Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Það ríki er vandfundið þar sem jöfnuður er meiri en á Íslandi. Þetta kemur skýrt fram í alþjóðlegum mælingum, þar sem lágtekjuhlutfall hefur mælst hvað lægst hér af evrópskum samanburðarríkjum og jöfnuður einna mestur.
Ekki er nóg með að jöfnuður sé meiri hér en í samanburðarríkjum, heldur sýna álagningarskrár að bilið milli þeirra sem eiga mest og minnst verður sífellt minna. Í svari við nýlegri fyrirspurn frá formanni Samfylkingarinnar kemur fram að hlutfall eigna efnuðustu prósenta landsmanna af heildarkökunni fer minnkandi. Þessi þróun hefur verið nokkuð stöðug undanfarin ár, en nú hefur hlutur þeirra ríkustu ekki verið lægri frá því í kringum síðustu aldamót.
Með þessu er ekki sagt að „réttu hlutfalli“ sé náð eða ekki þurfi að vinna áfram að bættum kjörum þeirra sem minnst hafa. Alltént er þó orðræða þeirra sem stöðugt tala um séríslenska misskiptingu og óréttlæti nokkuð sérkennileg þegar staðreyndir málsins eru skoðaðar.
Það hefur verið keppikefli okkar Íslendinga um árabil að byggja hér samfélag þar sem allir geta freistað gæfunnar og náð árangri á eigin forsendum, en halda á sama tíma úti þéttu velferðarneti sem grípur þá sem þurfa. Við viljum virkja kraftinn í einstaklingnum og skapa jarðveg þar sem fólk með góðar hugmyndir og framtakssemi að vopni getur blómstrað. Markmiðið er að stækka sífellt kökuna, frekar en að hugsa bara um hvernig á að sneiða hana niður. Við aukum ekki hagsæld með því að jafna alla niður með hærri sköttum og útþenslu hins opinbera, eins og sumir flokkar tala ítrekað fyrir.
Við siglum nú út úr tímabili heimsfaraldurs sem hefur sett mark sitt á flest svið samfélagsins. Það er samdóma álit flestra að hér hafi náðst afburða góður árangur, bæði heilsufars- og efnahagslega. Ísland stóðst Covid-storminn betur en flestar þjóðir. Næstu misseri þurfum við að halda áfram fast við sömu gildi. Jöfn tækifæri umfram jafna útkomu. Trú á fólk, frelsi og framfarir. Þannig byggjum við saman enn sterkara Ísland.
Fréttablaðið 14. júlí, 2021.