Skilja eftir flakandi sár á eitt hundrað ára afmæli Rafstöðvarinnar
'}}

Björn Gíslason borgarfulltrúi:

Ný­verið skilaði stýri­hóp­ur um Elliðaár­dal - hvar und­ir­ritaður átti sæti - skýrslu um Elliðaár­dal og framtíð hans til borg­ar­ráðs. Er þar fjallað um ýmis mál­efni dals­ins sem all­ir geta verið sam­mála um - en ég gat hins veg­ar á eng­an hátt fellt mig við þær niður­stöður skýrsl­unn­ar að hleypt hafi verið úr stíflu­lón­inu við Árbæj­ar­stíflu var­an­lega og hvernig að því var staðið. Þess vegna sá ég mig knú­inn til að skila séráliti hvað það varðaði.

Í séráliti mínu setti ég fram þá skoðun mína að með því að taka ákvörðun um að hleypa úr lón­inu með var­an­leg­um hætti og eyða þannig því lóni sem verið hef­ur fyr­ir ofan stífl­una í eitt hundrað ár, án nauðsyn­legra skipu­lags­breyt­inga eða leyfa og án nokk­urs sam­ráðs við íbúa á svæðinu, hafi Orku­veita Reykja­vík­ur brotið gróf­lega gegn lög­um og rétti íbúa á svæðinu og í raun allra íbúa Reykja­vík­ur. Enda er svæðið eitt vin­sæl­asta úti­vist­ar­svæðið í Reykja­vík og það sækja tugþúsund­ir Reyk­vík­inga auk inn­lendra og er­lendra gesta.

Þessi skoðun mín er ekki úr lausu lofti grip­in enda hafði ákvörðunin um að hleypa úr um­ræddu lóni veru­leg áhrif á lands­lag þessa stærsta úti­vist­ar­svæðis Reykja­vík­ur. Þá hafði aðgerðin um leið veru­leg áhrif á nærum­hverfi tugþúsunda íbúa Reykja­vík­ur, en íbú­arn­ir sem búa á nær­liggj­andi svæðum eru vel á fjórða tug þúsunda.

Prýtt forsíður kynn­ing­ar­bæk­linga, dag­blaða og er­lendra vefsíðna

Um er að ræða ákvörðun um að eyða lóni sem var meira en 20.000 fm. að stærð þegar öll Breiðan og Lygn­an eru tal­in með. Aug­ljóst er hve mik­il áhrif þetta hef­ur á lands­lag og um­hverfi auk þess sem lónið skartaði fjöl­breyttu fugla­lífi sem dró til sín tugþúsund­ir borg­ara ár hvert. Lónið var auk þess al­mennt viður­kennt sem and­lit þess svæðis Elliðaár­dals sem nefnt er Árbæj­ar­svæðið í deili­skipu­lagi auk þess að vera miðpunkt­ur og ásýnd svæðis­ins í eitt hundrað ár. Var það eng­in til­vilj­un enda var um að ræða mjög fal­legt lón sem speglaði nærum­hverfi sitt og him­in auk þess sem það skartaði fjöl­breyttu fugla­lífi sem fólk sótti í. Hef­ur lónið og fugla­líf þess sem slíkt prýtt forsíður kynn­ing­ar­bæk­linga Reykja­vík­ur­borg­ar, síður dag­blaða og er­lend­ar vefsíður sem fjalla um úti­vist­ar­mögu­leika í Reykja­vík.

Þá er rétt að nefna að stífla þessi olli mikl­um straum­hvörf­um í lífi Reyk­vík­inga enda fengu Reyk­vík­ing­ar fyrst raf­magn fyr­ir til­stuðlan henn­ar. Hér er því um mik­il menn­ing­ar­verðmæti sem eru samof­in sögu Reykja­vík­ur - en nú eru akkúrat eitt hundrað ár síðan Raf­stöðin við Elliðaár var tek­in í notk­un og Reyk­vík­ing­ar fengu raf­magn, sem gerðist við hátíðlega vígslu 27. júní 1921 þegar Kristján X. Dana­kon­ung­ur og Al­ex­andrína drottn­ing vígðu raf­stöð Reyk­vík­inga í Elliðaár­dal.

Þess var minnst í gær, sunnu­dag­inn 27. júní, en við það til­efni lét borg­ar­stjóri hafa eft­ir sér að við ætt­um að líta á Elliðaár­dal­inn sem þjóðgarð í borg og standa vörð um hann um ald­ir alda. Þarna erum ég og borg­ar­stjóri sam­mála en þessi orð hans skjóta þó skökku við í ljósi und­an­geng­inna at­b­urða og ljóst að þarna fara hvorki hljóð og mynd sam­an. Því miður.

Það að Orku­veita Reykja­vík­ur (OR) hafi tekið sér það vald að eyða fyr­ir­vara­laust þessu svæði Elliðaár­dals og breyta þannig var­an­legu lands­lagi dals­ins og upp­lif­un borg­ar­anna af þess­um menn­ing­ar­verðmæt­um og skilja eft­ir flak­andi sár á eitt hundrað ára af­mæli Raf­stöðvar­inn­ar er full­kom­lega óboðlegt að mati und­ir­ritaðs.

