Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Fyrir skömmu fjallaði ég um breytingarreglu stjórnarskrárinnar í grein hér í blaðinu. Annars vegar vitnaði ég til umfjöllunar Kristrúnar Heimisdóttur um mikilvægi núgildandi reglu og hins vegar vék ég að tillögu nokkurra stjórnarandstöðuflokka á þingi um breytingar í þessu sambandi. Ég tel ríkt tilefni til að ræða þetta nánar, enda er við því að búast að umræðurnar haldi áfram í aðdraganda kosninga.
Núgildandi regla hefur reynst vel
Áður en lengra er haldið vil ég ítreka það sjónarmið, að núgildandi breytingarregla hafi reynst vel. Hún felur í sér innbyggða varnagla gagnvart því að stjórnarskránni sé breytt í miklum ágreiningi, án fullnægjandi undirbúnings eða í fljótræði, en er þó á sama tíma þannig að stjórnarskrárbreytingar eru vel mögulegar, eins og fjölmörg dæmi sanna. Ef talin yrði ástæða til að breyta breytingarákvæðinu væri því grundvallaratriði að viðhalda ákveðnum þröskuldum, til að tryggja sömu meginsjónarmið um málsmeðferð, umþóttunartíma og hvata til víðtækrar samstöðu, en þó auðvitað þannig að vandaðar stjórnarskrárbreytingar verði áfram raunhæfur möguleiki.
Tilefni til breytinga á ákvæðinu?
Í gagnrýni á núverandi fyrirkomulag hafa þrenns konar sjónarmið einkum verið færð fram. Í fyrsta lagi er því haldið fram að núgildandi fyrirkomulag sé of þungt í vöfum og feli í sér of miklar hindranir. Í öðru lagi að reglan um að rjúfa skuli þing og efna til kosninga strax að lokinni fyrri samþykkt Alþingis búi til of mikla pólitíska pressu í lok kjörtímabils og sé þannig sjálfstætt vandamál þegar kemur að því að leiða stjórnarskrárbreytingar til lykta. Í þriðja lagi er svo oft nefnt, að eðlilegt sé að þjóðin eigi að eiga beina aðkomu að endanlegri afgreiðslu stjórnarskrártillagna og best fari á því á að því það gerist með því að úrslitin ráðist í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskrá
Eins og áður hefur komið fram get ég alls ekki tekið undir að ferlið samkvæmt núgildandi reglu sé of þungt í vöfum eða geri stjórnarskrárbreytingar óeðlilega erfiðar. Til þess að stuðla að stjórnskipulegri festu þarf að vera erfiðara að breyta stjórnarskrá en öðrum lögum og það er í sjálfu sér æskilegt en ekki óæskilegt að það ferli sé þannig úr garði gert að breytingarnar krefjist meiri aðdraganda og fleiri skrefa í málsmeðferð en almennt gerist um lagasetningu. Samhliða er auðvitað mikilvægt að málsmeðferðarreglurnar hvetji til samstöðu um breytingar frekar en sundrungar.
Varnagla má ekki fjarlægja nema aðrir komi í staðinn
Varðandi þá röksemd, að æskilegt sé að rjúfa tengsl stjórnarskrárbreytinga við þingrof og kosningar, er mikilvægt að horfa á samhengi hlutanna. Núverandi fyrirkomulag felur það í sér, að þingmeirihluti, sem vill breyta stjórnarskrá, verður að vera tilbúinn til þess þegar í stað að bera verk sín undir kjósendur og afla sér umboðs til starfa á nýju kjörtímabili, meðal annars til að afgreiða stjórnarskrárbreytingarnar aftur í óbreyttri mynd. Þetta hefur meðal annars þau áhrif, að dregið er úr líkum á umdeildum stjórnarskrárbreytingum. Jafnvel þótt kosningar snúist um margt annað en stjórnarskrárbreytingar þá er engu að síður ljóst, að meirihluti þings myndi að jafnaði hika við að fara í stjórnarskrárbreytingar, sem gætu mætt verulegri andstöðu kjósenda í kosningum, og að krafan um að nýtt þing samþykki tillögurnar óbreyttar að kosningum loknum felur líka í sér ríkan hvata til víðtækrar samstöðu; samstöðu sem getur haldist milli kjörtímabila. Ef þessum tengslum við þingrof og kosningar er kippt úr sambandi er óhjákvæmilegt annað en að setja í staðinn önnur skilyrði, sem líkleg eru til að stuðla að sömu markmiðum. Þar væri meðal annars hægt að hugsa sér kröfu um aukinn meirihluta á þingi og/eða þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem gerð væri krafa um lágmarksþátttöku kjósenda eða lágmarksstuðning við viðkomandi breytingar. Það má með öðrum orðum ekki kippa þessum varúðarreglum úr sambandi öðruvísi en að aðrar, jafngóðar eða betri, komi í staðinn.
Einföld þjóðaratkvæðagreiðsla nægir ekki
Af þeim sjónarmiðum, sem færð hafa verið fram gegn núverandi fyrirkomulagi, hef ég mesta samúð með hugmyndinni um að breytingarferlið eigi að enda á bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er það auðvitað svo, að í núverandi breytingarreglu felst að þjóðin hefur, eða getur haft, úrslitaáhrif á það hvort stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga eða ekki. Þegar stjórnarskrárbreytingar eru háðar samþykki tveggja þinga með þingrofi og kosningum á milli, er auðvitað verið, að minnsta kosti með óbeinum hætti, að leita til kjósenda og fá fram afstöðu til breytinganna. En það má líka gera með beinum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu. En þá væri að mínu mati alveg afdráttarlaus krafa að annaðhvort væri krafist lágmarksþátttöku í atkvæðagreiðslunni eða ákveðins lágmarksstuðnings við breytingarnar.
Leið stjórnarandstöðunnar um einfaldan meirihluta á þingi og einfalt samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu, án frekari skilyrða, er að mínu mati alveg ófær í þessu sambandi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júlí 2021.