði grunn­rétt­indi borg­ar­anna og starfi inn­an þeirra vald­marka sem þeim eru mörkuð. Geti borg­ar­arn­ir ekki treyst að þessi regla sé virt brest­ur sam­fé­lagið. Hitt er rétt að í varn­ar­bar­áttu gegn hættu­leg­um vá­gesti ber stjórn­völd­um að grípa til aðgerða til að verja borg­ar­ana. Sú varn­ar­bar­átta verður ekki háð án þess að virða stjórn­ar­skrár­bund­inn rétt ein­stak­linga og gæta meðal­hófs í öll­um aðgerðum.

Því miður á þetta sjón­ar­mið und­ir högg að sækja hér á landi líkt og víða í hinum frjálsa heimi. Og þess vegna ríf­umst við og okk­ur blæðir á sama tíma.

Skýr framtíðar­sýn nauðsyn

Svo virðist sem marg­ir vilji ekki að rætt sé um efna­hags­legu áhrif þess að skerða at­hafna- og fé­lags­legt frelsi ein­stak­linga, jafn­vel þótt aug­ljóst sé að til lengri tíma molni und­an stoðum vel­ferðarsam­fé­lags­ins og lífs­kjör­um al­mennt. Í ferðaþjón­ustu er áætlað að tapaður virðis­auki vegna far­ald­urs­ins sé nær 150 millj­arðar króna, sam­kvæmt skýrslu sem Ferðamála­stofa lét gera. Tap þjóðarbús­ins í heild sinni er mun meira.

Það er kór­rétt hjá Birgi Jóns­syni, for­stjóra flug­fé­lags­ins Play, að stjórn­völd þurfa að setja fram skýra framtíðar­sýn og mark­mið í bar­átt­unni við kór­ónu­veiruna. Í sam­tali við mbl.is í síðustu viku sagði Birg­ir að stefn­an verði að vera skýr og ljóst til hvers sé bar­ist og hvaða mark­miðum eigi að ná. „Maður er fyrst og fremst að skynja að fólk átti sig ekki al­veg á því, einu sinni var mark­miðið að verja heil­brigðis­kerfið og svo eldra fólkið en nú er fólk kannski ekki al­veg með á hreinu hver til­gang­ur­inn er,“ sagði Birg­ir sem seg­ir að við séum „öll í sama bátn­um“.

Úlfar Stein­dórs­son, frá­far­andi stjórn­ar­formaður Icelanda­ir Group, er einnig gagn­rýn­inn. Í viðtali við Viðskipta­blaðið bend­ir hann á að fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu hafi verið að „ráða inn hell­ing af starfs­fólki, byggt á ákvörðun sem stjórn­völd voru búin að taka og til­kynna. Það er ekki ger­andi að ætla svo skyndi­lega að breyta því eft­ir ekki nema hálf­an mánuð, það bara geng­ur ekki upp. Við skul­um vona að skyn­sem­in verði ofan á í þessu að lok­um.“ Úlfar er ekk­ert að skafa utan af hlut­un­um:

„Þetta snýst auðvitað um að stjórn­völd, þeir full­trú­ar okk­ar sem kjörn­ir eru til að stýra land­inu, taki ákv­arðan­irn­ar. Það er ekki hægt að gagn­rýna emb­ætt­is­menn fyr­ir til­lög­ur sem þeir leggja til í sam­ræmi við hlut­verk sitt en stjórn­völd verða að byggja ákv­arðanir sín­ar á stóru mynd­inni. Ef kjör­in stjórn­völd ætla ekki að stýra land­inu, þá veit ég ekki til hvers við ætl­um að hafa kosn­ing­ar í haust. Við gæt­um þá allt eins beðið emb­ætt­is­menn um að taka við hlut­verki þeirra. Ef stjórn­mála­menn þora ekki að taka ákvörðun sem þeir vita að er rétt út frá heild­ar­hags­mun­um, vegna þess að ein­hverj­ir verða brjálaðir, þá eiga þeir að gera eitt­hvað annað en að vera í póli­tík.“

Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, skil­ur þessi sjón­ar­mið at­vinnu­lífs­ins bet­ur en flest­ir aðrir stjórn­mála­menn. Í viðtali við Frétta­blaðið um liðna helgi seg­ir hún að vissu­lega sé um bak­slag að ræða, en það sé tíma­bundið:

„Svo stend­ur upp á okk­ur [rík­is­stjórn­ina, inn­skot óbk] að svara því hvernig við ætl­um að hafa hlut­ina til framtíðar.“

Bjart­sýni þrátt fyr­ir allt

En þolgæði, út­hald og kjark­ur ein­stak­ling­anna verða seint kæfð. Jafn­vel óviss­an og sí­breyti­leg­ar regl­ur ná ekki að drepa frum­kvæði ein­stak­ling­anna – sem bet­ur fer. Með at­hafnaþrá og bjart­sýni er verið að leggja horn­steina bættra lífs­kjara um allt land. Fyr­ir þá sem hafa áhuga á ís­lensku at­vinnu­lífi hef­ur verið ánægju­legt að fylgj­ast með frétt­um síðustu daga og vik­ur af góðu gengi ólíkra fyr­ir­tækja.

Síðasta ár var besta ár hug­búnaðarfyr­ir­tæk­is­ins Tempo, sem er orðið alþjóðlegt fyr­ir­tæki með hug­búnaðarlausn­ir á sviði verk­efna­stjórn­un­ar með yfir 20 þúsund viðskipta­vini. Upp­lýs­inga­tæknifyr­ir­tækið Control­ant hef­ur sprungið út en fyr­ir­tækið hef­ur þróað raun­tíma­lausn­ir til að fylgj­ast með hita­stigi og staðsetn­ingu á viðkvæm­um vör­um í flutn­ingi og geymslu. Ýmis sprota­fyr­ir­tæki hafa náð fót­festu og fjár­mögn­un – ekki síst tölvu­leikja­fyr­ir­tæki, þar sem koma sam­an m.a. for­rit­ar­ar, hönnuðir og tón­lista­fólk sem býr til vöru óháð landa­mær­um. CCP þekkja all­ir, en ný­lega lauk hluta­fjárút­boði hjá Solid Cloud og var eft­ir­spurn­in fjór­föld. Hluta­bréf þess eru skráð á First North-markað kaup­hall­ar­inn­ar. Hug­búnaðar- og tæknifyr­ir­tæk­in eru fleiri; Laki Power, GRID, Luc­inity, efna­grein­ing­ar­fyr­ir­tækið DTE, IMS-inn­s­könn­un­ar­fyr­ir­tækið, Si­dekick Health, Gaga­rín, Mentor, Annata, Stjörnu-Oddi og þannig má lengi telja. Rót­gró­in há­tæknifyr­ir­tæki – Mar­el og Össur – standa styrk­um fót­um og sækja fram á alþjóðamörkuðum.

Frum­kvöðlar og fram­taks­menn eru ekki aðeins að leggja grunn að bætt­um lífs­kjör­um hér á landi held­ur að auka fjöl­breyti­leika at­vinnu­lífs­ins og fjölga mögu­leik­um okk­ar allra til at­vinnu. Besti stuðning­ur sem stjórn­völd geta veitt frum­kvöðlum er að tryggja stöðug­leika og fyr­ir­sjá­an­leika í stjórn­ar­at­höfn­um – ekki síst í bar­átt­unni við skæða veiru. Ábyrgðin ligg­ur ekki hjá emb­ætt­is­mönn­um, líkt og Úlfar Stein­dórs­son bend­ir rétti­lega á í gagn­rýni sinni á okk­ur stjórn­mála­menn­ina.

Að minnsta kosti ætt­um við ekki að þurfa að ríf­ast um þetta atriði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. júlí 2021.