Fel­ur sú aðgerð í sér skýrt brot gegn skipu­lagslög­um og meg­in­sjón­ar­miðum um skipu­lag borga þar sem strang­ar regl­ur gilda um breyt­ing­ar á lands­lagi og mann­virkj­um og þá sér­stak­lega þegar um er að ræða stór­an hluta lands­lags og um­hverf­is sem staðið hef­ur óbreytt í 100 ár. Er það að mínu mati frá­leitt að Reykja­vík­ur­borg, sem ber ábyrgð á því að halda uppi lög­um og reglu í skipu­lags­mál­um borg­ar­inn­ar, standi nú með öll­um til­tæk­um ráðum vörð um slíkt skipu­lags­brot.

OR hef­ur vísað til þess að því beri að koma um­ræddu svæði í upp­runa­legt horf. Ég bendi hins veg­ar á móti á að ef það á að koma svæði eins og þessu í upp­runa­legt horf þá þurfa að liggja fyr­ir upp­lýs­ing­ar um það hvernig svæðið leit út áður en að Árbæj­ar­stífl­an var reist og lónið varð til. Bend­ir margt til þess að það hafi verið lón á svæðinu í ein­hverri mynd áður en að stífl­an var byggð og því hafi henni verið val­inn þessi staður. Ef ætl­un­in var að koma svæðinu í upp­runa­legt horf þá er það frumskil­yrði að kom­ast fyrst að því hvernig svæðið leit út fyr­ir bygg­ingu stífl­unn­ar. Ef fall­ast ætti á þenn­an rök­stuðning OR þá bæri OR með sama hætti að opna fyr­ir Elliðavatns­stífl­una og koma því svæði í upp­runa­legt horf en það mundi hafa í för með sér að helm­ing­ur Elliðavatns mundi hverfa. Það vilja íbú­ar Reykja­vík­ur ekki sjá.

Það er aug­ljóst að OR hef­ur ekk­ert ein­hliða vald til slíkra inn­gripa í um­hverfi lands­manna hvorki hvað varðar Elliðavatn né Árbæj­ar­lón enda lúta bæði þessi vötn sömu regl­um og eru bæði á skipu­lagi. OR verður eins og aðrir íbú­ar þessa lands að fara eft­ir lög­um og skipu­lagi þegar ráðist er í aðgerðir eins og þess­ar í stað þess að hleypa fyr­ir­vara­laust úr lón­inu nán­ast í skjóli næt­ur án heim­ilda og í and­stöðu við gild­andi skipu­lag.

OR á ekki að sýsla með skipu­lags­mál

Þá hef­ur OR vísað til þess að þetta bætti fyr­ir laxa­gengd í Elliðaán­um. Ég tel það megi hins veg­ar ná þeim sömu mark­miðum með öðrum leiðum auk þess sem það rétt­læti ekki að brjóta gegn lög­um og skipu­lagi. Í þessu sam­bandi er rétt að taka það fram að Haf­rann­sókna­stofn­un setti fram til­lögu þar sem tekið var til­lit til beggja þess­ara sjón­ar­miða en í henni fólst að hafa lónið áfram í sum­arstöðu sam­kvæmt deili­skipu­lagi allt árið en halda kvísl­inni sunn­an meg­in op­inni allt árið.

Ég tel því að eng­in rök hafi staðið til þess að hleypa úr lón­inu og að aðgerð OR hafi auk þess verið ólög­mæt og ger­ræðis­leg fram­kvæmd án sam­ráðs við yf­ir­völd eða íbúa. Eft­ir stend­ur svæðið eins og flak­andi sár og horfa veg­far­end­ur yfir ber­an leir­inn ofan í þær fleyguðu og sprengdu vatns­rás­ir sem gerðar voru á sín­um tíma til að koma vatni ofan af Breiðunni sem áður var aðal­hluti lóns­ins. Fugla­líf ofan við stífl­una er nú nán­ast ekk­ert í stað þess sem áður var en þá var lónið fullt af fjöl­breyttu fugla­lífi. Öllum þeim sem fara á svæðið í dag og kynna sér ástand þess og bera það sam­an við mynd­ir af því lóni sem þar var áður, má vera ljóst að unnið hef­ur verið skemmd­ar­verk á svæðinu með því að hleypa úr lón­inu.

Ég er þeirr­ar skoðunar að það eigi án taf­ar að leiðrétta þá ólög­mætu fram­kvæmd að tæma Árbæj­ar­lónið og að yf­ir­borði lóns­ins verði aft­ur komið í það horf sem það á að vera sam­kvæmt deili­skipu­lagi og það hef­ur verið í meira en hundrað ár. Í fram­haldi verði það skoðað í sam­ræmi við lög og í sam­ráði við íbúa í aðliggj­andi hverf­um og aðra Reyk­vík­inga svo og þá hags­muna­hópa sem eiga hags­muna að gæta á svæðinu, þ.á.m. stang­veiðimenn, Holl­vina­sam­tök Elliðár­dals, Íbúa­sam­tök, nátt­úru­vernd, Haf­rann­sókna­stofn­un og Heil­brigðis­eft­ir­lit Reykja­vík­ur, hver eigi að vera næstu skref varðandi mót­un svæðis­ins til framtíðar.

Ég tel jafn­framt að fram­kvæmd­in eigi að eiga sér stað und­ir stjórn Reykja­vík­ur­borg­ar sem eig­anda svæðis­ins en ekki Orku­veitu Reykja­vík­ur enda eru skipu­lags­mál sem þessi langt utan verksviðs Orku­veit­unn­ar, þ.e. að móta um­hverfi Reyk­vík­inga og sýsla með skipu­lags­mál íbúa.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2021.